Framleiðendur suðurkóresku spennuþáttanna Squid Game gerðu klaufaleg mistök þegar þeir birtu raunverulegt símanúmer í fyrsta þætti sjónvarpsþáttaraðarinnar, sem er streymt á Netflix.

Samkvæmt yfirlýsingu frá streymisveitunni er hún að vinna að því að laga þessi mistök í samstarfi við framleiðendur þáttanna, Siren Pictures Inc., með því að klippa atriði með símanúmerum upp á nýtt.

Símanúmerið sést á nafnspjaldi sem persónan Seong Gi-Hun fær frá dularfullum manni í svörtum jakkafötum á lestarstöð.

Síminn stoppar ekki

Eigandi símanúmersins er maður frá Gyeonggi-héraði í Suður-Kóreu og í samtali við suðurkóreska miðilinn Money Today segist hann hafa fengið endalaus símtöl og skilaboð.

„Þetta er orðið þannig að fólk er að hafa samband dag og nótt af einskærri forvitni. Þetta tæmir rafhlöðuna í símanum mínum og hann drepur á sér,“ segir hann. „Fyrst vissi ég ekki af hverju, en svo sagði vinur minn mér að númerið mitt hafi birst í þáttunum.“

Squid Game hefur slegið í gegn á Netflix, en hann var frumsýndur 17. september og eru þættirnir orðnir einhverjir þeir vinsælustu í sögu streymisveitunnar.

Þættirnir gerast í dystópískum veruleika þar sem dularfullt fyrirtæki ræður fólk sem hefur miklar skuldir og fær það til að keppa í barnalegum leikjum til að vinna stóra upphæð, en þeir sem tapa leikjunum tapa lífinu.