Í þáttunum tekur Hanna Þóra Helgadóttir áhorfendur með í verslunarferð, gefur góð ráð meðan verslað er og í kjölfarið eldar einfalda ketóvæna rétti heima sem allir ættu að geta gert heima hjá sér.

„Ég hef áralanga reynslu af verslunarferðum og systkini mín gerðu óspart grín að því áður fyrr, en nú fær sá hæfileiki að njóta sín. Mín ástríða liggur í eldhúsinu og það er gamall draumur að rætast með þessum nýju þáttum.“

Kolféll fyrir ketómataræðinu

Hanna Þóra er matarbloggari, rithöfundur og flugfreyja og kolféll fyrir ketómatarræðinu fyrir tæpum fjórum árum síðan þegar hún var kominn á þann stað að hún þurfti að léttast fyrir bætta heilsu. „Svona mörgum árum síðar er ég ennþá jafn ástfangin af þessum lífsstíl og öllum girnilega matnum sem honum fylgir.“ Það að vera á ketó þýðir að viðkomandi er að innbyrða minna af kolvetnum og meira af fitu yfir daginn. „Með því kemst líkaminn í ástand sem kallast ketósa og fer að brenna eigin líkamsfitu til að nýta sem orku. Við sleppum sykri, hveiti og matvælum sem innihalda mikið af sterkju. Orkan sem við fáum úr matnum er því minni skyndi orka og endist oft lengur.“

Þáttunum er skipt niður en í fyrri matreiðsluþætti vikunnar erum við að útbúa snarl rétti, meðlæti, eftirrétti eða millimál sem hægt er að grípa í. „Í seinni matreiðsluþætti vikunnar er ég að elda aðalrétt sem hugsaður er fyrir alla fjölskylduna til að njóta saman. Ég er að taka nokkra klassíska heimilisrétti og gera þá að ketóvænum kostum eins og til dæmis ketóvænt lasagna en þá er ég að kenna áhorfendum að baka eigin lasagnaplötur.“

Nýtir ferðlögin fyrir innblástur

Hanna Þóra hefur fengið innblásturinn víða þegar kemur að uppskriftunum sem hún notast við. „Ég á svo mikið af uppáhalds réttum sem ég hef verið að þróa í gegnum árin bæði fyrir matreiðslubókina mína sem og bloggið og sumir réttirnir eru í miklu uppáhaldi hjá allri fjölskyldunni. Einnig er ég líka að prófa að elda heima skemmtilegar uppskriftir af réttum sem ég hef verið að smakka víðs vegar um heiminn. Eins og mitt uppáhalds guacamole eins og þeir gera á Rosa mexicano í New York en snakkið baka ég sjálf svo það sé ketóvænt.“

Hanna Þóra ferðast mjög mikið, líka á vegum vinnunnar. „Þá nýti ég tækifærið og smakka allskonar nýjungar og kíki í matvöruverslanir erlendis. Þar er oft hægt að finna alls konar sniðugar vörur sem gaman er að útbúa heima. Úrvalið á veitingastöðum er líka gífurlegt en Ameríkaninn má eiga það að allar sérþarfir í mataræði eru velkomnar. Það er allt að koma hér heima, sérstaklega með auknum vinsældum og auknum sérþörfum viðskiptavina tengdum mataræði.“

Næringargildi hráefna skiptir lykilmáli

Aðspurð segir Hanna Þóra að næringargildi hráefna skipti lykilmáli. „Við erum líka að horfa á innihaldsefnin og hvað það er sem gerir hráefni að ketóvænum kosti. Við þurfum aðeins að kynna okkur málin áður en við rjúkum af stað en með því að fylgja nokkrum grunn ketó reglum þá verður þetta bara skemmtileg vegferð. Ég hef aldrei verið jafn södd og sæl á mataræði fyrr en ég prófaði ketó og finn mér ketóvæna staðgengla fyrir flest sem mig langar í. Nema popp, það er bara töpuð barátta en það sleppur alveg.“