Ragnhildur Sverrisdóttir situr í stjórn Hinsegin daga og tekur þátt í skipulagningu fjölbreyttrar fræðsludagskrár á Hinsegin dögum sem hefjast formlega í dag.

Ragnhildur kom fyrst inn í Samtökin ’78 árið 1979, eða ári eftir stofnum þeirra, og var fyrsta konan sem settist í stjórn snemma á níunda áratugnum.

„Ég hef verið viðloðandi samtökin lengi en með löngum hléum þar til ég kom inn aftur til að starfa með Hinsegin kórnum og svo í framhaldi af því fór ég að starfa fyrir Hinsegin daga,“ segir Ragnhildur.

„Við áttuðum okkur á því þegar við vorum að undirbúa Hinsegin daga í ár að fólk sem er opinberlega hinsegin í dag dekkar allar kynslóðir. Þau sem stóðu að stofnun Samtakanna ’78 á sínum tíma eru komin á ellilífeyrisaldur.“

Ragnhildur segir að Samtökin séu góður mælikvarði á þá þróun sem orðið hefur í málefnum hinsegin fólks á Íslandi á þeim 43 árum sem eru liðin frá stofnun þeirra. Upphaflega voru þau félag homma og lesbía á Íslandi en eru nú regnhlífarsamtök fjölbreyttra aðildarfélaga. Það eru félög eins og Trans Ísland, Intersex Ísland, ýmis landshlutafélög, félag aðstandenda og foreldra, Hinsegin kórinn, BDSM á Íslandi og fleiri félög.

„Það hefur svo margt breyst hjá Samtökunum frá því þau voru stofnuð. Þau eru núna með frábært fræðslustarf og stuðning, lögfræðiráðgjöf og svo margt fleira. Hinsegin dagar eru eitt af aðildarfélögunum. Við erum sjálfstætt starfandi félag undir þessari regnhlíf,“ segir hún.

Ragnhildur Sverrisdóttir er í stjórn Hinsegin daga og hefur komið að skipulagi fjölbreyttrar fræðsludagskrár á hátíðinni.

Fjölbreyttari hópur en fyrr

Ragnhildur segir að í dag séum við komin á þann stað að hinsegin fólk er orðið miklu fjölbreyttari hópur en nokkru sinni fyrr og á öllum aldri.

„Þess vegna ákváðum við að þema Hinsegin daga í ár yrði hinsegin á öllum aldri. Það er komin félagsmiðstöð fyrir 13-17 ára hinsegin ungmenni en við þurfum líka að pæla í því hvernig það er að eldast hinsegin,“ segir hún.

Ragnhildur tekur sem dæmi að á hjúkrunarheimilum í dag blasi við sá nýi veruleiki að fólk er að koma þar inn sem hefur verið opið með sína kynhneigð og út úr skápnum stóran hluta lífs síns.

„Þetta fólk hefur ekki verið í felum með hver þau eru og vill halda því áfram. Það vill ekki fara inn í skápinn af því það er komið á hjúkrunarheimili,“ segir hún.

„Kona hér á Íslandi sagði frá því í viðtali að þegar hún fór inn á hjúkrunarheimili þá upplifði hún það þannig að það væri ekki tekið tillit til hennar reynslu og hennar löngu sambúðar með konu. Hún var einhvern veginn komin inn í skápinn aftur því það var hreinlega ekki gert ráð fyrir að hún væri lesbísk. Það er alltaf gengið út frá því alveg frá leikskóla og upp úr að foreldrar þínir séu karl og kona, að maki þinn sé af hinu kyninu. Öll eyðublöð miða við þetta heterónormatífa. Alltaf, öll!“

Ragnhildur segir að þetta sé mjög lýjandi svo vægt sé til orða tekið.

„Í stærri samfélögum eins og í Danmörku, þar eru rekin sérstök hjúkrunarheimili og elliheimili fyrir hinsegin fólk. Sá hópur sem er elstur núna hefur oft þurft að fara mjög erfiða leið til að fá frelsi. Ég sá til dæmis viðtal við gamlan Dana fyrir nokkrum árum. Hann hafði bara stungið myndunum af sér og manninum sínum niður í skúffu. Honum fannst erfitt að þurfa að koma út úr skápnum aftur gagnvart öllu starfsfólkinu á þessu nýja heimili sínu, svo hann bara hrökklaðist inn í skápinn aftur. Svo var stofnað þetta nýja hjúkrunarheimili, hann flutti þangað og er með allar sínar fjölskyldumyndir og regnbogafána upp um alla veggi, alls staðar. Þetta skiptir máli, það skiptir máli að fá að hvíla sæll í sjálfum sér, sama hvar þér er holað niður,“ segir hún.

Myndin var valin fyrir tímarit hinsegin daga í ár. Hún lýsir vel kynslóðaþemanu. Hinsegin á öllum aldri.
Mynd/Catherine Soffía Guðnadóttir

Sögur þriggja kynslóða

Í takt við þemað að hinsegin fólk sé á öllum aldri er viðburður í Máli og menningu í dag klukkan 17 sem heitir Samtal kynslóða. Þar munu þrír einstaklingar af þremur kynslóðum segja frá sjálfum sér frá tvítugu og leiðinni þangað sem þau eru í dag.

„Yngsti fulltrúinn heitir Mars M. Proppé. Hán er 23 ára svo það er ekki langt síðan hán var tvítugt. Háns reynsluheimur er allt annar en Hilmars Hildar Magnússonar sem er 45 ára. Hann var formaður Samtakanna ’78 um tíma og þekkir réttindabaráttuna frá ýmsum hliðum. Elst í hópnum er svo rokk-amman Andrea Jóns, sem er komin yfir sjötugt. Þannig að við erum óumdeilanlega með þrjár kynslóðir sem setjast niður og deila reynslu sinni. Ég held að það verði mjög áhugavert að hlusta á þau. Þau dekka eiginlega allan þann tíma sem það hefur verið einhver sýnileiki hinsegin fólks á Íslandi,“ segir Ragnhildur.

„Ég hef átt hlut í skipulagningu fræðslu á Hinsegin dögum og ætla að vera umræðustjóri á þessum viðburði en þetta á bara að vera afslappað spjall með fólki úr sal,“ útskýrir hún.

Það verða ýmsir fleiri fræðsluviðburðir á Hinsegin dögum en Ragnhildur segir að reynt verði að streyma sem allra flestum. Hægt er að sjá alla viðburðina á hinsegindagar.is.

Víða bakslag

„Opnunarfræðsluviðburðurinn okkar er í hádeginu á þriðjudaginn [í dag]. Þá mun Aron-Winston Le Fevre, mannréttindafulltrúi Copenhagen Pride, tala um ástandið í Evrópu. En Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ’78, ræðir við hann. Hann hefur flakkað um alla Evrópu og þekkir vel ástandið þar,“ segir Ragnhildur.

Hún bætir við að víða í Evrópu hafi orðið bakslag í málefnum hinsegin fólks. Til dæmis sé mjög sterk andstaða gegn transfólki í Bretlandi og á Spáni hafa nýlega verið hatursglæpir gegn hinsegin fólki, svo ekki sé talað um ástandið í Póllandi og Ungverjalandi.

„Ástandið er ansi viðkvæmt ennþá. Við höfum áhyggjur af því að ef það er ekki búið að lögfesta öll réttindi þá verði auðveldara að víkja frá þeim. Ef við eigum bara að stóla á velvild samborgaranna þá getur sú stemning breyst hratt. Mér finnst stundum svolítið grunnt á fordómum. Maður heyrir stundum raddir eins og: Af hverju hættið þið ekki þessum látum? Af hverju hættið þið ekki þessari gleðigöngu? Þetta er allt í höfn! En það er mjög hættulegt, það er engin ástæða til að hætta sýnileika og fara að taka skref aftur á bak,“ segir Ragnhildur.

„Ég ætla ekki að segja þér hvað ég hef heyrt í mörgu ungu fólki sem segir hvað það var mikilvægt fyrir það að fara niður í bæ að fylgjast með göngunni og sjá sitt fólk. Það er nokkurn veginn samhljómur hjá öllum hinsegin krökkum að þau upplifa sig ein og eiga erfitt með að fóta sig í veruleika sem þau eiga erfitt með að átta sig á. En ég held að þetta fari batnandi einmitt út af sýnileikanum. Af því þú getur fundið einhverjar fyrirmyndir, þú sérð að líf þitt er möguleiki en ekki bannað og í laumi. Hann skiptir bara öllu máli, þessi sýnileiki.“