Rauði krossinn býður upp á ókeypis vefnámskeið í skyndihjálp, sem er frábær inngangur til að læra skyndihjálp og getur þjónað sem góð upprifjun fyrir þá sem hafa lært hana. Námskeiðið er fyrir unglinga og fullorðna og hentar sérlega vel fyrir þá sem hafa ekki tíma til að mæta á löng skyndihjálparnámskeið.

Sparar tíma

„Stystu skyndihjálparnámskeiðin sem við bjóðum upp á eru fjórir tímar, en þetta er valkostur sem við ákváðum að bjóða upp á til að upptekið fólk þurfi ekki að koma og sitja á skyndihjálparnámskeiði í svo langan tíma,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins. „Það tekur um tvo til þrjá tíma að klára prófið, en það er ekki nauðsynlegt að klára allt prófið í einu, það þarf bara að klára það á innan við tveimur vikum frá skráningu á námskeiðið.

Þetta er sérstaklega hentugt fyrir fyrirtæki sem vilja senda starfsfólk sitt á skyndihjálparnámskeið en vilja ekki missa starfsfólk í hálfan dag vegna námskeiðsins,“ segir Brynhildur. „Fólk getur tekið þetta námskeið á vefnum á sínum tíma, þegar því hentar og fólk getur tekið það eins oft og það vill.

Þegar vefnámskeiðinu er lokið getur fólk svo komið á tveggja tíma verklegt námskeið þar sem það lærir endurlífgun og annað sem vantar upp á,“ segir Brynhildur. „Þetta kemur í staðinn fyrir fjögurra tíma grunnnámskeiðið okkar, þannig að þetta styttir tímann sem fólk þarf að sitja á námskeiði.“

Allir ættu að taka námskeiðið

„Það er ótrúlega mikilvægt að sem flestir kunni skyndihjálp og þess vegna er námskeiðið ókeypis, svo að sem flestir hafi þetta á hreinu,“ segir Brynhildur. „Verklegu námskeiðin kosta hins vegar, enda sjá menntaðir leiðbeinendur um kennsluna þar. Við bjóðum upp á fullt af ólíkum skyndihjálparnámskeiðum, fjögurra tíma grunnnámskeið, tólf tíma námskeið þar sem er farið dýpra í allt, sérstök endurlífgunarnámskeið og fleira.

Námskeiðið hentar ekki börnum, þó að allir megi prófa, en við bjóðum einnig upp á sérstakt námskeið fyrir börn þar sem fjallað er um umönnun yngri systkina og þar er farið í smá skyndihjálp,“ segir Brynhildur.

„Þar sem námskeiðið er ókeypis og allir ættu að kunna skyndihjálp ættu allir aðrir að taka þetta vefnámskeið til að vera betur í stakk búnir fyrir neyðartilvik,“ segir Brynhildur. „Það getur líka hentað sumum betur en að koma á grunnnámskeiðið, því þarna er hægt að fara á sínum hraða í gegnum efnið.“

Undirbýr fólk vel

„Námskeiðið gerir fólk mun betur undirbúið fyrir neyðartilvik, sérstaklega þegar verklega þættinum er lokið,“ segir Brynhildur. „Það hefur sýnt sig að það að hafa lært skyndihjálp og rifja hana reglulega upp er nauðsynlegt, þó að maður voni auðvitað að enginn þurfi á því að halda.

Þegar neyðartilvik kemur upp frýs fólk oft því það veit ekki hvernig það á að bregðast við, en þeir sem hafa farið á skyndihjálparnámskeið hafa það hugarfar að þeir þurfi að bregðast við og vita hvað á að gera. Þetta fólk endar því oft með því að taka stjórn á aðstæðum og segja öðrum til,“ segir Brynhildur. „Blessunarlega þurfa langfæstir að nota þessar aðferðir en það er mikilvægt að vita hvað á að gera þegar á reynir. Ég held að þetta námskeið undirbúi fólk vel fyrir það.“


Námskeiðið er að finna á vefslóðinni namskeid.raudikrossinn.is.