Sigurður Sólmundarson, betur þekktur sem Costco-gaurinn, gagnrýnir þá harðlega sem hafa gert lítið úr storminum sem gekk á land í gær. Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu- félags fanga er einn af fjölmörgum sem fannst of mikið gert úr óveðrinu á höfuðborgarsvæðinu og spurði hvort Íslendingar væru að ala upp aumingja. Þegar hann var ungur hefðu krakkar farið út að leika sér í sambærilegu veðri. Sigurður, sem búsettur er á Selfossi, segir það fara í taugarnar á sér að verða vitni að slíku tali.

„Þetta var hundleiðinlegt á Selfossi. Hér fuku gámar og hestakerrur,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið. Hann tjáði sig fyrst á samfélagsmiðlum þar sem hann lét hafa eftir sér:

„Það fer ekkert meira í taugarnar á mér en þegar einhverjar „hetjur“ eru stöðugt að tala niður svona veður eins og nú er og verður bara verra. Á meðan svona forheimsku karlagrobb á sér stað er björgunarsveitafólk út um allt land að leggja sig í hættu við að aðstoða fólk og bjarga eigum þeirra. Minnkið aðeins að opinbera fávisku ykkar opinberlega. Þeir taka þetta væntanlega ekki til sín sem eiga það vegna forheimsku.“

Í samtali við Fréttablaðið hrósar Sigurður öllum þeim fjölmörgu björgunarsveitarmönnum sem lögðu lífi og limi í hættu til að bjarga fólki í neyð. Þá segir Sigurður:

„Mér finnst bara verið að gera lítið úr þeim viðbragðsaðilum sem eru að bjarga verðmætum og mannslífum í sjálfboðavinnu um land allt.“