Brúin yfir Tanga­götuna er ný skáld­saga eftir Ei­rík Örn Norð­dahl. „Hún gerist fyrir vestan, á Ísa­firði, í húsinu mínu,“ segir Ei­ríkur. „Þegar ég byrjaði að skrifa hana sat ég við eld­hús­borðið mitt og borðaði morgun­mat og hún hefst þannig að þarna er maður sem situr við eld­hús­borðið mitt og borðar hafra­graut. Svo skilja leiðir. Hann býr einn, er eirðar­laus í vinnslu­stoppi í rækjunni og smám saman kemur í ljós að þetta er per­sóna sem ég hef skrifað um í annarri bók, Eitur fyrir byrj­endur. Tanga­gatan, þar sem ég bý, er mjög lítil og þröng gata, og var öll grafin upp fyrir nokkrum árum. Þá var lögð brú frá úti­dyrunum mínum að úti­dyrunum hjá Begga ná­granna mínum. Í sögunni er lögð brú frá húsi Hall­dórs að húsi Gyðu sem hann fær skyndi­lega á heilann. Gatan er mjög þröng, það eru ekki nema níu og hálft skref á milli þeirra, og ein­hvern veginn færast þau nær hvort öðru við til­komu brúarinnar.“

Brúin yfir Tanga­götu er ástar­saga. Þegar Ei­ríkur er spurður hvort hann sé rómantískur svarar hann: „Ég tók því ein­hvern tímann mjög illa að vera kallaður rómantískur en ég held að ég sé það, jafn­vel mjög yfir­drifið á köflum. Ég veit ekki hvers vegna mér fannst það eitt­hvað ó­merki­legt – kannski bara af því ég var ungur og vit­laus. Það er ekkert í heiminum göfugra en hin verk­lega ást, að gera eitt­hvað fal­legt fyrir ein­hvern annan af engri á­stæðu annarri en þeirri að manni þykir vænt um við­komandi. Og þótt þráin sé flóknari og verði stundum að hreinni frekju er hún líka grunn­þáttur í hamingjunni – án hennar væri lífið bara við­stöðu­laus ein­semd. Maður ætti aldrei að skammast sín fyrir að þrá.“

Staður núsins


Sögu­svið bókarinnar er Ísa­fjörður sam­tímans og þar hefur Ei­ríkur búið lengi, þó með hléum. „Það er mikill Ísa­fjörður í bókinni og Hall­dór, sem segir söguna, býr í ver­öld sem er mér mjög kunnug­leg. Ég hef áður skrifað um Ísa­fjörð, bæði í fram­tíð og for­tíð. Fram­tíðin var í Heimsku og áttundi ára­tugurinn í Illsku. Fyrir mér er Ísa­fjörður samt fyrst og fremst staður núsins, enda hef ég búið þar stóran hluta af ævinni. Ég er ekki einn af þessum ætt­fróðu og sögu­fróðu mönnum þannig að ég get ekki málað breiða sögu­lega mynd af bænum, en mér fannst mjög gaman að hafa hann þarna sem sögu­svið. Hér er minn hvers­dagur.“

Í sam­bandi við allan heiminn


Spurður hvernig það sé fyrir hann sem rit­höfund að búa á Ísa­firði segir hann: „Ég flutti fyrst frá Ísa­firði árið 1999, þá flutti maður í al­vöru frá stöðum og tók þá ekki með sér. Núna er það orðið þannig að þótt ég búi á Ísa­firði þá er ég samt í ó­hemju miklum tengslum við bók­mennta­lífið, ekki bara í Reykja­vík heldur líka annars staðar. Ég skrifast nær dag­lega á við Steinar Braga sem býr í Kaup­manna­höfn og Hauk Má í Ber­lín. Ég á rit­höfunda­vini bæði ís­lenska og er­lenda úti um allt og er í góðum tengslum við þá. Ég les mikið af nýjum bókum og legg mikið upp úr því að fylgjast með yngri ljóð­skáldum. Einn kosturinn við að búa í smá­bæ er að maður eyðir litlum tíma í að fara frá stað A til B og hefur fyrir vikið meiri tíma til að lesa. Og í dag getur maður verið í sam­bandi við allan heiminn og fengið til sín allar þær bækur sem maður vill, búinn að lesa um þær gagn­rýni frá fimm heims­blöðum og tuttugu bloggurum. Sú ein­angrun sem ef til vill ein­kenndi jaðar­byggðir á 20. öldinni er liðin undir lok.“