Það öfundar lík­lega enginn kónga­fólkið af því að vera alltaf í sviðs­ljósinu. Lítill á­hugi ungra Ís­lendinga á dönsku konungs­fjöl­skyldunni skýrist lík­lega af því hve far­sæl Margrét Dana­drottning hefur verið.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í þriðja þætti af Crown­varpinu, við­hafnar­hlað­varpi Frétta­blaðsins um fimmtu seríu af The Crown á Net­flix. Jón Viðar Jóns­son leik­listar­fræðingur og einn þekktasti gagn­rýnandi landsins er gestur.

„Kyn­slóð móður minnar las allt um Danina og allir vissu allt um dönsku konungs­fjöl­skylduna og lifðu og hrærðust í henni,“ segir Jón Viðar.

Jón Viðar Jónsson, leik­listar­fræðingur og einn þekktasti gagn­rýnandi landsins, er gestur í þriðja þætti Crownvarpsins.
Fréttablaðið/Hörður

Spurður að því hvers vegna ungt fólk á Ís­landi velti sér ekki eins mikið upp úr dönsku konungs­fjöl­skyldunni eins og kyn­slóðirnar á undan segir Jón Viðar:

„Ég held að Margrét hafi bara verið svo far­sæl drottning. Hún hefur eins og Elísa­bet leikið þetta hlut­verk alveg eftir reglunum og sætt sig við það og Margrét er náttúru­lega mjög vel gefin og geðug kona, hún er list­ræn og hefði sjálf­sagt ef að hún hefði fengið að ráða orðið lista­maður af ein­hverju tagi, hönnuður til dæmis.“

Margrét hafi fengist að­eins við listina. „En hún hefur sætt sig við það að það er skyldan fyrst og þær frænkurnar eru af­skap­lega líkar að því leyti. Ein­hvern veginn hefur manni fundist Elísa­bet hafa átt auð­veldara með að falla inn í þetta hlut­verk en það er ekki gott að segja,“ segir Jón Viðar.

„En danska konungs­fjöl­skyldan og nor­rænu fjöl­skyldurnar hafa verið vel látnar, það hafa ekki verið svona leiðindaskandalar í kringum þau eins og bresku krúnuna, það er ekki hægt að líkja því saman.“

Svo erum við kannski að­eins slakari hér á Norður­löndum?

„Það getur líka vel verið. Hvernig þessi breska pressa hegðar sér er náttúru­lega í rauninni gengur út yfir allt sið­legt finnst manni stundum. Ég held það öfundi enginn þetta fólk af því að vera enda­laust í sviðs­ljósinu. Það er einn lær­dómur sem maður getur dregið af því að horfa á þessar seríur er að þetta er ekki nein upp­skrift að gleði­legu lífi.“

Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.