Hanna Kristín er með mastersgráðu í endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún segir að áhuginn hafi kviknað þegar hún var að ljúka grunnnámi í viðskiptafræði og Þröstur Olaf, sem starfar núna í Háskóla Íslands, kom í tíma hjá henni og kynnti fagið.

„Mér fannst það áhugavert og sló strax til,“ segir Hanna Kristín. Hún segir að það sem hafi komið henni mest á óvart við námið hafi verið hvað mikil rannsóknarvinna er fólgin í endurskoðun.

„Persónulega þótti mér sjálfri endurskoðunarkúrsarnir skemmtilegastir. Einnig kom á óvart hvað felst mikill skilningur og þekking á mannfólki við endurskoðun, það nefnilega er heilmikill þáttur endurskoðunarferilsins mannleg samskipti,“ segir hún.

Hanna Kristín leggur nú stund á doktorsnám í endurskoðun. Nánar tiltekið í upplýsingatækni í endurskoðun, sem kallast á ensku Accounting Information Systems (AIS).

„Ég er að vinna verkefni þar sem rannsakar er viðhorf og notkun á þjörkum, eða Robotic Process Automation, í endurskoðunarferlum,“ útskýrir Hanna Kristín.

Samhliða doktorsnáminu kennir Hanna Kristín nokkra kúrsa í HÍ, á meistarastigi við Viðskiptafræðideild.

„Ég hef mikinn áhuga á kennslu og finnst alltaf jafn gaman að detta inn í kennslutímabil. Það hefur sett örlítið strik í reikninginn að hafa allt á Zoom eða Teams upp á síðkastið, því maður missir svolítið tengslin við nemendur þegar maður er ekki með þeim á staðnum. En maður hefur auðvitað reynt að gera það besta úr því. Ætli það séu ekki á bilinu 30-35 nemendur í kúrsunum sem ég kenni,“ segir Hanna Kristín.

„Ég hef einnig verið að kenna við Tækniskólann, frumkvöðlaáfanga sem heitir Frá hugmynd að framkvæmd síðan árið 2016.“

Hanna Kristín segir að námið í endurskoðun sé vissulega krefjandi en bætir við að ef maður hafi gaman af því sem maður er að gera verði allt auðveldara. Hún segir að námið sé fyrir alla sem hafa áhuga á reikningsskilum og endurskoðun, hafa gaman af að vinna með tölur og vilja kynnast rekstri fyrirtækja vel. Hún segir að eins og með allt annað nám fari það algjörlega eftir einstaklingnum hvort námið henti honum.

„Ég var mjög ánægð með mína vegferð í námi og námið mitt hefur nýst mér afskaplega vel á margfalt fleiri vegu en ég hafði ímyndað mér þegar ég byrjaði í náminu. Eftir að hafa starfað á endurskoðunarskrifstofu í nokkur ár fór ég að starfa í nýsköpun og menntunin kom sér mjög vel þá, því það sem frumkvöðla skortir oft er einmitt þekking á reikningshaldi og fjármálum.“

Aðspurð að því hvernig störf endurskoðendur geta unnið segir hún eitt að taka löggildingu sem endurskoðandi og annað að klára nám í reikningshaldi og endurskoðun.

„Það eru manni ansi margir vegir færir með reynsluna að baki því að klára nám í endurskoðun og mjög fjölbreytt störf sem þekkingin nýtist í. Margs konar rekstur sem er hægt er að fara í, nýsköpunar- og frumkvöðlastarf, fjármál og fleira. Maður stendur ansi vel að vígi við að kunna hvernig eigi að sinna fjármálum og rekstri fyrirtækis.“