Bandaríski leikarinn Sylvester Stallone hefur þvertekið fyrir þann orðróm að hjónabandi hans og eiginkonu hans til 25 ára, Jennifer Flavin, hafi lokið vegna óyfirstíganlegra deilna þeirra um Rottweiler-hundinn Dwight.
Bandaríska slúðurpressan greindi frá því í gær að Flavin hafi verið mótfallin því að fá Dwight inn á heimilið, en Stallone viljað hann sem einskonar varðhund. Þessar deilur hafi undið upp á sig og orðið til þess að hjónabandið fór í vaskinn.
Stallone segir við TMZ að þetta sé ekki rétt en staðfestir þó að þau hjónin hafi á köflum verið ósammála um ákveðin atriði, til dæmis hver ætti að hugsa um hundinn á meðan þau væru á ferðalagi.
Stallone talaði fallega um Jennifer og sagðist bera mikla virðingu fyrir henni. „Ég mun alltaf elska hana og hún er ótrúleg kona. Hún er yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst,“ segir hann.
Fréttir af skilnaði Stallone og Flavin komu mörgum í opna skjöldu enda höfðu þau verið saman í um 30 ár og gift í 25 ár. Stallone er 76 ára en Flavin 54 ára.