Að þessu sinni ætlar Hanna Þóra að grilla fyrir okkur girnilegar lambalundir ásamt brokkólí sem bragð er af. Síðan ætlar að Hanna Þóra að galdra fram syndsamlega góða bernaisesósu sem er í aðalhlutverkinu með lambalundunum. Þetta er hin fullkomna sælkeramáltíð fyrir laugardagskvöldið.

Uppskrift dagsins:

Lambalundir með bernaise sósu og grilluðu brokkólí

Lambalundir eftir fjölda í mat

Brokkolini eftir fjölda í mat

Byrjið á því að krydda lambalundirnar með salti, pipar og grill kryddblöndu ásamt ólífuolíu. Brokkólí er sömuleiðis kryddað með salti, pipar en einnig ristuðu hvítlaukskryddi og olía sett yfir. Síðan grillið þið lambalundirnar á heitu grillinu ásamt brokkolini en það þarf aðeins skamman tíma á grillinu.

Heimagerð bernaise sósa

200 g smjör

3 stk. eggjarauður

2 msk. estragon

Þeytið eggjarauður vel þar til þær eru ljósar og loftmiklar og bætið því næst estragon kryddinu út í. Bræðið smjör á lágum hita þar til það er bráðnað en það má alls ekki vera of heitt. Látið smjörið renna í mjög mjórri og rólegri bunu út í eggjarauðurnar og hrærið stanslaust á meðan. Ég geri þetta í hrærivél á miðlungs hraða. Berið strax fram með lambalundunum og öðru meðlæti.

Njótið vel.