Salan á óáfengum bjór sprakk út í Covid-faraldrinum. Meiri krafa er sett á gæði og gott vöruúrval í þessum flokki í helstu matvöruverslunum og sífellt bætist við úrval áfengislausra bjóra.

Stóru bjórframleiðendurnir úti í heimi bjóða nú sinn mjöð með núll prósent áfengi og er bragðið ekkert síðra. Þannig að nú má drekka alveg helling, setjast síðan upp í bíl og keyra heim en fátt er hallærislegra en að keyra drukkinn.

Borg Brugghús er með fjórar ólíkar áfengislausar bjórtegundir í gangi um þessar mundir en Borg reið á óáfenga vaðið með Bríó og hefur nú varla undan. „Bríó er þarna enn þá og veldur okkur talsverðu veseni vegna vinsælda. Það varla borgar sig að brugga þetta því hann klárast alltaf strax,“ segir Halldór Darri, bruggmeistari hjá Borg.

Í vörulínunni er einnig að finna IPA-bjórinn Ylfu sem hlaut gullverðlaun í European Beer Challenge, hindberjabombuna Helgu sem dregur nafn sitt af samnefndum smjattpatta, auk sérútgáfunnar Bríó De Janeiro.

Engin vatnsþynnt málamiðlun

Áhuginn hér á landi hefur verið í takt við það sem hefur verið að gerast annars staðar í Vesturheimi þar sem vöxturinn er mikill með síauknum kröfum um gæði og fjölbreytni.

„Þetta er eins og margt annað. Við höfum lagt áherslu á að þróa áfengislausan bjór sem samanstendur af hágæða hráefnum með fyrsta flokks framleiðsluaðferðum. Þeir dagar eru liðnir þegar áfengislaus bjór var einhver vatnsþynnt málamiðlun. Svo ber að hafa í huga að þetta er bæði matvara og ferskvara. Það er ekki tilviljun að lókal bjórar eru þeir vinsælustu í langflestum löndum. Þeir eru einfaldlega ferskari en það sem eldra er.

Boltinn rúllar

„En viðhorfið til áfengislausu bjóranna hefur gjörbreyst undanfarið. Hér áður fyrr þótti það jafnvel ákveðinn stimpill að drekka óáfengan bjór. Maður varð fyrir ýmiss konar aðkasti og ályktunum jafnvel. Sífellt fleiri eru að kynnast þeirri gæðabyltingu sem orðin er í þessum flokki, því hversu vel rétta ölið passar með ákveðnum mat og hversu heilsusamlegur kostur áfengislaus bjór er,“ segir Halldór.

Hann segir að framtíðin í þróuninni sé björt og líkt og í enska boltanum sé alltaf verið að leita að nýjum leikmönnum til að skipta inn á. „Við erum að þróa nýja leikmenn sem lenda síðar á árinu og svo er von á áfengislausum jólabjórum frá okkur eins og undanfarin tvenn jól. Það borgar sig varla að hætta úr þessu,“ segir Halldór léttur – eins og bjórinn.