Þrjú ár í röð hefur íslenskt keppnislið á Eurovision flaggað fána í nafni mannréttinda til að vekja athygli á jaðarsettum hópi.

Árið 2019 flögguðu meðlimir Hatara palestínska fánanum, árið 2021 flögguðu Daði og félagar hans í Gagnamagninu pan-fánanum, og í ár flögguðu Systur fána trans fólks auk fána Úkraínu.

Má kannski ætla að hefð sé að myndast hjá íslenska hópnum.

Felix Bergsson, sem gegnt hefur stöðu fararstjóra hjá íslenska hópnum síðustu ár, segir að erfitt sé að svara því hvort að birting fána sé meðvituð leið til að fara framhjá reglum Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, sem miða að því að keppendur skilji pólitíkina eftir fyrir utan. Þannig sé hægt að koma boðskap á framfæri án þess að segja nokkuð.

Þessi aðferð er þó ekki endilega vatnsþétt þar sem RÚV fékk 5000 evru sekt árið 2019 eftir að meðlimir Hatara flögguðu fána Palestínu, en keppnin það ár var haldin í Tel Aviv í Ísrael.

Systur sem kepptu í Tórínó í síðustu viku fengu áminningu vegna orða sinna „Slava Ukraini“ sem þýða má sem: „Dýrð sé Úkraínu,“ á æfingu fyrir fyrra undanúrslitakvöld keppninnar. Systur héldu áfram að tala fyrir friði í Úkraínu á blaðamannafundum í viðtölum, og veifuðu síðan fána Úkraínu á fyrra undanúrslitakvöldi.

Það mátti greina skýran friðarboðskap í umgjörð keppninnar á lokakvöldi Eurovision, þar sem upphafslag kvöldsins var flutningur á lagi John Lennon, „Give peace a chance.“

Felix Bergsson segist í samtali við Fréttablaðið ekki vita hvort að RÚV muni sæta sektum vegna Úkraínufána Systra. Aðspurður, hvort að allur Íslandshópurinn hafi verið upplýstur þegar fánar hafa verið dregnir upp á Eurovision síðastliðin ár, segir hann að það sé „svona bæði og samtal við okkur. Hreinar og klárar pólitískar yfirlýsingar eru ekki ræddar við okkur.“

Twitter-notandinn @fannarapi vakti athygli á fánanotkun Íslendinga á Twitter og spurði notendur hvaða fána íslenski hópurinn ætti að flagga á næsta ári.