Dagskrá til minningar um Þorstein frá Hamri verður í Iðnó sunnudaginn 18. mars. Dagskráin er á vegum Forlagsins og á meðal þeirra sem þar koma fram er sonur skáldsins, Kolbeinn Þorsteinsson, sem les kafla úr óbirtu verki föður síns, Tímar takast í hendur.

 „Þetta eru minningabrot pabba og í þeim lýsir hann meðal annars bernskuheimili sínu á Hamri, sveitinni og fólkinu sem hana byggði og einnig birtist manni mynd af drengnum Þorsteini. Eins og búast má við er þetta hófstillt frásögn, tilgerðarlaus og hlýleg,“ segir Kolbeinn. „Það er skemmtilegt fyrir mig að lesa þetta upp því ég á enga tengingu við Hamar en kynnist þeim heimi í gegnum þessi skrif pabba.“

Tímar takast í hendur er að sögn Kolbeins fullbúið verk. „Pabbi lauk því fyrir tveimur árum en einhverra hluta vegna ákvað hann að leyfa því að liggja. Hann gerði þetta oft, sagði hann mér fyrr meir, geymdi það sem hann skrifaði í ákveðinn tíma og skoðaði það síðar.“

Kolbeinn segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort verkið verði gefið út. „Tíminn verður að leiða það í ljós, en mér sýnist á því sem ég hef séð að það sé full ástæða til þess.“

Ljóðin finna mann

Spurður um tengingu sína við ljóð föður síns segir Kolbeinn: „Ég viðurkenni að ég hef aldrei tekið ljóðabók eftir hann og lesið frá upphafi til enda. Hins vegar á ég til ef eitthvað er að angra mig að opna einhverja ljóðabók hans handahófskennt. Þetta hefur alltaf veitt mér ákveðna hugarfró, annaðhvort leysist hugarangrið upp eða ég sé að það er ekki svo merkilegt að ég þurfi að dvelja við það. Ég geri slíkt hið sama ef ég er glaður og þá er það líka yfirleitt þannig að ég lendi á ljóði sem á erindi við mig á þeirri stundu. Kannski eiga ljóð hans það sammerkt að það breytir engu hvort maður er dapur eða léttur í lund, þau finna mann.

Ég hef aldrei lært ljóðin hans utanbókar, ég vil það ekki. Þegar ég kem að ljóðum hans vil ég að það sé eins og ég sé að koma að þeim í fyrsta skipti. Ljóð sem er í uppáhaldi hjá mér er Dísin úr Spjótalögum á spegil. Það snart mig strax og er eina ljóðið sem ég kann utanbókar eftir hann.“

Einlægur og grandvar

Kolbeinn er eitt af fimm börnum Þorsteins og Ástu Sigurðardóttur. Einhverjum árum eftir skilnað Þorsteins og Ástu voru börnin send í fóstur. Kolbeinn er spurður hvort það hafi reynst honum erfitt að alast ekki upp hjá foreldrum sínum. „Ég hef ekki leitt hugann að því eða krufið. Ég var það ungur þegar þeirra leiðir skildu að ég þekkti það ekki í sjálfu sér að vera hjá þeim báðum. Pabbi heimsótti okkur systkinin og mér fannst sárt þegar hann fór. Fyrir einhverjum árum ræddum við pabbi þessi mál af hreinskilni og þau þurfti ekki að ræða aftur.“

Spurður um samskipti sín við föður sinn segir Kolbeinn: „Í bernskunni voru þau eins og þau voru. Eftir að ég komst til vits og ára og sérstaklega síðustu þrjátíu árin einkenndust samskiptin af þeirri hlýju og væntumþykju sem á að ríkja milli föður og sonar og voru aldrei neinum vandkvæðum bundin.“

Þegar Kolbeinn er beðinn um að lýsa föður sínum segir hann: „Eins og margir vita þá er það ekki orðamergðin sem skiptir máli í ljóðum pabba heldur merking þeirra oft fáu sem eru sögð. Þannig var hann líka í persónulegum kynnum. Hann var einlægur, ærlegur, orðvar og grandvar. Ég upplifði hann sem lítillátan mann og minnist þess ekki að hann hafi tranað sér fram. Hann var afar hlýr maður.“