Bækur

Tíbrá

****

Höfundur: Ármann Jakobsson

Útgefandi: Bjartur

Fjöldi síðna: 295

Tí­brá ber nafn með rentu. Hér er á ferð skemmti­leg glæpa­saga, sem er ein­mitt fyrst og fremst það; glæpa­saga, sem verður seint flokkuð með spennu­tryllum eða hroll­vekjum þeim sem eru svo al­gengar í dag. Sagan stendur og fellur með glæpnum, fram­kvæmd hans og fléttunni í kringum hann og eins og í öllum góðum glæpa­sögum þurfa les­endur sí­fellt að vera á varð­bergi. Hver er morðinginn? Hvert er mótífið? Og svo er það stærsta spurningin sem gerir söguna nokkuð ein­kenni­lega: Hver er glæpurinn ná­kvæm­lega?

Fjórir menn fara saman á rjúpu í rík­mann­legum bú­stað á há­lendinu. Mennirnir eru allir ó­líkir í per­sónu­leika og út­liti, þekkjast lítið og líkar raunar ekki sér­lega vel hverjum við annan. Saman flækjast þeir í at­burða­rás, sem reynist flóknari en þá grunaði í fyrstu og á eftir að breyta lífi þeirra varan­lega.

Sagan er sögð á skemmti­legan hátt og er skipt nokkuð ört um sjónar­horn milli kafla og skipta per­sónurnar þannig frá­sögninni jafnt á milli sín. Lesandinn fær því inn­sýn inn í líf mannanna fjögurra og auð­vitað rann­sóknar­teymisins, sem bregður hér aftur á leik. Það saman­stendur af gamal­reynda rann­sóknar­lög­reglu­manninum Bjarna, hinni hrein­lyndu Margréti Krabbe, unga folanum Njáli og loks aðal­stjörnunni Kristínu, sem er öllu marg­ræðari og flóknari per­sónu­leiki, eins og al­vöru nor­rænni rann­sóknar­lög­reglu sæmir.

Tí­brá er þriðja spennu­saga Ár­manns um rann­sóknar­teymið en er sjálf­stætt fram­hald hinna bókanna. Ár­manni tekst hér vel upp. Sagan er ekki að­eins skrifuð á skemmti­legan hátt þar sem frá­sagnar­gleði höfundarins nýtur sín vel, heldur er hún vel upp­byggð og vex ás­megin með hverjum kaflanum þar til loks að leysist úr gátunni og les­endur fá svör við spurningum sínum.

Hnyttni virðist höfundinum í blóð borin og geta les­endur notið lærðra orða­leikja og vísana í Ís­lendinga­sögurnar, sem ber nokkuð á út alla bókina. Pólitískt rétt­læti og önnur sam­tíma­mál eru einnig tekin fyrir en þó ekki á þann týpíska, þrá­láta og leiðin­lega máta sem mönnum hættir til sækjast í. Ár­mann gætir þess að staldra ekki of lengi við þessar hug­leiðingar, heldur rétt drepur á þær á gaman­saman hátt og heldur svo á­fram með söguna.

Bókin hefst á hvers­dags­legum nótum og í fyrstu er lesandanum ó­mögu­legt að sjá í hverju spennan og dul­úðin felast, sem eru svo ó­missandi þættir góðrar glæpa­sögu. Hann verður þó að hafa nafn bókarinnar í huga; hún er ekki öll þar sem hún er séð eins og síðar kemur í ljós. Þegar upp er staðið er sagan vel heppnuð. Tí­brá er skemmti­leg glæpa­saga sem er laus við alla til­gerð og leiðin­legan, nor­rænan grámann, sem vill svo oft fylgja krimmunum.


Niður­staða: Skemmti­leg og frum­leg saga af ó­venju­legum glæp. Fléttan kemur skemmti­lega á ó­vart.