Ég er fæddur og uppalinn á Hvolsvelli og tengist því Rangarþingi eystra afar sterkum böndum. Þarna þekkir maður hvern hól og hverja þúfu. Frelsið sem maður upplifði í æsku hefur svo mikið að gera með það hvernig maður er í dag. Við smíðuðum kofa, ég gerði við skellinöðrur og var í raun með heilt þorp sem leikvöll. Það er algerlega ómetanlegt að hafa fengið að alast upp á svona stað. Minn uppáhaldsstaður á öllu svæðinu er að sjálfsögðu æskuheimilið að Litlagerði 10. Þar er alltaf heitt á könnunni þegar ég er á svæðinu, enda eru Hvolsvellingar þekktir fyrir eindæma gestrisni,“ segir Ómar.


Leiðin inn í Stakkholtsgjá getur verið strembin fyrir óvana. Ómar og félagar taka sig vel út.

Leyndarmál Ómars

Ómar lumar á nokkrum ráðum þegar kemur að því að ferðast um Suðurlandið. „Ekki keyra framhjá Hvolsvelli, því þetta heillandi þorp er ótrúlega vel staðsett fyrir þá sem ætla að ferðast á þessu svæði. Þar er æðislegur veitingastaður og rólóinn við leikskólann Örk er líka stórskemmtileg dægrastytting fyrir krakkana. Frá Hvolsvelli er hægt að skella sér í geggjaðar göngur, til dæmis upp á fjallið Þríhyrning. Einnig er steinsnar að kíkja í dagsferð í Þórsmörk, eða jafnvel til Vestmannaeyja. Þar eru líka ferðaþjónustufyrirtæki líkt og Midgard og South Coast Adventure, sem hafa margt spennandi upp á að bjóða.“

Ómar og félagar eftir frábæra gönguferð á svæðinu. Þórsmörk er paradís fyrir útivistarfólkið.

Söguslóðir

Ómar segir svæðið vera gullkistu fyrir útivistarfólk. „Ég mæli með að fólk skipuleggi útivistarferðir, hvort sem eru göngur, hestaferðir eða annað. Þetta eru náttúrulega Njáluslóðir og það að upplifa svæðið á hestbaki, eins og Njáll og Gunnar forðum, er algerlega ólýsanlegt. Ég mæli líka sérstaklega með því að kíkja í Sögusetrið, ef fólk vill kynna sér Njálu betur, áður en haldið er á Njáluslóðir. Njála er spennusaga fyrir alla aldurshópa og krakkarnir hafa jafn gaman af því að læra um kappana og fullorðna fólkið.“

Heillandi helgarferð

Hin fullkomna helgarferð í huga Ómars myndi byrja á því að kíkja í sund til að starta deginum. „Næst myndi ég draga fjölskylduna í góða gönguferð, til dæmis upp á einn tind Þríhyrnings. Því næst myndum við renna að Hellishólum og fá okkur snæðing, áður en við héldum á ærslabelginn á Hvolsvelli, sem er alveg æðisleg útrás fyrir yngri kynslóðina. Krakkarnir falla svo í djúpan og ótruflaðan svefn fram á næsta morgunn. Daginn eftir væri snilld að halda inn í Þórsmörk, sem er ein fallegasta náttúruperla okkar Íslendinga, skella upp tjaldi fyrir nóttina, ganga um svæðið og grilla svo eitthvað girnilegt um kvöldið.“