„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur Risunum og alls staðar uppselt með góðum fyrirvara,“ segir tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson, sem hefur verið með hljómsveit sinni, Bergrisunum, á tónleikaferðalagi um landið í kjölfar þess að þeir kjaftfylltu Háskólabíó á 70 ára afmælistónleikum hans í júní.

„Næst tökum við áhættu og höldum tónleika í Gígnum, Grindavík, föstudagskvöldið 12. ágúst, en náttúruöflin eru að hita upp fyrir okkur Bergrisana,“ segir Bjartmar og hlær enda vandfundnar heitari slóðir á landinu en þessar eftir að byrjaði að gjósa í Meradölum.