Mitt besta tískuráð er að hugsa ekki um of um klæðaburð annarra né hvað öðrum finnst. Finnið fyrst og fremst föt sem ykkur líður vel í. Það skiptir ekki máli hversu dýr eða ódýr flíkin er, svo lengi sem manni líður vel með sjálfan sig í henni. Það er það sem skiptir mestu í lífinu; að vera sáttur í eigin skinni og hafa nóg sjálfsöryggi til að vera maður sjálfur,“ segir Trausti sem lýsir sínum stíl sem hversdagslegum.

„Ég hef aldrei velt tísku eða útliti mikið fyrir mér en tískuáhuginn hefur þó aukist með árunum. Það skiptir mig mestu máli að klæðast þægilegum fötum og ég mundi líka segja að stíllinn minn felist í því að nota gömul föt í staðinn fyrir glæný,“ upplýsir Trausti.

Fyrirmynd hans í klæðaburði er bandaríski R&B-rapparinn Bryson Tiller.

Trausti í dökkblá- og gulröndóttum bol undir svörtum pólójakka.

„Ég vil að stíllinn minn sýni að ég taki lífinu ekki alltof alvarlega en að ég haldi samt í fín og látlaus föt frekar en að þau séu of áberandi. Þegar ég vil vera flottur til fara fer ég í síðerma hvítan eða svartan bol, svarta Nike Janoski-skó, svartar gallabuxur og set á mig derhúfu. Ég á til dæmis mjög flotta Kendrick Lamar Untitled Unmastered-derhúfu sem mér þykir einkar vænt um og fékk frá kærasta systur minnar,“ segir Trausti.

Uppáhalds tískuverslunin hans er Herramenn á Laugavegi.

„Þar keypti ég minn fyrsta frakka sem er í algjöru uppáhaldi hjá mér núna. Mér finnst heldur ekkert leiðinlegt að henda mér í sparifötin,“ segir hann hlæjandi.

„Ég hef engin húðflúr en finnst góð ermi líta einna best út af öllum öðrum tattústöðum líkamans. Því hef ég mikinn áhuga á að fá mér persónulega og þýðingarmikla ermi á vinstri handlegg.“

Með kærustunni á Sigló

Trausti er 22 ára og heitir fullu nafni Pétur Trausti Friðbjörnsson.

„Ég varð áhugasamur um tónlist þegar ég var þrettán ára og byrjaði að leika mér í tónlistarforriti sem bróðir minn átti. Á sautjánda árinu fór ég svo að fikta við að búa til takta og skrifa texta og árið 2016 var ég farinn að rappa og syngja,“ segir Trausti sem er af mörgum talinn falinn demantur í íslensku rappsenunni og hefur meðal annars unnið með Arnari Frey í Úlfi Úlfi.

Trausti semur öll sín lög, texta og takta sjálfur og fyrir viku gaf hann út lagið Tapa mér sem hann mixaði sjálfur en Addi800 tók að sér að mastera lagið fyrir Trausta.

Trausta finnst mikilvægt að klæðast fötum sem veita honum vellíðan. Hér er hann í hlýrri peysu frá North Face sem honum þykir bæði flott, hlý og þægileg. FRÉTTABLAÐIÐ/?SIGTRYGGUR ARI

„Lagið fjallar um ást og umhyggju, sem því miður margir fá alltof lítið af. Ýmsar tilfinningar, bæði góðar og slæmar, verða mér að yrkisefni. Líka upplifanir, ímyndunaraflið og draumar,“ útskýrir Trausti.

„Mér finnst bæði einstakt og fagurt að geta samið lög um líf mitt og tilveru. Það er fullt af nýrri tónlist frá mér á leiðinni og mér þykir rosalega vænt um að fólk gefi sér tíma til að hlusta á hana,“ segir Trausti.

Hann býr nú á Siglufirði til að vera nær kærustunni sinni.

„Mig dreymir um að geta einbeitt mér 100 prósent að tónlistinni og að flytja til Reykjavíkur með kærustunni. Annars þykir mér mjög þægilegt að vera einn með sjálfum mér í kyrrðinni á Sigló og heima á Grenivík. Maður fær þar mjög gott næði til að semja þar tónlist og texta,“ segir Trausti sem frumsýnir nýjasta tónlistarmyndbandið sitt á Prikinu annað kvöld, föstudaginn 7. febrúar, frá klukkan 19 til 20.

„Ég vona að sem flestir mæti og hafi gaman af og hver veit nema ég taki lagið,“ segir Trausti fullur tilhlökkunar.