Það öfundar líklega enginn kóngafólkið af því að vera alltaf í sviðsljósinu. Lítill áhugi ungra Íslendinga á dönsku konungsfjölskyldunni skýrist líklega af því hve farsæl Margrét Danadrottning hefur verið.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í þriðja þætti af Crownvarpinu, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um fimmtu seríu af The Crown á Netflix. Jón Viðar Jónsson leiklistarfræðingur og einn þekktasti gagnrýnandi landsins er gestur.
„Kynslóð móður minnar las allt um Danina og allir vissu allt um dönsku konungsfjölskylduna og lifðu og hrærðust í henni,“ segir Jón Viðar.

Spurður að því hvers vegna ungt fólk á Íslandi velti sér ekki eins mikið upp úr dönsku konungsfjölskyldunni eins og kynslóðirnar á undan segir Jón Viðar:
„Ég held að Margrét hafi bara verið svo farsæl drottning. Hún hefur eins og Elísabet leikið þetta hlutverk alveg eftir reglunum og sætt sig við það og Margrét er náttúrulega mjög vel gefin og geðug kona, hún er listræn og hefði sjálfsagt ef að hún hefði fengið að ráða orðið listamaður af einhverju tagi, hönnuður til dæmis.“
Margrét hafi fengist aðeins við listina. „En hún hefur sætt sig við það að það er skyldan fyrst og þær frænkurnar eru afskaplega líkar að því leyti. Einhvern veginn hefur manni fundist Elísabet hafa átt auðveldara með að falla inn í þetta hlutverk en það er ekki gott að segja,“ segir Jón Viðar.
„En danska konungsfjölskyldan og norrænu fjölskyldurnar hafa verið vel látnar, það hafa ekki verið svona leiðindaskandalar í kringum þau eins og bresku krúnuna, það er ekki hægt að líkja því saman.“
Svo erum við kannski aðeins slakari hér á Norðurlöndum?
„Það getur líka vel verið. Hvernig þessi breska pressa hegðar sér er náttúrulega í rauninni gengur út yfir allt siðlegt finnst manni stundum. Ég held það öfundi enginn þetta fólk af því að vera endalaust í sviðsljósinu. Það er einn lærdómur sem maður getur dregið af því að horfa á þessar seríur er að þetta er ekki nein uppskrift að gleðilegu lífi.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.