„Hér er á ferðinni baneitruð og bráðfyndin aðför að menntuðu millistéttinni, miðaldrakrísu og fortíðarþrá,“ segir Sigríður Jónsdóttir, leiklistargagnrýnandi Fréttablaðsins, í umsögn sinni um Ex, annan hluta þríleiks eftir Marius von Mayenburg sem nú er sýndur í Þjóðleikhúsinu.
Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir fara með aðalhlutverkin í sýningunni sem leikstýrt er af Benedict Andrews.
Á vef Þjóðleikhússins kemur fram að um sé að ræða flugbeitt sálfræðidrama en verkin í þríleiknum, Ellen B., Ex og Ekkert mál, eru sjálfstæð þó ákveðin þemu og eiginleikar tengja þau.
„Á fallegu heimili fyrirmyndarhjóna, arkítekts og læknis með tvö ung börn er bankað upp á um miðja nótt. Fyrir utan stendur fyrrverandi kærasta eiginmannsins og bráðvantar samastað eftir að hafa flutt út frá sambýlismanni sínum í miklum flýti. Fljótlega breytist heimilið í vígvöll þar sem ásakanir og uppljóstranir þjóta á milli eins og byssukúlur. Hvað dró þetta fólk hvert að öðru í upphafi?“
Dómur um verkið birtist á síðum Fréttablaðsins í dag og í honum fer Sigríður lofsamlegum orðum um sýninguna. Þá lofar hún Gísla Örn, Kristínu Þóru og Nínu Dögg sem hún segir að hafi sennilega átt eitt besta kvöld ævi sinnar á leiksviði þetta frumsýningarkvöld.
„Nína Dögg er köld og funheit til skiptis, klámfengin og settleg, nístandi fyndin og tragísk. Stundum gustaði hreinlega af henni og nánast nauðsynlegt að ríghalda í sætin til að fjúka ekki út úr salnum. Slíkur var krafturinn, áhrifin og berskjöldunin.“
Lokaorð Sigríðar í dómnum eru þessi:
„Nína Dögg, Gísli Örn og Kristín Þóra grípa leikverk Meyenburg með báðum höndum, smjatta á textanum og snúa áhorfendur niður með aðstoð frábærrar leikstjórnar.
Niðurstaða: Ekki missa af. Kaupið miða. Strax.“
Umfjöllun Sigríðar má lesa í heild sinni hér að neðan: