Bækur
Ungfrú Ísland
****1/2
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi: Benedikt
Fjöldi síðna: 240


Á einum stað í skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur Ungfrú Ísland segir ungur maður sem þráir að verða skáld við aðalpersónuna Heklu að vinsælustu bækurnar í útlánum Borgarbókasafnsins séu barnabækur Ragnheiðar Jónsdóttur og skáldsögur Guðrúnar frá Lundi. Hann bætir við að það sé undarlegt í ljósi þess hversu fáar skáldkonur séu á Íslandi og allar vondar. Það er þetta viðhorf sem Auður Ava tekst á við í þessari nýju skáldsögu sem gerist á sjöunda áratug síðustu aldar. Hekla hefur alla þá hæfileika sem þarf til skrifta en staða hennar er vonlítil. Hún er kona og því ekki ætlað pláss í samfélagi þar sem skáld og rithöfundar eru karlkyns. Unnusti hennar vill vera skáld en fær ekki hugmyndir og hefur ekkert fram að færa.

Það er þó ekki eins og Heklu sé ekki ætlað hlutverk í samfélaginu. Þar sem hún er falleg fær hún endurtekin boð um að gerast þátttakandi í Ungfrú Ísland. Hinn vinstrisinnaði sambýlismaður hennar gefur henni einnig stöðugt til kynna hvar hennar staður sé og vísar iðulega til móður sinnar í því sambandi og jólagjöf hans til Heklu er matreiðslubók. Móðirin er kona sem lýkur aldrei við setningar sínar, það er sonur hennar sem tekur að sér að botna þær og koma meiningunni til skila. Besta vinkona Heklu er kona sem er talandi skáld en er föst í hlutverki eiginkonu og móður. Sú gerir tilraunir til að hughreysta sjálfa sig í einræðum um hversu góð lífsreynsla það sé að vera móðir en á milli læðast setningar sem vísa í hið gagnstæða og draumar hennar endurspegla ótta hennar við að verða margra barna móðir. Hún skrifar í dagbók og felur hana fyrir eiginmanni sínum alveg eins og Hekla reynir að leyna skrifum sínum fyrir unnustanum. Besti vinur Heklu er samkynhneigður og á sér engan stað í samfélagi sem gerir ekki ráð fyrir honum. Ákveðin angist vegna hlutskiptis síns einkennir allar helstu persónur bókarinnar og endurspeglast vel í orðum Heklu: „Ég get ekki misst þessa taug. Að skrifa. Það er líflínan mín. Ég á ekkert annað. Ímyndunaraflið er aleiga mín.“ Vinkona hennar svarar réttilega að hún sé ekki skáld dagsins, hún sé skáld morgundagsins.

Auður Ava skrifar fallegan, fágaðan og ljóðrænan stíl en mikill þungi er þar undirliggjandi. Henni tekst einkar vel að lýsa tíðaranda þar sem ætlast er til að konur séu eiginkonur og mæður og engin ástæða er talin til að sköpunarþrá þeirra og kraftur fái farveg. Þessu kemur höfundur, sem býr yfir miklum mannskilningi, feiknavel til skila án þess að fordæma eða predika. Húmorinn í verkinu er síðan afar vel heppnaður, bæði lúmskur og beittur.

Auður Ava hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Ör. Ungfrú Ísland er líkleg til að afla henni frekari viðurkenninga enda hennar besta verk.

Niðurstaða: Frábær skáldsaga, full af dýpt og ríkum mannskilningi. Verk sem mun lifa.