Nýjustu framfarir í hlaupaskóm virðast gera hlaupara hraðskreiðari og gætu jafnvel auðveldað þeim endurheimt. Það eru samt ekki allir sammála um ágæti nýjustu og háþróuðustu hlaupaskónna og segja að þeir hafi of mikil áhrif. Sumir langhlauparar segja að slíkir skór skemmi íþróttina og minnki virðingu fólks fyrir erfiðisvinnu hlaupara, á meðan aðrir segja að íþróttin sé einfaldlega að þróast og skórnir séu ekki úrslitaatriði. Fjallað var um málið á vef BBC um síðustu helgi og rætt við írska maraþonhlaupara sem höfðu áunnið sér rétt til að keppa á Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram í ár.

„Í hvaða skóm varstu?“

Stephen Scullion er einn þeirra og hann segir að það sé svolítið skrítin þróun á íþróttinni að eftir alla vinnuna og þjálfunina sem er að baki sé fyrsta spurningin sem fólk spyr eftir maraþonhlaup „Í hvað skóm varstu?“. Hann segir að skórnir Nike Vaporfly og aðrir álíka háþróaðir hlaupaskór samkeppnisaðila hafi eyðilagt íþróttina.

Eliud Kipchoge setti óopinbert heimsmet í Alphafly skóm frá Nike á síðasta ári þegar hann hljóp maraþon á undir tveimur tímum. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

„Ef þú ert ekki í þeim geturðu ekki búist við að vera samkeppnishæfur nema þú sért í svo góðu formi að þú getir hlaupið þremur mínútum hraðar en allir aðrir og það er ómögulegt,“ segir hann.

Keníski langhlauparinn Eliud Kipchoge var í prufugerð af Alphafly-skóm Nike, sem eru ennþá háþróaðri, þegar hann kláraði maraþonhlaup á undir tveimur tímum í Vín í október síðastliðnum. Alphafly-skórnir hafa nú verið bannaðir og tíminn hans verður ekki tekinn gildur sem heimsmet. En Vaporfly-skórnir eru leyfilegir og margir fremstu hlauparar heims eru farnir að nota þá.

Froðulag og koltrefjaplata

Nike sagði að skórnir gætu aukið skilvirkni í hlaupum um allt að 4% og rannsókn sem New York Times gerði á meira en milljón maraþonhlaupum og hálfri milljón hálfmaraþonhlaupa gefur til kynna að auglýsingadeild Nike hafi jafnvel vanmetið skóna.

Kevin Seaward er ekki sammála landa sínum um að Vaporfly skórnir séu vandamál. Hann segir að það séu allir sífellt að bæta sig og framfarir í hlaupaskóm séu bara hluti af almennri þróun íþróttarinnar. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Sólinn er með lagi úr froðu og plötu út koltrefjum sem er hönnuð til að ýta hlaupurum áfram og vernda fótleggina. Skórnir eru líka sagðir hjálpa hlaupurum með endurheimt, þannig að þeir séu ekki jafn þreyttir daginn eftir hlaup.

Gerir lítið úr erfiði hlaupara

Stephen Scullion segir að á heimsmeistaramótinu í Doha hafi hann ekki verið í skónum, en að það hafi ekki verið hvetjandi þegar hann leit í kringum sig og sá 80 aðra á ráslínunni í þeim. Hann segir að margir séu að missa virðingu fyrir íþróttinni og það sé sanngjarnt, vegna þess að skórnir séu augljóslega frammistöðubætandi.

„Þeir gera fólk hraðskreiðara, en það á ekki að draga úr erfiðisvinnunni sem hlauparar leggja á sig,“ segir Scullion. „Þegar fólk nær nýju meti eiga allir eftir að spyrja í hvaða skóm hlauparinn var. Það er ástæðan fyrir því að þeir skemma íþróttina fyrir mér og munu halda áfram að gera það.“

Það eru ekki allir sammála um ágæti Nike Vaporfly skónna. Sumir telja þá hafa of mikil áhrif á tíma hlaupara. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Allir eru að bæta sig

Scullion náði sjálfur Írlandsmeti í Vaporfly-skónum í október í fyrra og bætti þá met frá árinu 2002. Hlauparinn Kevin Seaward náði svo næstbesta tíma Íra með því að bæta metið frá 2002 í Seville-maraþoninu í febrúar síðastliðnum í sömu skóm. Seaward hafði bara æft einu sinni í skónum og þoldi þá ekki, en ákvað svo að vera í þeim í maraþoninu.

„Mér fannst þeir vera eins og trúðaskór og ég hafði enga tengingu við jörðina,“ sagði Seaward, sem ákvað að vera í þeim því þjálfarinn hans sagði að fólk væri að minnsta kosti að hlaupa á sama tíma og áður í skónum. Seaward leggur samt áherslu á að hann hafi verið að ná bestu tímunum sem hann hafði nokkurn tímann náð á æfingum fyrir maraþonið í Seville, burtséð frá því í hvaða skóm hann var.

„Allt var hraðara en áður,“ sagði hann. „Ég veit ekki hvort það séu kannski lyfleysuáhrif sem fylgja því að fara í Vaporfly-skóna. Það er enginn vafi á því að skótækni hjálpar, en það er erfitt að meta áhrifin. Fólk hefur líka hlaupið illa í þeim. Það eru allir að bæta sig og maður er bæta tímana sína, sama í hvaða skóm maður er.“