Fátt er öruggt í jólabókaflóðinu en þó er víst að Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson verða í hópi metsöluhöfunda. Hún með bók sína Lok, lok og læs og hann með Úti.

Yrsa er þegar búin að lesa bók Ragnars, Úti. „Ég ætlaði að bíða með að lesa hana en svo gat ég það ekki. Ég er mjög ánægð með þá bók,“ segir Yrsa. Ragnar er byrjaður á bók Yrsu. „Það sem ég er búinn að lesa er frábært. Ég er mjög spenntur, byrjunin er óskaplega óhugguleg.“

Enginn rígur

Þau eru góðir vinir og stofnuðu í sameiningu glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn. Bæði gefa svo bók á ári. Er ekki smá samkeppni á milli þeirra um sæti ofarlega á metsölulistum?

„Metsölulistar segja manni að margir séu að lesa bókina sem er gaman en það skiptir mig engu máli hvort ég er fyrir ofan eða neðan Yrsu,“ segir Ragnar.

„Maður skrifar bókina, hún fer í prent og svo getur maður ekki gert neitt meir. Maður ræður engu um það í hvaða sæti maður lendir á metsölulista. Það eina sem maður getur gert er að vanda sig og skrifa skemmtilega bók,“ segir Yrsa og bætir við: „Ég hef ekki orði vör við ríg á milli glæpasagnahöfunda, okkur er öllum vel til vina og maður vill að vinum manns gangi vel. Við glæpasagnahöfundarnir vorum dálítið á jarðrinum, þóttum ekki alveg nógu fín en núna ber minna á slíku viðhorfi en áður.“

„Glæpasögur hafa átt stóran þátt í að halda uppi merki Íslands erlendis. Ég held að menn hafi áttað sig á því að það er ekki hægt að setja þær til hliðar,“ segir Ragnar. „Ef ekki væri fyrir glæpasögurnar væru mun færri að lesa íslenskar bækur úti í hinum stóra heimi. Við glæpasagnahöfundarnir erum svo alltaf að reyna að ýta undir það að glæpasögunni sé gert jafn hátt undir höfði og öðrum tegundum bókmennta. Af hverju er til dæmis ekki flokkur innan Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir glæpasögur eins og fyrir barnabækur?“

Algjörlega frábært

Þau fagna því að Arnaldur Indriðason hafi hlotið Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. „Það er algjörlega frábært. Skrýtið að það hafi ekki gerst fyrr. Arnaldur hefur gert svo mikið fyrir lestur á Íslandi,“ segir Yrsa og Ragnar tekur undir.

Bækur Yrsu og Ragnars hafa verið þýddar á fjórða tug tungumála. Þau segja mikinn tíma fara í upplestra og kynningar erlendis. „Þetta kostar gríðarlega mikinn tíma. Ég þyrfti að fara á námskeið til að læra að segja nei,“ segir Yrsa. „Nú er ég orðinn duglegri við að segja nei og velja þau lönd sem skipta mestu máli eða lönd sem mig langar til að heimsækja, því þetta þarf að vera gaman,“ segir Ragnar.

Bækur í vinnslu

Nú þegar nýjustu bækur þeirra eru komnar í verslanir og munu væntanlega seljast eins og heitar lummur, eru þau þá farin að leggja drög að næstu bókum?

„Mér finnst mjög gaman að skrifa og er með margar hugmyndir. Við Katrín Jakobsdóttir erum að vinna í bók. Svo er ég að skrifa framhald af Hvíta dauða, ég fékk skemmtilega hugmynd sem ég er að vinna úr. Svo er ég með enn aðra bók sem verður væntanlega í samstarfi við annan höfund,“ segir Ragnar.

„Ég er afskaplega óöguð í þessu, en eins og Ragnar skrifa ég af því mér finnst það skemmtilegt. Ef maður er ekki áhugasamur um það sem maður er að skrifa þá er gefið að bókin verður ekki skemmtileg,“ segir Yrsa.

Hún hefur skrifað barnabækur en Ragnar hefur haldið sig alfarið við að senda frá sér glæpasögur, þótt hann skrifi fleira en þær. „Ég yrki stundum og skrifa smásögur, ætla að skrifa eina núna um jólin,“ segir hann.