Heba ólst upp á Eskifirði fram að tíu ára aldri og flutti þá til Reykjavíkur. „Ég byrjaði að vinna í tískubransanum heima þegar ég var 17 ára. Ég sannfærði mömmu mína um að það væri góð hugmynd að leyfa mér að taka smá pásu frá skóla.“

Hún var harðákveðin í sínu. „Ég sat um Odd sem átti Kókó og Kjallarann og beið á hverjum degi fyrir utan skrifstofuna hans þangað til hann lét mig hafa vinnu.“

Heba ásamt samstarfsfólki í tökum við sjávarsíðuna. MYND/AÐSEND

Útbjó búð í skáp mömmu

Tískuáhuginn kviknaði snemma. „Ég var alveg viss um hvað ég vildi gera og hvert ég vildi fara, enda búin að vera í búðarleik heima hjá mér síðan ég var lítil stelpa og útbjó litla búð inni í skáp hjá mömmu. Svo var ég alltaf að stelast í hælaskóna hennar ömmu og töskurnar hennar og dressa mig upp.“

Hún segir móður sína hafa haft mikil áhrif hvað áhugann snertir. „Þessu er plantað í mig frá mömmu, hún var alltaf voða dugleg að sauma á okkur alls konar föt og pantaði líka oft föt í gegnum símann frá fatabúð sem hét Krakkar og var í Reykjavík þannig að við fengum reglulega send box frá Reykjavík með ýmsum skemmtilegum flíkum.“

Hönnunarhæfileikarnir komu þá snemma í ljós. „Ég hafði mjög sterkar skoðanir á því sem ég klæddist sem barn. Ég man til dæmis eftir því þegar ég var á leiðinni í skólann, um leið og ég var komin handan við hornið var ég farin að breyta húfunni minni og öllu því sem mamma hafði klætt mig í til að setja minn eigin stimpil á það.“

Heba í tökum ásamt frænku sinni, myndlistarkonunni og búningahönnuðinum Sylvíu Lovetank. MYND/AÐSEND

Úr Kjallaranum til Lundúna

„Ég flutti svo út, eftir að hafa unnið lengi í Kjallaranum, Kókó og 17. Ég kom fyrst til London 2003 og var þar í sjö ár að vinna í tískubransanum, kom svo heim aftur í tvö ár og ákvað svo 2013 að opna Absence of Colour og flutti þá aftur 2014 til London til að koma því á laggirnar.“

Hvíti Addie skyrtukjóllinn er guðdómlegur. MYND/AÐSEND
Titi-joggingbuxurnar frá AOC eru í senn flottar og þægilegar. MYND/AÐSEND

Boltinn fór fljótt að rúlla. „Ég byrjaði að selja á netinu á Asos Marketplace og í Laden Showroom í austurhluta London sem var svona showroom fyrir lítil sjálfstæð merki. Topshop spottaði mig á Asos Marketplace og ég fór á fund með þeim í maí 2014 og byrjaði að selja þeim í ágúst sama ár. Þetta vatt eiginlega allt upp á sig út frá því.

Joe-Jumper frá AOC. MYND/AÐSEND

Við erum núna með okkar eigin verslanir, opnuðum fyrstu búðina árið 2015 á Brick Lane í Austur-London og svo búð númer tvö árið 2016 í Shoreditch. Síðan opnuðum við búð í New York árið 2019 og erum líka að selja í ýmsum verslunum eins og Topshop og Topshop online. Svo erum við í 20 verslunum í Mið-Austurlöndum og ýmsum minni sjálfstæðari verslunum hér og þar í Evrópu. Vorum einnig að „launcha“ líka á netinu hjá Nordstrom.com sem er í Ameríku.“

Leiðir Hebu og Shroff lágu saman á Indlandi. MYND/AÐSEND

Fann ástina á Indlandi

Þegar Heba var að undirbúa AOC gripu örlögin í taumana. „Ég fór fyrst til Indlands að leita mér að framleiðendum, var þar í næstum ár þar og kynntist þá manninum mínum sem er í merkinu með mér í dag. Hann var líka að vinna við framleiðslu og í bransanum og var þá á leiðinni að flytja til London og fara í mastersnám í tískustjórnun. Þannig að við vinnum saman við brandið í dag og hann sér um alla framleiðslu og allt sem því við kemur og ég er listrænn stjórnandi.“

Heba er listrænn stjórnandi merkisins og Shroff sér um allt sem viðkemur framleiðslu. MYND/AÐSEND

Hvar færðu innblástur?

„Aðallega úr umhverfinu og bara öllu í kringum mig. Svo er auðvitað allt svo mínímalískt heima og klæðast eiginlega allir svörtu heima. Ég er nánast alltaf í svörtu sjálf. Þetta er náttúrulega alveg voða íslenskt finnst mér, svart og hvítt. Og bara klassískt. Það er svolítið ethos-ið á bak við brandið, tímalaust. Það er held ég ekkert jafn tímalaust og svart og hvítt.“

Molly-Puffa úlpan er fullkomin fyrir íslenskt veðurfar en Heba segir svarta litinn auk þess mjög einkennandi fyrir Íslendinga. MYND/AÐSEND

Hvernig er að vinna í tískubransanum í London miðað við á Íslandi?

„Það er eiginlega ekki hægt að líkja því saman. Það eru auðvitað miklu meiri möguleikar og sýnileiki fyrir brandið að vera hér miðað við heima. Fyrir utan að það er rosalega lítið gert fyrir þennan bransa heima. Maður getur ekki einu sinni sent sýnishorn heim án þess að þurfa að borga fúlgu eða það sé annaðhvort klippt í það gat eða sett hola í skó. Það er eiginlega bara sorglegt hvað það er lítið stutt við bransann heima finnst mér því það eru miklir talentar, mikil gróska og mikið að gerast. Alla vega miðað við Skandinavíu og annars staðar í heiminum og þetta er náttúrulega risavaxinn iðnaður.“

Heba segir margt betur mætti fara á Íslandi hvað stuðning við tískugeirann snertir.

Áttu þér uppáhaldshönnuð?

„Alexander McQueen hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi. Og Coco Chanel. Nafnið á merkinu kemur einmitt úr „quote“-i frá henni:

Women think of all colors except the absence of color. I have said that black has it all. White too. Their beauty is absolute. It is the perfect harmony."

Heiti merkisins kemur frá sjálfri Coco Chanel. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Þekkir ferlið frá a til ö

Heba ráðleggur þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í bransanum að kynnast ferlinu frá upphafi til enda. „Það sem ég gerði áður en ég byrjaði með mitt eigið brand er að ég vann við allt sem við kom því að reka verslun. Ég byrjaði á gólfinu að selja, vann mig síðan upp í að verða verslunarstjóri og svo fór ég í innkaup. Síðan þegar ég flutti til London vann ég í heildsölu og á Indlandi kynntist ég öllu í kringum framleiðsluna. Þetta hefur reynst mér rosalega vel og hjálpað mikið, ég hef í raun þekkingu á öllum sviðum.“

AOC hóf nýverið framleiðslu á herrafötum.

Hún segir nýjustu línuna frá AOC vera svipaða því sem þau hafa verið að gera í gegnum árin en þau hafa einnig verið að færa út kvíarnar. „Við erum búin að vera að gera nýja línu núna sem heitir DNN by AOC og er lítil denim-lína. Svo vorum við líka að byrja að selja fyrir herra, það er það nýjasta hjá okkur.“

Karlmannsjakkarnir frá AOC eru trylltir.

Ísland er aðeins of lítið

Heba segir faraldurinn hafa haft mikil áhrif á reksturinn. „Þetta eru búnir að vera skrítnir tímar og erfitt, sérstaklega út af verslunum okkar. Við höfum lagt svo sterka áherslu á „brick and mortar“, það er að segja sjálfar búðirnar okkar, síðustu ár og gengið rosalega vel með þær. Þannig að það er búið að vera mjög krefjandi og mestmegnis búið að vera lokað hjá okkur í ár. Erfiðast hefur samt verið að geta ekki hitt sína nánustu, vini og vandamenn, og kúnnana okkar og allt það.“

Þegar einar dyr lokist þá opnist aðrar. „Við erum búin að reyna að sigla á önnur mið, byggja upp netsöluna og annað. Svo erum við heppin með það að ekki allir markaðirnir sem við erum að selja á hafa verið undir jafn miklum höftum eins og hérna. Ég get samt ekki beðið eftir að þetta sé búið. Þetta er alveg að verða komið gott núna.“

Deena T-shirt kjóllinn frá AOC er geggjaður og hægt að nota á marga vegu.

Hún lítur björtum augum til framtíðar. „Ég held að tímarnir séu að breytast og heimurinn hafi kannski þurft að hægja aðeins á sér. Fyrir tveimur árum var mikill hraði á öllu, maður lifði bara í ferðatösku og var alltaf á ferð og flugi út af vinnu, framleiðslu og öðru. Þú þurftir einfaldlega að finna aðrar leiðir og núna sér maður að það er hægt að vinna öðruvísi og aðlagar sig bara breyttum aðstæðum.“

Svartur klikkar ekki.

Þegar Heba er spurð hvort hún hafi í hyggju að flytja heim segir hún það ólíklegt. „Aldrei að segja aldrei en það er ekki á planinu eins og er. Ég reyni að vera dugleg að koma heim en mér finnst Ísland eiginlega aðeins of lítið fyrir mig.“

Á Íslandi er hægt að kaupa fötin frá AOC í Apríl Skór.

http://www.aocfashion.com