„Hér er á ferðinni ban­eitruð og bráð­fyndin að­för að menntuðu milli­stéttinni, mið­aldra­krísu og for­tíðar­þrá,“ segir Sig­ríður Jóns­dóttir, leik­listar­gagn­rýnandi Frétta­blaðsins, í um­sögn sinni um Ex, annan hluta þrí­leiks eftir Marius von Mayen­burg sem nú er sýndur í Þjóð­leik­húsinu.

Nína Dögg Filippus­dóttir, Gísli Örn Garðars­son og Kristín Þóra Haralds­dóttir fara með aðal­hlut­verkin í sýningunni sem leik­stýrt er af Bene­dict Andrews.

Á vef Þjóð­leik­hússins kemur fram að um sé að ræða flug­beitt sál­fræði­drama en verkin í þrí­leiknum, Ellen B., Ex og Ekkert mál, eru sjálf­stæð þó á­kveðin þemu og eigin­leikar tengja þau.

„Á fal­legu heimili fyrir­myndar­hjóna, arkí­tekts og læknis með tvö ung börn er bankað upp á um miðja nótt. Fyrir utan stendur fyrr­verandi kærasta eigin­mannsins og bráð­vantar sama­stað eftir að hafa flutt út frá sam­býlis­manni sínum í miklum flýti. Fljót­lega breytist heimilið í víg­völl þar sem á­sakanir og upp­ljóstranir þjóta á milli eins og byssu­kúlur. Hvað dró þetta fólk hvert að öðru í upp­hafi?“

Dómur um verkið birtist á síðum Frétta­blaðsins í dag og í honum fer Sig­ríður lof­sam­legum orðum um sýninguna. Þá lofar hún Gísla Örn, Kristínu Þóru og Nínu Dögg sem hún segir að hafi senni­lega átt eitt besta kvöld ævi sinnar á leik­sviði þetta frum­sýningar­kvöld.

„Nína Dögg er köld og fun­heit til skiptis, klám­fengin og sett­leg, nístandi fyndin og tragísk. Stundum gustaði hrein­lega af henni og nánast nauð­syn­legt að ríg­halda í sætin til að fjúka ekki út úr salnum. Slíkur var krafturinn, á­hrifin og ber­skjöldunin.“

Loka­orð Sig­ríðar í dómnum eru þessi:

„Nína Dögg, Gísli Örn og Kristín Þóra grípa leik­verk Meyen­burg með báðum höndum, smjatta á textanum og snúa á­horf­endur niður með að­stoð frá­bærrar leik­stjórnar.

Niður­staða: Ekki missa af. Kaupið miða. Strax.“

Um­fjöllun Sig­ríðar má lesa í heild sinni hér að neðan: