Að þessu sinni ætlar Hanna Þóra að laga fyrir okkur kúrbíts pasta með ostasósu sem er sáraeinfalt. Þá kemur kúrbíturinn í raun í staðinn fyrir pastað. Syndsamlega ljúffengt með ostasósunni þar sem piparosturinn er í aðalhlutverki. Næstu vikur heldur Hanna Þóra síðan áfram að sýna hvernig á að útbúa ketó veislur fyrir alla fjölskylduna á einfaldan og fljótlegan máta svo vert er að fylgjast með.
Uppskrift dagsins:
Kúrbíts pasta með ostasósu
1 stk. kúrbít
Byrjum á því að skola og ydda kúrbítinn. Leggið á disk og saltið vel yfir. Leyfið þessu að standa á meðan þið gerið pastasósuna. Með þessu svitnar kúrbíturinn auka vökva út.
1 box sveppir
Smjör eftir smekk
2 hvítlauksrif
3 beikonsneiðar
1 stk. piparostur
300 ml rjómi
Svartur pipar
Parmesan ostur
Smjörsteikið sveppi með hvítlauk á pönnu ásamt beikoni. Rífið piparost niður og bræðið ostinn saman við rjóma. Kryddið með svörtum pipar.
Skolið kúrbítinn í sigti og takið saltið af honum. Setjið kúrbítinn á diska og bætið svo ostasósunni ofaná. Toppið með ferskum parmesan osti.