Vera Gemma er aðalleikkona og viðfangsefni opnunarmyndar RIFF í ár, verðlaunamyndar sem ber titilinn Vera. Handrit og leikstjórn er í höndum hinnar ítölsku Tizzu Covi, og meðleikstjóri hennar er austurríski tökumaðurinn Rainer Frimmel. Vera fylgir eftir skáldaðri eftirlíkingu af persónu ítölsku leikkonunnar Veru, sem er dóttir ítalska leikarans Giuliano Gemma.

Leikstjórarnir og Vera sitja saman í fallegu herbergi á Exeter hótelinu. Þau skera sig frá öðrum ferðamönnum hótelsins sem eru oftar en ekki kappklæddir í skærlitan útivistarfatnað með bakpoka. Þríeykið lenti á landinu kvöldið fyrir viðtalið og lætur vel af heimsókn í Sky Lagoon á Kársnesinu.

Þotuliðsbragur að morgni

Klukkan er ekki orðin tíu að morgni en Vera er glæsileg með sítt, ljóst hár, kúrekahatt á höfðinu í hvítum pels. Tizza er rauðhærð með rauðan varalit, klædd svartri kasmírpeysu í íslenska veðrinu. Ítalskur klassi alla leið. Hinn austurríski Rainer er í svörtum jakkafötum. Það er þotu­liðsbragur yfir þeim og þetta er fólk sem kann að klæða sig.

„Yfirleitt þegar við Rainer vinnum saman skrifum við handritið fyrir leikarann. Í gegnum ævina hefur maður hitt fjöldann allan af áhugaverðu fólki. Af þeim kannski einn eða tvo sem eru brjálæðislega áhugaverðir,“ segir Tizza um aðdraganda verksins. Hún segir þau Rainer hafa heillast af því hvernig Vera sneri fordómum þeirra á hvolf. „Við dæmdum hana við fyrstu kynni og út frá útlitinu. En að kynnast henni opnaði nýjan heim. Ég hitti hana oft í Róm og tók fjölda viðtala. Mér fannst hún svo heillandi karakter. Tveimur árum síðar ákvað ég að skrifa handrit,“ segir Tizza.

Myndin er skáldskapur

Það er skrýtið að sjá Tizzu sitja við hlið Veru og tala umbúðalaust um fordómana með þessum hætti, og fjalla um Veru í þriðju persónu. Eins og hún sé ekki raunveruleg manneskja heldur frekar einhver – vera. „Ég tók mikið úr þessum viðtölum, hvernig ég upplifði hana, þegar ég skapaði þessa persónu sem er auðvitað orðin skálduð persóna núna. Þetta er ekki heimildarmynd, þetta er skáldskapur. En á sama tíma er mjög mikið af Veru þarna.“

Fréttablaðið/Valli

Vera segir Tizzu hafa spurt sig fjölda spurninga. „Ég velti fyrir mér hvers vegna hún vildi vita svona margt um mig, en ég vissi af þessari pælingu varðandi kvikmynd. Ég reyndi að vera eins sönn og ég gat í svörunum. Vildi ekki þykjast vera betri eða öðruvísi,“ segir Vera. Hún talar með þykkum ítölskum hreim og þegar hún talar hlustar fólk. Á Instagram-síðu Veru Gemma eru myndir af henni með ekki ófrægara fólki en stórleikkonunni Kate Blanchett, Coolio og Quentin Tarantino á bransaviðburðum innan um uppstilltar tímaritaljósmyndir.

Ranghugmyndir um greind

„Þetta er martröð ævi minnar,“ svarar Vera, þegar undirrituð spyr hana út í fordómana. „Fólk segir stöðugt við mig: Þegar við hittumst hélt ég að þú værir svona en þú ert síðan allt öðruvísi. Og þá hugsa ég: Hvernig svona, og hvernig er ég öðruvísi? Hélstu að ég væri slæm manneskja?“

Vera segir að ríkjandi ranghugmynd sé í ítölsku samfélagi, á þá leið að kvenlegar konur geti ekki verið gáfaðar. Að gáfaðar manneskjur máli sig alltaf í ljósi sorgar og alvarleika. „Ef þú ert ljóshærð þá ertu yfirborðskennd. Það segir: Hún er dóttir svona svakalega frægs leikara, þá hlýtur hún að hafa fengið allt upp í hendurnar og átt ofsalega auðvelt líf. Hún hefur enga hæfileika,“ segir Vera. „Þetta er búið að vera ógeðslega erfitt. Ég hef alltaf barist gegn þessari hugmynd en ég hef ekki fengið mörg tækifæri fram að þessu til að sýna mitt sanna sjálf.“

Vera segir leiklistina alltaf hafa heillað. „Ég hef þráð að vera leikkona síðan ég fæddist. Ég sá pabba minn í sinni vinnu og fann strax að þetta var það sem ég vildi gera,“ segir hún. „Ég vildi finna mína eigin leið til að sinna leiklistinni. Ég fann strax að ég var öðruvísi og ég hóf strax að leika í leikhúsi. Viðtökurnar voru góðar en ég var samt alltaf á jaðrinum. Að leika fyrir 100 manns. Ég fékk frábæra gagnrýni en mér tókst illa að ná til fjöldans,“ útskýrir hún. „En þetta er áminning um að fylgja draumunum sínum.“

Vera er draumaverkefni

Vera lýsir kvikmyndinni Veru sem draumaverkefni. „Þar sem hið góða og illa er skoðað, og fegurðarhugtakið. Ég ólst upp við tegund af kvikmyndagerð þar sem hið góða og hið illa skiptust í tvær mjög afgerandi fylkingar. Faðir minn var alltaf þessi góði. Ég fór að skilja það að enginn er góður og enginn er alslæmur í þessu lífi. Og það er efni myndarinnar. Enginn er góður eða illur. Þetta er banalt. En sannleikurinn liggur oft í því sem er banalt.“

Hvað varðar stöðuna í dag segir Rainer að hugsanlega sé staðan að breytast með nýrri kynslóð kvikmyndagerðarfólks. „Kvenpersónur eru unnar á meira dýpi. Ég held að unga kynslóðin breyti þessu.

Vera hlær við. „Þetta var alltaf vandamál í mínu lífi að ég var aldrei nógu falleg til að vera aðalleikkonan og ekki nógu ljót til að leika illmennið,“ segir hún. „Ég var þarna í miðjunni og í ítalskri kvikmyndagerð eru engar persónur skrifaðar inn á það svæði.“

Ítalski neó-realisminn

En er mynd um þessi málefni, fegurðina og stöðu kvenna, sprengja inn í umræðuna á Ítalíu eða er hún framhald af eldra samtali? „Við erum undir sterkum áhrifum frá ítölskum neó-realisma,“ segir Tizza. „Við sjáum kvikmyndagerð ekki sem gróðatækifæri heldur sem listform. Það skiptir mestu máli að segja söguna.“

Hún segir að framleiðslan hafi verið afskaplega smá. „Þetta var bara ég og Rainer, sem sér um kvikmyndatökuna, við erum svo með aðstoðarmann. Allt settið er bara þrjár manneskjur.“ Tizza segir að í smæðinni felist listrænt frelsi og aðstaða til að gera stórar breytingar með engum fyrirvara.

Varðandi mikilvægi þess að myndin sjálf sé falleg, þegar hún fjallar um fegurð, svarar Rainer að fegurðin sé afstæð. „Allir hafa mismunandi skoðanir á fegurð. Okkar hugmynd um fegurðina er rosalega hrá. Fegurðin er ekki tilbúningur heldur hluti af veruleikanum. En fegurðin er svo afstæð að það er ekkert raunverulegt svar við þessu,“ svarar hann.

Tizza grípur orðið. „En það er nú samt svar við þessu! Það var listræn ákvörðun hjá okkur að skjóta á 16 millimetra filmu og þetta finnst okkur gefa efninu sanna áferð. Við erum miklir aðdáendur filmunnar, áferðarinnar sem er tímalaus og ófullkomin. Við erum ekki að leita að fullkomnun, ekki í myndinni og ekki í aðalpersónunni. Ekkert er leiðinlegra í þessu lífi en fullkomnunin.“