Rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við Heilbrigðissvið Háskóla Íslands, og rannsóknarhóps hans benda til þess að töluvert hafi dregið úr einelti meðal íslenskra grunnskólanema á undanförnum árum og að Ísland sé meðal þeirra Evrópulanda þar sem einelti er hvað minnst. „Ástæða þess að ég hef ásamt samstarfsfólki mínu beint athygli að einelti meðal barna og ungmenna eru hin miklu og langvinnu áhrif sem einelti getur haft á líðan og lífshlaup einstaklinga. Áföll og erfiðleikar sem einstaklingar verða fyrir á ungum aldri hafa að jafnaði víðtækari afleiðingar en sams konar mótlæti síðar á ævinni. Okkar von er að niðurstöður rannsóknanna muni auka skilning á útbreiðslu og ástæðum eineltis og styrkja um leið forvarnarstarf hér á landi.“

Auk Rúnars skipa rannsóknarhópinn um einelti þau Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði, og sænsku háskólakennararnir Pernilla Garmy prófessor og Erika Hansson dósent.

Einelti tengt valdaójafnvægi

Rúnar segir mikinn fjölda erlendra rannsókna hafa kannað umfang og mögulegar afleiðingar eineltis meðal skólabarna. „Einnig hafa verið gerðar athuganir á einelti í grunnskólum hér á landi. Ég og samstarfsfólk mitt vildum kanna þessi mál nánar með nýjum gögnum hérlendis, byggðum á landsúrtaki grunnskólanema í 6., 8. og 10. bekk.“

Hópurinn kannaði útbreiðslu eineltis í einstökum hópum grunnskólanema og einnig ýmis neikvæð tengsl eineltisins við líðan, heilsu og lyfjanotkun nemendanna. „Með einelti er átt við endurtekna ágenga hegðun sem beint er gegn einstaklingi og er ætlað að niðurlægja hann, ögra honum og ógna, eða skaða á annan hátt. Einelti tengist yfirleitt valdaójafnvægi þar sem gerandi tekur einhvern fyrir sem er minni máttar, og er gerandinn þá ýmist einn að verki eða í hópi gerenda. Ósjaldan fylgja einnig með vitni og óbeinir þátttakendur sem ýmist kynda undir eineltinu eða ljá því þegjandi samþykki.“

„Í þessu efni ættum við að segja að hver nemandi sem verður fyrir einelti sé einum nemanda of mikið,“ segir Rúnar Vilhjálmsson prófessor. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Staða grunnskólanna flókin

Hann segir að á hverjum tíma megi áætla að milli 5 og 6 prósent íslenskra nemenda í efri bekkjum grunnskóla verði fyrir einelti. „En þetta eru þó ekki tölur sem við sættum okkur við. Ef miðað er við tölurnar gætu 1.200 til 1.400 nemendur í 6. til 10. bekk sætt einelti á hverjum tíma. Í þessu efni ættum við að segja að hver nemandi sem verður fyrir einelti sé einum nemanda of mikið.“

Staða grunnskólanna, þegar kemur að einelti og úrlausnum, sé þó nokkuð flókin. „Grunnskólarnir eru í mótsagnarkenndri stöðu. Þeir eiga að vera miðstöð fræðslu og mótunar einstaklinga til sjálfstæðis og virkrar þátttöku í þessu samfélagi, en eru um leið helsti vettvangur þess eineltis sem fram fer í hópi barna og ungmenna í samfélaginu, eineltis sem brýtur einstaklinga niður og skerðir lífsgæði þeirra og samfélagsþátttöku.“

Afleiðingar eineltis margvíslegar

Rúnar segir athuganir hópsins sýna að piltar og stúlkur verði álíka oft þolendur eineltis. „Hins vegar verða yngri nemendurnir oftar fyrir einelti en elstu nemendurnir. Einnig kemur í ljós að nemendur í fjölskyldum með lakari efnahagslega stöðu verða frekar fyrir einelti en aðrir, og sömu sögu er að segja um nemendur sem búa með einstæðu foreldri eða stjúpforeldri samanborið við nemendur sem búa með báðum kynforeldrum. Loks verða nemendur af erlendum uppruna frekar fyrir einelti en nemendur af innlendum uppruna.“

Rannsóknarhópurinn hefur einnig kannað tengsl eineltisins við mögulegar afleiðingar og segir Rúnar þau vera margvísleg. „Þolendur eineltis greina oftar en aðrir frá þunglyndiseinkennum, fá oftar svimaköst, finna oftar til líkamlegra verkja, leita oftar til heilbrigðisþjónustunnar vegna áverka, eiga oftar í erfiðleikum með svefn á nóttunni og meta heilsu sína og lífsánægju mun lakar en aðrir. Athygli vekur einnig mikil verkjalyfjanotkun þeirra.“

Þolendur eineltis greina oftar en aðrir frá þunglyndiseinkennum og meta heilsu sína og lífsánægju mun lakar en aðrir. Athygli vekur einnig mikil verkjalyfjanotkun þeirra. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Góður árangur undanfarin ár

Í forvarnar- og meðferðarstarfi gegn einelti og afleiðingum þess hafa Íslendingar náð verulegum árangri á undanförnum árum að sögn Rúnars. Nefnir hann þar meðal annars að íslenskir grunnskólar hafa sett sér eineltisáætlanir sem ætlað er að fræða um einelti, stuðla að hlýju og alúð í samfélagi grunnskólans, setja ramma gegn ólíðandi hegðun, beita viðurlögum við brotum á hegðun og sýna myndugleik þar sem hinir fullorðnu eru góðar fyrirmyndir. „Þetta er í samræmi við 7. grein reglugerðar mennta- og menningarmálaráðuneytisins nr. 1040 frá 2011, en þar segir að skólar skuli setja sér „aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum.“

Mikilvægt lýðheilsuverkefni

Áætlanir eru þó aldrei nóg, segir Rúnar. Þeim þarf að fylgja eftir með fræðslu, eftirliti, stuðningi og snemmbærum inngripum í samstarfi nemenda, kennara, foreldra og skólahjúkrunarfræðinga. „Hér hafa félagasamtök og fagfólk á þessu sviði utan skólanna reynst þeim vel og hafa hvatt þá og aðstoðað í eineltismálum. En betur má ef duga skal. Fylgja þarf eftir fræðslu til nemenda og foreldra og efla hana enn frekar. Greina þarf sem fyrst merki um einelti og afleiðingar þess í skólunum. Einnig merki um einelti með rætur utan skólanna, þar á meðal neteinelti sem greinist oft síðar og er oft erfiðara viðfangs en einelti í raunheimum. Í þessum málum veltur mikið á góðu samstarfi kennara, nemenda, foreldra og heilsugæslu. Hafa verður í huga að vinna gegn einelti og afleiðingum þess meðal barna og ungmenna er eitt mikilvægasta lýðheilsuverkefni hvers samfélags.“

Samstarfshópur Rúnars hefur þegar birt niðurstöður rannsókna á einelti í erlendum vísindaritum og á fræðaþingum, en hópurinn heldur áfram að rannsaka þetta viðfangsefni.