„Ég er nítján ára Árbæingur, reyndar fæddur á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað en flutti sem kornabarn í Árbæinn þar sem ég hef búið allar götur síðan,“ segir rapparinn og söngvarinn Daniil Moroskhin sem er rússneskur í móðurætt en íslenskur í föðurætt.

„Frá því ég man eftir mér hef ég farið árvisst til Rússlands til að heimsækja móðurfjölskylduna, en móðuramma mín féll frá áður en ég fæddist og móðurafi minn býr hér á Íslandi. Næstu árin get ég hins vegar ekki farið til Rússlands því ég er bæði íslenskur og rússneskur ríkisborgari og eftir átján ára aldur er herskylda í Rússlandi, það á enginn undankomu auðið. Ég slepp því ekki yfir rússnesk landamæri án þess að vera sendur beinustu leið í herinn, því rússneskir karlar á aldrinum 18 til 27 ára verða að gegna tólf mánaða herskyldu. Ég tek því enga áhættu og er ekki á leiðinni til Rússlands næstu átta árin, því miður. Ég vil ekki missa af lífi mínu, námi og tónlistinni heima á Íslandi og hef önnur framtíðarplön en hermennsku,“ segir Daniil ákveðinn í bragði.

Hann er tvítyngdur.

„Ég tala alltaf rússnesku heima og les bæði rússnesku og skrifa hana. Mér finnst tungumálið fallegt og þykir vænt um rússneska nafnið mitt, Daniil, sem er það sama og íslenska nafnið Daníel.“

Fastur vegna veirunnar

Daniil stefnir á stúdentshúfuna að ári liðnu og síðan á frekara nám í tónlist, en hann lærði á gítar um árabil.

„Ég byrjaði að semja tónlist sextán ára og gaf út mitt fyrsta lag sautján ára. Tónlistin er númer eitt og það eina sem ég vil gera í framtíðinni, en ég tek hana ekki alvarlega og sem lögin meira til gamans. Við sjáum svo hvert það leiðir mig og hvað gerist í framhaldinu.“

Í gær kom út glænýtt lag frá Daniil, Fastur. Það er grípandi ferskt og sumarlegt popplag sem verður vafalaust eitt af sumarlögum ársins og er komið á streymisveitur.

„Ég samdi lagið í fyrra, þegar Covid-19 hafði harðlokað öllu og sett líf okkar í fastar skorður. Þaðan kemur nafnið Fastur og vísar í að vera fastur og komast ekki frjáls ferða sinna til að njóta lífsins og hitta vinina. Ég er þó mun meira í lagasmíðum og textasmíðum og finnst ekki alltaf þurfa að vera djúp merking í textum. Melódían skiptir mig meira máli og það að hafa gaman af tónlistinni.“

En þótt Daniil hafi verið fastur eins og önnur ungmenni heimsins á tímum kórónaveirunnar segir hann margt gott hafa hlotist af veiruskrattanum.

„Það breyttist ekki svo margt hjá mér því ég geri mikið það sama, er annað hvort heima, í stúdíóinu eða með vinunum, en auðvitað var frekar glatað að geta ekki hitt x marga vini í einu. Við gerðum bara okkar besta og unnum okkur út úr þessu saman. Covid reyndist svo vera þroskandi og kenndi mér að horfa meira inn á við og prófa eitthvað nýtt. Ég lærði líka að vera einbeittari og tók námið fastari tökum. Veiran var því ekki alslæm.“

Fastur og vísar í að vera fastur og komast ekki frjáls ferða sinna til að njóta lífsins og hitta vinina.

Dekraður sem einbirni

Um helgina ætlar Daniil að gera það sem hann gerir alltaf um helgar.

„Það er að vera með vinum, fara í stúdíóið, horfa á góða bíómynd og borða nammi. Það tilheyrir um helgar, að sækja sér bland í poka á nammibarnum í Hagkaup og ég elska góðar gamanmyndir. Ég gæti svo horft aftur og aftur á myndina The Wolf of Wall Street með Leonardo DiCaprio, þótt hún sé ekki gamanmynd; ég fæ bara ekki leið á henni,“ segir Daniil, kominn í helgarskap og ekki lengur eins „fastur“.

„Laugardagar eru í algjöru uppáhaldi og besti helgarmaturinn er „basic“ pítsa með pepperoni. Lagið sem kemur mér í helgarskap er So much með Yung Kayo,“ segir Daniil sem fylgdist vel með Eurovision á barnsaldri en minna nú.

„Ég stend auðvitað með Daða og mun tékka á framlagi Rússa en þegar ég var lítill hélt ég alltaf með Íslandi og Rússlandi, enda eru það löndin mín,“ segir hann kátur.

Spurður um fyrirmyndir í lífinu nefnir Daniil foreldra sína.

„Mamma og pabbi eru mér allt og alveg frábær. Ég er einbirni, þekki ekki annað og finnst það fínt. Ég hef alltaf notið einmuna dekurs og fengið allt sem ég vil,“ segir hann hlæjandi.

Hlustaðu á Fastur á Spotify og öðrum streymisveitum.