Ég er skírð eftir afa mínum Sveini og ömmu Janet, sem var alltaf kölluð Jane,“ segir knattspyrnukonan Sveindís Jane um nafn sitt sem í senn er svo rammíslenskt en um leið útlenskt.

Sveindís er nítján ára, fædd og uppalin í Keflavík, dóttir Jóns Sveinssonar og Eunice Quayson sem flutti til Íslands frá Gana.

„Mamma og pabbi vilja bæði meina að þau hafi verið rosalega góð í fótbolta á sínum ungdómsárum þannig að kannski fékk ég fótboltahæfileikana frá báðum,“ veltir Sveindís fyrir sér þar sem hún stendur á glæsilegum heimavelli Kristianstad, en hún er nýlega flutt að heiman til Svíþjóðar.

„Ég var tilbúin að taka næsta skref á fótboltaferlinum og það var að komast í gott lið í atvinnumennskunni. Í veganesti að heiman hef ég ævarandi stuðning foreldra minna sem hafa alltaf stutt mig í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur; það hefur alltaf verið gott að vita af þeim og vita að þau eru stolt af mér. Ég sakna því Íslands ekki beint en ég sakna sannarlega fólksins míns heima á Íslandi og er ekkert smá spennt fyrir því að fá heimsóknir að heiman þegar ástandið í heiminum batnar.“

Sveindís Jane segist engu mundu breyta þótt hún fengi aðgang að tímavél, þegar kemur að fótboltaárum sínum með Keflavík. MYND/RÚRIK GÍSLASON

Söguleg innkoma í landsliðið

Sveindís Jane er fljót til svars þegar hún er innt eftir því hver hún sé, fyrst og fremst:

„Ég elska að spila fótbolta.“

Bernskudraumurinn kemur því ekki á óvart.

„Ég byrjaði í fótbolta níu ára og eftir fyrstu æfingarnar varð fótbolti númer eitt, tvö og þrjú í mínu lífi. Draumurinn varð strax mjög skýr, hann var að spila fótbolta fyrir Íslands hönd, verða atvinnukona í fótbolta og verða jafngóð og Margrét Lára. Sá draumur er nú orðinn að risastóru langtímamarkmiði sem ég mun vonandi ná að uppfylla einn daginn, en það er sko alls ekki sjálfgefið,“ segir Sveindís kappsöm.

Fyrsta minning Sveindísar um fótbolta er ljúf.

„Ég mun aldrei gleyma Símamótinu, Pæjumótinu á Siglufirði og Pæjumótinu í Vestmannaeyjum. Það var alltaf jafn skemmtilegt,“ segir hún og brosir að minningunni.

Uppeldisfélag Sveindísar í fótboltanum var Keflavík sem hún spilaði með allt þar til í desember 2019 þegar Keflavík lánaði hana til Breiðabliks. Þar var hún gagnrýnd fyrir að hafa verið of lengi hjá Keflavík, sem virðist þó ekki hafa bitnað á frammistöðu hennar, eða hvað segir Sveindís við því?

„Ef ég fengi tækifæri til að fara aftur tímann er ég nokkuð viss um að ég myndi ekki vilja breyta neinu. Ég fékk dýrmæta reynslu í Keflavík og verð ævinlega þakklát fyrir hverja einustu mínútu sem ég fékk að spila fyrir Keflavík, hvort sem það var toppbaráttan í 1. deildinni eða fallbaráttan í Pepsi Max-deildinni. Það er ekki sjálfgefið að fá að spila með meistaraflokki aðeins fjórtán ára gömul, og í jafnmetnaðarfullu liði og Keflavík með sín risastóru markmið.“

Sveindís var kölluð inn í sinn fyrsta leik með A-landsliði kvenna í september í fyrrahaust þar sem hún skoraði tvö mörk gegn Lettlandi og er byrjun hennar í íslenska landsliðinu sú besta í sögu kvennaliðsins.

„Nei, ég kom sjálfri mér ekki á óvart í mínum fyrsta landsleik, ég átti þetta inni og á enn fullt inni. Mér líður mjög vel inni á vellinum í landsliðstreyjunni, allir landsleikir eru mikilvægir og það að spila fyrir Íslands hönd mun alltaf vera sannur heiður,“ segir Sveindís, stolt af frammistöðu sinni og árangri.

„Það eru forréttindi að spila fótbolta, forréttindi að vera atvinnukona og að spila fyrir Íslands hönd. Að vinna við að gera það sem ég elska eru líka forréttindi. Það er ótrúlega gaman að ferðast um heiminn og spila fótbolta.“

Sveindís Jane er á leiðinni til þýska stórliðsins Wolfsburg sem er eitt það allra besta á heimsvísu. MYND/ALDÍS PÁLSDÓTTIR

Risastökk til Wolfsburg

Á milli jóla og nýárs undirritaði Sveindís Jane þriggja og hálfs árs samning við þýsku meistarana í Wolfsburg sem er eitt sterkasta lið Evrópu og vann þýsku Bundesliguna í fyrra ásamt því að vinna þýska bikarmeistaratitilinn.

„Wolfsburg er auðvitað risastórt lið í kvennaboltanum og eitt af bestu liðum heims. Það verður stórt stökk að fara til Wolfsburg en það að fara frá Svíþjóð til Wolfsburg minnkar stökkið töluvert, miðað við ef éghefði farið beint frá Íslandi. Með því að spila fyrir Kristianstad er ég að bæta við mig mikilvægri reynslu áður en ég held til Þýskalands. Wolfsburg vildi tryggja sér mig í sitt lið en lánaði mig fyrsta árið til Kristianstad svo að ég gæti spilað í sterkari deild en heima á Íslandi og ég er mjög sátt við það skref,“ segir Sveindís.

Kristianstad leikur í sænsku úrvalsdeildinni, Damallsvenskan, og var fyrsti leikur liðsins í sænsku bikarkeppninni á laugardaginn var, þar sem Sveindís gerði sér lítið fyrir og skoraði tvennu í sínum fyrsta keppnisleik fyrir Kristian­stad.

„Tilfinningin var mjög góð. Það er alltaf gaman að skora og vinna leiki, og enn þá skemmtilegra að skora í fyrstu leikjunum,“ segir Sveindís sæl eftir nýliðna helgi og á nýjum stað.

„Helstu viðbrigðin við að vera orðin atvinnukona í fótbolta eru svo sannarlega nýtt tungumál, að búa ekki lengur hjá mömmu og pabba, og að sjálfsögðu meiri samkeppni og erfiðari andstæðingar, bæði á æfingum og í leikjum.“

Sveindís verður eitt ár í Kristianstad í Svíþjóð, þangað sem Wolfsburg lánaði hana til að brúa bilið á milli þess að spila í íslenska boltanum og fara þaðan beint í þýsku knattspyrnuna. MYND/FANNEY BIRNA STEINDÓRSDÓTTIR

Allir geta unnið alla í Svíþjóð

Sveindís kann einkar vel við sig í Svíþjóð.

„Hér hefur verið tekið mjög vel á móti mér og ég er heppin með að í Kristianstad býr fullt af Íslendingum sem gerir mjög mikið fyrir mig. Það er svo ekkert nýtt að ég elska Nocco, og Nocco er sko heldur betur sænskur drykkur,“ segir Sveindís kát, en hún er ekki alls ókunn Kristianstad því hún æfði með aðalliði félagsins til reynslu árið 2016.

Dæmigerð vika hjá knattspyrnufélagi Kristianstad inniheldur sex æfingar í viku, í einn og hálfan klukkutíma í senn, auk mislangra styrktaræfinga.

„En nú fer mótið að byrja og þá fer allt á fullt,“ segir Sveindís. „Aðstaðan hér er virkilega góð, sænska deildin er mjög skemmtileg, hér geta allir unnið alla, sem er aðeins öðruvísi en í deildinni heima. Hér kemst maður ekki upp með vanmat á liðum sem eru í neðri hluta deildarinnar.“

Sveindís segir knattspyrnukonur í atvinnumennsku ekki hafa það nærri eins gott og atvinnumenn í fótbolta.

„Þetta hefur samt sem áður breyst mikið frá því sem var og ég hef heyrt frá gömlu kempunum og ég er svo rosalega þakklát fyrir það. Það er samt sem áður allt of mikill munur á konum og körlum í atvinnumennsku en ég hef trú á að þetta sé allt á uppleið fyrir okkur yngri kynslóðina og svo mun næsta kynslóð á eftir vonandi hafa það enn betra en við sem erum í atvinnumennskunni núna.“

Sveindís Jane fann ástina í enskutíma í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hennar heittelskaði fylgir henni út í atvinnumennskuna. MYND/RÚRIK GÍSLASON

Urðu ástfangin í enskutíma

Unnusti Sveindísar Jane er Suðurnesjamaðurinn Sigurður Ingi Bergsson. Eins og Sveindís spilaði hann fótbolta með Keflavík þar sem hann var í láni hjá Víði í Garði.

„Siggi er mikill áhugamaður um fótbolta,“ segir Sveindís. „Hann vildi ekki spila fótbolta í Svíþjóð en Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfarinn minn hjá Kristianstad, fær Sigga oft með okkur á æfingar þar sem henni finnst gott að hafa stráka á æfingum. Hugmyndin með því er að auka hraðann á æfingum, þannig að við Siggi æfum stundum saman. Á sama tíma öðlast hann reynslu af að hafa konu sem þjálfara sem er frekar töff,“ segir Sveindís.

Þau Siggi felldu hugi saman þegar þau sátu saman í enskutímum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þaðan sem þau settu upp stúdentshúfur í fyrravor.

„Ég er mjög heppin að Siggi var tilbúinn að flytja með mér til Svíþjóðar og við finnum okkur oft eitthvað skemmtilegt að gera saman hér í Kristianstad. Annars er ég í NPTC-einkaþjálfaranámi á vegum Keilis, sem er 100 prósent fjarnám og hentar mér virkilega vel. Ég hef líka mjög gaman af því að prjóna og nýti frítímann sem ég hef í að prjóna eitthvað fallegt,“ greinir Sveindís frá.

Hún segir sinn helsta styrkleika sem knattspyrnukonu vera hraða og hugarfar.

„Ég er ekkert smá spennt fyrir því að hitta og bera mig saman við þær bestu í heiminum þegar ég fer til Wolfsburg. Þar eru fullt af geggjuðum fyrirmyndum, eins og til dæmis Alex Popp. Í kvennaboltanum eru svo rosalega mörg spennandi lið en ef ég mætti velja topp þrjú liðin væri það Lyon, PSG og Wolfsburg. Ég er svo lánsöm að hafa nú þegar fengið tækifæri til að skoða frábæra aðstöðuna sem PSG hefur og bíð spennt eftir að skoða aðstöðuna sem Wolfsburg hefur.“

Framtíðardraumarnir hafa svo breyst í stór markmið hjá Sveindísi Jane.

„Ég ætla mér að ná mjög langt. Árangur en engin endastöð heldur upphaf að einhverju nýju.“

Fylgist með Sveindísi Jane á Instagram @sveindisss

Sveindís Jane stundar nám í einkaþjálfun samhliða atvinnumennskunni og prjónar af miklum myndarskap í frístundum. MYND/ALDÍS PÁLSDÓTTIR