Í dag ætlar Hanna Þóra Helgadóttir að kenna okkur að laga indverskan ketóvænan kjúklingarétt sem rífur í. Með réttinum er fullkomið að bjóða upp á ketó naanbrauðin sem Hanna Þóra töfraði fram í síðasta þætti. Næstu vikur heldur Hanna Þóra síðan áfram að sýna hvernig á að útbúa ketó veislur fyrir alla fjölskylduna á einfaldan og fljótlegan máta svo vert er að fylgjast með.

Uppskrift dagsins:

Indverskur kjúklingaréttur

1 pakki kjúklingabringur

Garam masala krydd

Tómatar í dós

Sýrður rjómi

Kóríander

Salt & Pipar

Hvítlaukur

Olía til steikingar

Skerið niður kjúklinginn í bita og steikið upp úr olíu á pönnu. Kryddið vel með Garam masala kryddi, salti, pipar og hvítlauk. Leyfið kjúklingum að malla dágóða stund þar til kryddið fær tækifæri til að taka við sér. Rífið niður ferskan kóríander og bætið við þegar slökkt er á pönnunni. Toppið með sýrðum rjóma og berið fram með Ketó naanbrauðum og blómkálshrísgrjónum.

Njótið vel.