Vandræðalegasta augnablik í ljósmyndasögu Páls Stefánssonar, sem löngu er þjóðkunnur af náttúrulífsmyndum sínum á Íslandi, er þegar hann fékk félaga sinn til að binda kaðal um sig miðjan til að geta sigið ofan í lóðbeint bjargið úti á Langanesi á norðaustanverðu landinu, svo hann næði sem bestri ljósmynd af náttúruvættunum sem hann ætlaði að fanga á staðnum.
Páll segir frá atvikinu í nýjasta þætti Bókahornsins á Hringbraut, þar sem fjallað er um stórglæsilega ljósmyndabók hans og Gunnsteins Ólafssonar, Hjarta Íslands 3 – frá Hrísey til Fagradalsfjalls, en hann má teljast heppinn að hafa ekki orðið úti niðri í miðju berginu.
Vinurinn rétt náði að halda í ljósmyndarann, en þegar hann ætlaði að draga hann aftur upp á brún, hafði hann ekki kraftana sem þurfti í verkið. Páll hékk því áfram á sínum stað – og allt útlit var fyrir að þar myndi hann vera um langa hríð, enda Langanesið ekki fjölfarinn staðinn.
En svo bar að ferðalang á bíl með góðum stuðara, raunar fyrir algera tilviljun – og kannski eins gott, því ella hefði ljósmyndarinn getað króknað á staðnum – og hugsanlega vinurinn uppi á brúninni líka, nema hann hefði sleppt takinu og forðað sér, með hræðilegum afleiðingum fyrir Pál sjálfan.
Viðtalsbrotið má sjá hér.