Líkamsræktarstöðvar um allan heim lokuðu dyrum sínum þegar heimsfaraldurinn breiddist út. Það gat haft neikvæðar afleiðingar fyrir heilsu fólks og líðan sem er vant að hreyfa sig. Hópur vísindamanna frá Háskólanum í Ósló og UiT háskólanum, The Arctic University of Norway, vildu kanna hvort það væri raunin að mikil hætta væri á smiti í líkamsræktarstöðvum. Alls tóku 1850 manns þátt í rannsókninni en allir höfðu áður stundað líkamsrækt í fimm stöðvum í Ósló.

Hópnum var skipt í tvennt. Annar hópurinn fékk leyfi til að stunda þjálfun í líkamsræktarstöðinni á meðan hinn varð að halda sig heima. Rannsóknin fór fram á tveggja vikna tímabili frá 22. maí síðastliðnum. Þeir sem fengu að æfa í stöðinni þurftu að fylgja nákvæmum reglum um sóttvarnir, fjarlægð og handhreinsun. Auk þess voru tæki sótthreinsuð milli notkunar. Niðurstaðan kom á óvart því engin aukin hætta reyndist vera fyrir þá sem stunduðu ræktina í líkamræktarsal. Enginn smitaðist.

Fylgja sóttvarnarreglum

„Svo lengi sem fólk fylgir ráðleggingum sóttvarnalæknis varðandi hreinlæti og fjarlægð, er engin aukin hætta á að vírusinn breiðist út í líkamsræktarstöðvum,“ segir Ørjan Olsvik, einn vísindamannanna sem stendur að rannsókninni, en hann er prófessor í læknisfræðilegri örverufræði við UiT. Aðeins einn úr hópnum smitaðist af veirunni á þessum tíma, en sá hafði ekki æft í líkamsræktarstöð. Smit hans var rakið til vinnustaðar hans.

Rannsóknin hefur vakið athygli og hefur verið birt í New York Times og í amerískum sjónvarpsstöðvum, að því er norski vefurinn forskning.no greinir frá. Vísindamenn vilja þó ekki meina að þessi niðurstaða gildi um allar líkamsræktarstöðvar. Prófessor Michael Bretthauer hjá háskólanum í Ósló, bendir á að það geti verið misjafnt hversu mikið veiran hafi breitt úr sér í öðrum löndum. „Þá er alltaf hætta á að fólk fari ekki nægilega vel eftir sóttvarnareglum og ráðleggingum um smitvarnir. Rannsóknin í Noregi var gerð undir mjög náinni og öruggri eftirfylgni með þátttakendum. Allir voru heilbrigðir í upphafi rannsóknar og allir voru yngri ern 64 ára. Þeir sem eru í áhættuhópum voru ekki þátttakendur í þessari rannsókn. Reglulega voru tekin sýni af þátttakendum.

Sá hópur sem æfði í líkamsræktarstöðinni mætti oft í viku en sturtur og gufuböð voru lokuð. Í hópþjálfun var tveggja metra bil á milli manna. Vísindamennirnir vilja skoða betur hvort fjarlægðarmörkin séu nauðsynleg og verður því rannsókninni haldið áfram til að kanna það.