„Ég er byrjaður í heimildarvinnu og er að leggja drög að handritinu,“ segir Jón Rúnar Hilmarsson ljósmyndari, sem hyggst flétta saman myndefni frá eldgosinu í Fagradalsfjalli og viðtölum við ýmsa aðila í veglegri heimildarmynd.

Jón starfaði fyrir Víkurfréttir í mars í fyrra þegar gaus og á því eðli málsins samkvæmt glæsilegan sarp af myndum og myndböndum frá eldgosasvæðinu. Miðillinn var enda einn sá öflugasti í fréttaflutningi frá Geldingadölum, sérstaklega fyrst um sinn og muna margir eftir vefmyndavél Víkurfrétta af gosinu sem sló í gegn.

Þrjátíu ferðir að fjallinu

Jón segir þessa vinnu hafa komið sér gríðarlega vel. „Þannig að ég er sjálfur búinn að fara að eldgosinu kannski svona sirka þrjátíu sinnum og hef myndað svæðið gjörsamlega fram og til baka,“ segir Jón og leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að vel verði haldið utan um þessa atburði sem þarna urðu í fyrra.

Ertu viss um að gosið sé búið?

„Sko, hvað sem gerist þá er þessum viðburði í raun lokið. Ef það byrjar að gjósa aftur þá segjum við bara að það sé „Part II“ og nýtt eldgos,“ segir Jón hlæjandi. Hann fékk úthlutun úr uppbyggingarsjóði Suðurnesja vegna verkefnisins og vonar að verkefnið verði unnið í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu.

„Þetta mun koma til með að nýtast ferðaþjónustunni hér og verður menningararfur fyrir okkur Íslendinga um þennan ótrúlega tíma,“ segir Jón.

Eitthvað fyrir alla

„Ég á sjálfur töluvert af vídeóefni og ljósmyndum af gosinu og held ég sé með gott efni til að gera þessu góð skil. Við ræðum svo að sjálfsögðu við vísindamenn og býst ég við því að myndin muni verða með grafík sem sýnir þróun gossins og svona. Þannig að það ætti að verða eitthvað þarna fyrir alla.“

Jón segir alltaf nóg að gera í ferðaþjónustunni og að áhuginn á Íslandi sé ekkert að minnka. Heimildarmyndin geti því vonandi svalað þorsta fróðleiksfúsra ferðamanna, en Jón vonar að Íslendingar muni einnig kunna að meta hana, að ógleymdu jarðvísindafólkinu sem sjálft fylgdist náið með gosstöðvunum.

Alltaf brjálað að gera

„Enda var þetta heilmikill viðburður og það er af nægu að taka,“ segir Jón. Hann segist hafa nóg að gera í ferðamennskunni þó að ferðamönnum bjóðist ekki lengur að sjá eldgos.

„Það er brjálað að gera hjá mér þessa dagana og ég er að fara með ferðamenn í ljósmyndaferðir um land allt,“ segir Jón.Hann viðurkennir að það sé því nóg að gera þegar vinnan við heimildarmyndina bætist við. „En ég geri ráð fyrir því að verða klár með myndina síðar á árinu og hlakka til.“