Margrét Lea var spurð hvernig hún myndi ráðleggja fólki að klæða sig um helgina. Hún var ekki í vandræðum með að svara því. „Klæða sig eftir veðri og leyfa persónuleikanum að skína í gegn. Ekki hræðast að vera öðruvísi en aðrir,“ segir hún og bætir við að sjálf fari hún í venjulegan fatnað en poppi hann upp með flottri tískuflík. „Mér finnst lopapeysur flottar en sjálf hef ég ekki getað notað þær þar sem mig klæjar undan ullinni. Lopapeysan er alltaf sígild fyrir þá sem geta notað hana,“ segir hún.

Engin útihátíð að þessu sinni

Margrét Lea segir að hér á landi sé mikið úrval af útivistarfatnaði. „Það er ótrúlega mikið í boði, 66°Norður er alltaf vinsælt merki og svo finnst mér vera mjög margt flott í Cintamani. Sjálf elska ég útihátíðir þótt mér finnist alltaf þægilegast að sofa heima. Ef ég fer á þjóðhátíð er ég löngu áður byrjuð að pæla í því hvernig ég klæðist. Mér finnst skemmtilegt að vera smá öðruvísi en aðrir.“

Margrét opnaði snyrtivöruverslunina Shay ásamt systur sinni, Írisi, í nýja miðbænum á Selfossi í október á síðasta ári. Þær hafa verið á fullu að sinna versluninni síðan svo þessa helgina verður bara vinna hjá Margréti, sem er Selfyssingur.

„Þessa verslunarmannahelgi verð ég að vinna í búðinni auk þess að gera efni fyrir Instagram sem ég vinn við. Kíki kannski út með vinum hér í heimabænum. Annars væri ég rosalega til í að fara á Þjóðhátíð með vinkonunum. En verð víst bara í skvísufötum í vinnunni.“

Töffaraleg í Eyjum en Margrét Lea hefur skemmt sér vel á Þjóðhátíð.

Frekar regnjakki en ruslapoki

Er púkalegt að vera bara í gallabuxum og úlpu á þjóðhátíð?

„Það er pottþétt blanda, sérstaklega ef gengið er um bæinn, en ef ég væri að fara niður í Dal myndi ég vera í hlýjum undirfötum og vera í góðri peysu. Flottur jakki yfir væri toppurinn,“ segir hún.

Á myndum frá útihátíðum fyrri ára má sjá unglinga í svörtum ruslapokum þegar byrjaði að rigna. Þegar Margrét er spurð hvort ekki væri betra að vera í vönduðum regnjakka svarar hún: „Eflaust er hægt að gera eitthvað mjög töff úr svörtum ruslapoka, það gæti verið áskorun að finna út úr því.

Leðurjakkinn er í lagi ef maður er í hlýjum undirfötum og góðri peysu.

Ég er frekar hrifin af appelsínugulu iðnaðarjökkunum, fékk einu sinni þannig lánaðan hjá pabba og leið vel í honum. Annars hefur úrvalið af útivistarfatnaði hér á landi breyst mikið til batnaðar frá því sem áður var,“ segir hún.

Vanda skal förðunina

Þegar Margrét er spurð hvort stelpur ættu að farða sig í útilegum, svarar hún að hverjum sé það frjálst. „Ég kýs að mála mig og finnst gaman að nota alls kyns demanta og liner til að poppa upp augun með lituðum augnskugga. Það er svo margt hægt að gera. Það þarf að passa að förðunarvörurnar endist vel yfir kvöldið, sé vatnsheldur. Þá er nauðsynlegt að nota CC-krem sem grunn undir farðann sem endist þá lengur, síðan setting sprey og púður. Ég gæti ekkert farið án þess að hafa contour-stiftið mitt frá LancÔme og kinnalitinn Whipped Powder frá Shiseido.

Húðumhirðan skiptir þó öllu máli. Munið að hreinsa húðina eftir fjörið en Face Halo skífurnar eru algjör snilld til þess, þær eru eins og strokleður, farðinn rennur strax af,“ segir Margrét. „Ekki gleyma rakaserumi og rakakremi. Það er þægilegt að taka með sér þessar vörur í litlum stærðum.“

Kuldaúlpan er alltaf sígild og svo er hún afskaplega hlý í íslensku veðri.

Tískan heillar

Þegar Margrét lauk náminu í Barcelona starfaði hún með deildarstjóra og stílista í Lindex og fékk að aðstoða við opnun verslunarinnar í Danmörku. Margrét, sem er 26 ára, ákvað síðan að skella sér í förðunarnám hjá Reykjavík Make Up School og segist hafa algjörlega fallið fyrir því.

Tíska og förðun hefur alltaf heillað Margréti og hún segist fá mikinn innblástur frá fjölskyldu sinni og vinum. „Ég horfi líka eftir innblæstri á Instagram og Pinterest. Ég leit mikið upp til eldri systur minnar og fylgdist vel með þegar hún og vinkonur hennar voru að klæða sig upp og farða. Ég gat ekki beðið eftir að geta orðið svona fín en systir mín var alltaf með eigin stíl og lét tískusveiflur ekki hafa áhrif á fatavalið. Sem betur fer er svo mikið frelsi í tískunni í dag,“ segir Margrét sem mun væntanlega hafa nóg að gera um helgina.

Það er ekkert flottara en að bera hatt um verslunarmannahelgina og skera sig svolítið úr mannfjöldanum.
Þykk hettupeysa og útivistarvesti. Þetta getur ekki klikkað þegar haldið er í útilegu.
Jafnvel flottur rykfrakki getur komið sér vel ef maður er vel klæddur undir og þeir eru vinsælir núna.