Óbragð er fyrsta skáldsaga Guðrúnar Brjánsdóttur en hún hefur áður sent frá sér nóvelluna Sjálfstýringu sem vann samkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, 2020. Óbragð á sér nokkuð óvenjulega útgáfusögu en bókin kom fyrst út í Danmörku í þýðingu síðasta haust og kemur núna út á frummálinu.
„Ég gerði fyrst samning í Danmörku þar sem ég bjó þegar hugmyndin að þessari sögu fæddist. Svo var ég enn þá í samskiptum við Forlagið hér og spurði hvort þau væru til í að kaupa réttinn, þetta var svona í öfugri röð sem var ekkert planið. Hún kom út fyrst í Danmörku í nóvember síðastliðnum, mig langaði náttúrlega til þess að þær kæmu út á sama tíma en það gafst ekki alveg tími til þess,“ segir Guðrún.
Glímir við eftirköst Covid
Óbragð er samtímaskáldsaga sem gerist í miðjum Covid-faraldrinum og kveðst Guðrún hafa skrifað bókina með húmorinn að vopni.
„Hún fjallar svolítið mikið um samtímamálefni, bæði gerist hún í tíðaranda Covid-heimsfaraldursins og fjallar líka svolítið um málefni í deiglunni eins og loftslagsmál. Sagan hverfist um eina aðalpersónu sem byrjar í kakóhugleiðslu, þannig að það er svolítið rauði þráðurinn en þetta er líka ferðasaga sem gerist að stórum hluta í Skaftafelli.“
Sögupersóna bókarinnar er Hjalti, ungur maður sem starfar á öldrunarheimili og stendur á krossgötum í lífinu. Hann er nýhættur með kærustunni sinni og er að ganga í gegnum sambandsslitin á sama tíma og hann glímir við erfið eftirköst af Covid-smiti.
„Hann er að glíma við alls konar eftirköst, er hvorki með lyktar- né bragðskyn og er líka með andleg eftirköst. Hann er með mikinn kvíða og er heltekinn af veggjalúsum, það tengist allt einhverjum svona smitpælingum. Í byrjun sögunnar er hann að glíma við alls konar vandamál og er svolítið búinn að einangra sig félagslega og líður ekki mjög vel,“ segir Guðrún.
Breyting verður á tilbreytingarlausu lífi Hjalta þegar hann fer að stunda kakóhugleiðslu með sjálfshjálparhóp sem hann endar á að fara með í leiðangur út á land.

Fylgdist með umræðunni
Vinsældir kakóseremónía líkt og þeirra sem fjallað er um í Óbragði hafa aukist til muna á Íslandi undanfarin ár, spurð um hvort hún hafi fylgst með þessari tískubylgju segir Guðrún:
„Ég náttúrlega fylgdist með umræðunni á sínum tíma. Hins vegar er þessari bók ekki ætlað að vera einhver sérstök ádeila á kakóseremóníur per se. Ég hef alveg prófað að fara í svona seremóníur, bæði úti í Danmörku þegar ég bjó þar og líka á Íslandi, en ekki samt seremóníur eins og þessar sem eru í bókinni. Það er náttúrlega mjög áhugavert hvað þetta varð vinsælt hratt. Þetta varð svolítið æði og mér finnst áhugavert hvað þetta gerist í einhverjum svona lokuðum hópum þar sem fólk er mikið að vinna úr persónulegum málum en svo veit maður ekki hvaðan þessir meðferðaraðilar koma.“
Hefurðu áhuga á andlegum málefnum?
„Ég hef kynnt mér hugleiðslu mjög mikið þótt ég sé ekkert sérstaklega dugleg við það. En ég er ekkert mikið í andlegum félagsskap, getum við sagt. Ég náttúrlega kynnti mér þetta mjög mikið í kringum það þegar ég var að skrifa bókina en ég er bara svona andleg í meðallagi.“
Ég hef alveg prófað að fara í svona seremóníur, bæði úti í Danmörku þegar ég bjó þar og líka á Íslandi, en ekki samt seremóníur eins og þessar sem eru í bókinni.
Góðar viðtökur í Danmörku
Guðrún segist hafa tekið sér um það bil eitt og hálft ár í að skrifa Óbragð en síðan hafi tekið við tímabil þar sem hún vann með danska þýðandanum að þýðingu bókarinnar. Hún segir það hafa verið skemmtilega upplifun að gefa út bók í Danmörku.
„Þetta er náttúrlega miklu stærri sena og almennt voru viðtökurnar góðar. Hér er þetta náttúrlega svo lítið bókmenntasamfélag og það er gaman að fá viðbrögð frá fólki sem maður hefur aldrei heyrt um áður. Af því að hér eru þetta mikið kunningjar sem eru að dæma bækur á Goodreads og svo framvegis. Þannig að það var mjög skemmtilegt en það er náttúrlega að sama skapi erfiðara að koma sér á framfæri,“ segir hún.
Kennir forníslensku
Guðrún er núna búsett í Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám við Cornell-háskóla í New York-fylki og kennir samhliða því námskeið í forníslensku.
„Ég hef mjög gaman af því að ferðast og prófa nýja staði. Ég bý þetta skólaár í Bandaríkjunum og er að kenna forníslensku í Cornell þar sem ég er líka nemandi. Þetta er eiginlega eins og skiptinám, ég er í meistaranámi í íslensku við HÍ og það er löng hefð fyrir því í íslenskunni að meistaranemar séu sendir út til að kenna þetta námskeið,“ segir Guðrún.
Hvað er svo næst á döfinni hjá þér?
„Ég er með hugmyndir að nýju efni og ætla að reyna að gera meira af því á þessu ári að skrifa. Ég fékk ritlaun í fyrsta skipti í ár þannig að ég ætla í fyrsta sinn að taka frá alvöru tíma til þess að skrifa sem verður örugglega ný upplifun. Maður er alltaf að skrifa meðfram öðru og það verður aðeins minna stress að geta einbeitt sér að þessu.“