Bókabíll Borgarbókasafnsins er hinsegin þessa dagana og hefur verið fundinn góður staður við hús Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hann mun vera á Hinsegin dögunum, með fullfermi fjölbreytilegs úrvals hinsegin bókmennta, þangað til fögnuður fjölbreytileikans nær hámarki á laugardaginn og Einar Sigurmundsson, bókabílstjóri og bókavörður, rennir honum saman við Gleðigönguna.

„Hann er sko bara hinsegin í tvær vikur, svo er hann venjulegur allt árið,“ segir Einar. „Já, tiltölulega venjulegur,“ tekur Guðríður Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri hjá Borgarbókasafninu, undir og heldur áfram:

„Bókabíllinn er náttúrlega með sína áætlun en á Hinsegin dögum tæmum við hann af sínum venjulegu bókum og fyllum hann með hinsegin bókum sem koma flestar úr Grófarsafni.“

Guðríður segir hinsegin bókakost safnsins slíkan að lítið mál sé að fylla rúmgóðan bókabílinn í hólf og gólf. „Þegar bókasafn Samtakanna ‘78 var lagt niður fengum við öll skáldritin þaðan gefins en fræðiritin fóru á Þjóðarbókhlöðuna og svo erum við bara með öflugt innkaupateymi sem er vel með á nótunum og duglegt að panta inn.“

Ný stoppistöð

Hinsegin dekkjunum hefur verið brugðið undir bókabílinn Höfðingja frá 2019 en Guðríður segir hann þó aldrei hafa verið jafn áberandi og á þessari nýju stoppistöð í Austurstrætinu.

„Þetta er í fyrsta skipti sem hann er hérna við Lækjartorg en annars hefur hann bara verið niðri við Tjörnina hjá Ráðhúsinu. Hann tekur síðan í annað skipti þátt í göngunni á laugardaginn en við verðum örugglega ekki fyrst í röðinni. Við eltum bara,“ segir Guðríður og minnir á að heimsfaraldurinn hafi komið í veg fyrir Gleðigönguna síðustu tvö ár en nú er lag og Höfðingi verður fulltrúi Borgarbókasafnsins í göngunni sem boðberi fegurðar í frelsi og öllum hvatning til að víkka sjóndeildarhringinn með bóklestri.

Hinsegin bókakostur Borgarbókasafnsins fyllir bílinn auðveldlega.
Mynd/AntonBrink

„Þegar við höfum tekið þátt í Hinsegin dögum þá er fólk meira að skoða og svo sér það eitthvað áhugavert. Þannig að það er ekki eins og það sé sérstaklega að leita að einhverri bók, eins og það gerir kannski frekar þegar það kemur á bókasafnið.“ Þá telur hún rétt að vekja athygli á fjölbreytninni í bílnum og að þar megi til dæmis finna unglingabækur, barnabækur, ljóð og teiknimyndasögur.

Fordómalaus forvitni

„Hann vekur heilmikla forvitni og við höfum náttúrlega ekki verið á svona góðum stað áður,“ segir Guðríður og bætir við að fjöldi fólks stökkvi á vagninn. „Það er líka mikið af ferðafólki sem finnst þetta áhugavert og svo náttúrlega eru aðrir sem bara elska bókabílinn,“ heldur hún áfram og hlær. „Fólk er svo glatt að sjá hann svona á einhverjum óvæntum stað.“ Og bókabílstjórinn tekur í svipaðan streng. „Þetta er sérstakt dæmi, sko.“

Aðspurð segja þau Guðríður og Einar að bókabílnum hafi bara verið tekið fagnandi og þau hafi ekki orðið vör við nein leiðindi eða áreiti frá fordómaliði. „Nei, ég er nú reyndar bara búinn að vera hérna í klukkutíma,“ segir Einar og hlær. „Nei, það hefur ekki verið. Það hafa aldrei verið nein leiðindi þessi skipti sem við höfum verið við Ráðhúsið. Bara gleði,“ segir Guðríður.

Ekkert bannað

Bannaðar bækur fylla eina hilluna í bílnum og eru ágætis áminning um að fordómarnir eru sjaldnast langt undan. „Þetta eru bækur sem eru bannaðar í öðrum löndum. Það er náttúrlega ekkert bannað hérna hjá okkur.“

Bannfærðu bókmenntirnar verða í brennidepli í bílnum í dag milli 16.30 og 17.30 þegar Mars Proppé ræðir hvað það felur í sér að banna bók og veltir upp spurningum um af hverju samfélög hafi í gegnum tíðina bannað bækur sem snúa að hinseginleika.

„Þetta verður bara hér í bílnum þannig að það verður gaman að sjá hversu margir komast fyrir,“ segir Guðríður en Höfðingi verður opinn frá 13 til 18 fram á föstudag þegar Einar fer að fikra sig í átt að Gleðigöngunni.