Carmen Mihaela Pal fæddist í Búkarest, höfuðborg Rúmeníu, og ólst þar upp í valdatíð einræðisherrans alræmda, Nicolae Ceausescu. Hún gekk í grunnskóla og framhaldsskóla í borginni og að loknu hefðbundnu námi fór hún í iðnskóla til að nema rakara- og hárgreiðsluiðn. Hún útskrifaðist 1998 og hóf störf á hárgreiðslustofum í miðborg Búkarest og gat sér gott orð og varð mjög eftirsótt. Eftir einungis nokkur ár í vinnu var hún komin til starfa á vinsælustu hárgreiðslustofunni í Búkarest.

Carmen segir mikið hafa breyst í faginu frá því að hún útskrifaðist úr náminu fyrir tæpum aldarfjórðungi.

„Þá voru til dæmis engar tölvur og allt sem við þurftum að gera í náminu, teikningar og fleira, varð að gera í höndunum. Þetta er mikið breytt í dag.“

Hún segir Rúmeníu undir oki kommúnismans hafa verið skelfilegt samfélag. Mikil kúgun og ófrelsi. Ekki hafi þó allt verið slæmt. Allir hafi haft vinnu. Hins vegar hafi verið mikill vöruskortur.

„Matur var skammtaður og kjöt var alger munaðarvara. Ég man eftir því þegar foreldrar mínir þurftu að vakna klukkan fjögur á morgnana til að bíða í röð fyrir utan búð sem var opnuð klukkan átta til að kaupa kjöt. Þar biðu þau upp á von og óvon því enginn vissi hve mikið kjöt kæmi í búðina. Stundum var allt búið þegar röðin kom að þeim. Þá þurfti að gera þetta allt upp á nýtt næsta dag eða í næstu viku. Svona var þetta vetur og sumar og biðin í röðinni gat oft verið hrollköld og dimm.“

Carmen segist hafa verið mjög ánægð í starfi eftir að hún útskrifaðist. Mikið hafði breyst í Rúmeníu á þeim tæpa áratug sem liðinn var frá falli Ceausescus. Fyrsta starf hennar var á hárgreiðslustofu þar sem fyrir voru fimm meistarar í faginu, allir með minnst 20 ára starfsreynslu.

„Ég var nú taugaóstyrk þegar ég byrjaði, hrædd um að reynsluleysið yrði áberandi. En mér var svo vel tekið og allir tilbúnir að miðla af sinni reynslu að mér fannst ég læra eiginlega jafn mikið fyrsta árið eftir nám og í náminu sjálfu.“

En hvernig atvikaðist það að hún kom til Íslands?

„Árið 2005 komu í heimsókn til mín rúmensk hjón, vinafólk mitt, sem höfðu búið á Íslandi í átta ár. Þau fóru að lýsa fyrir mér lífi sínu hérna og ég fór að reyna að ímynda mér hvernig það væri að búa á þessum litla bletti á landakortinu, svona langt í norðri og úti í miðju Atlantshafinu. Mér fannst þetta bara dálítið spennandi, líka þessi menning sem er svo ólík menningunni í Rúmeníu. Ég var búin að prófa allt í Rúmeníu, komin á bestu stofuna í bænum með frábæran kúnnahóp, en ég þráði dálítið nýjar áskoranir.“

Carmen ólst upp í einræðisríki og unir hag sínum vel sem Íslendingur.

Carmen segist ekki hafa verið að sækjast eftir því að fara endilega frá Rúmeníu.

„En mig langaði að sjá Ísland og fór í tveggja mánaða frí hingað þetta sama ár. Hérna kynntist ég Ingibjörgu og Ragnari sem voru með hárgreiðslustofuna Pílus í Mosfellsbæ. Þau voru að leita að fólki. Ég man að þetta var í ágúst. Allt sumarið hafði verið 40 stiga hiti í Búkarest og brjálað að gera. Hér var hitinn kannski 18 gráður þegar það kom sól, svalt og gott. Mér leist vel á þetta, leist vel á þau og þau voru ánægð með mig. Hún gerði svo vel við mig, fór með mig í Bláa Lónið og á Þingvelli, og ég varð alveg heilluð af landinu.

Úr varð að ég ákvað að taka mér ársfrí í Rúmeníu til að koma hingað til að vinna. Ég fór aftur til Rúmeníu vegna þess að ég þurfti að ganga frá mínum málum. Eigandi stofunnar sem ég var á í Búkarest skildi ekki neitt í mér, sagðist geta útvegað mér starf á Ítalíu og spurði hvað í ósköpunum ég væri að vilja til Íslands. Landið væri allt of langt í burtu og svo skildi ég ekki tungumálið. Ég sagði henni að ég væri alls ekki að þessu til að fara heldur fyndist mér Ísland áhugavert og flott land, menningin heillandi. Svo sagði ég henni að ég kæmi aftur eftir eitt ár.“

Ekki gekk samt þrautalaust fyrir Carmen að koma til Íslands til að vinna. Rúmenía var ekki í ESB og umsókn um atvinnuleyfi hér á landi til handa Carmen var hafnað þrisvar áður en Ingibjörg og Ragnar náðu með harðfylgi að knýja fram samþykki.

„Leyfið kom í febrúar 2006 og ég kom hingað 13. febrúar. Það er dagur sem ég gleymi aldrei. Ég fór beint að vinna á Pílus. Við vorum held ég átta þá. Ég man að Ingibjörg lagði mikla áherslu á að við værum alltaf með allt það nýjasta á hreinu. Hún var alltaf að borga fyrir okkur námskeið og ég man að þegar það nálgaðist að árið mitt yrði liðið sagði ég henni að vera ekki að borga fyrir mig á námskeið sem kostaði sex þúsund krónur þar sem ég væri að fara aftur til Rúmeníu. Það var engu tauti við hana komandi. Svo varð eitt ár að tveimur og hér er ég enn,“ segir Carmen og brosir breitt.

Aðspurð segir Carmen að talsverður munur hafi verið á tískunni hér á landi og í Rúmeníu þegar hún flutti hingað.

„Ég kom beint úr rúmenska sumrinu þegar það var svo heitt að flestar konur vildu láta klippa sig mjög stutt. Það var hins vegar ekki tískan hér á landi, hér vildu konur almennt vera með miklu síðara hár en konur í Rúmeníu.“

Á sínu öðru ári hér á landi kynntist Carmen íslenskum manni, Geir, og ekki varð aftur snúið eftir það. Þau giftust árið 2008. Nokkru síðar fór Carmen að þreifa fyrir sér á eigin spýtur, fyrst með því að leigja stól á hárgreiðslustofu og frá 2015 hefur hún rekið Spörtu á Laugarásvegi.

Þegar Carmen flutti hingað talaði hún varla stakt orð í íslensku. Hún segist hafa talað ensku við starfsfélagana en aldrei við viðskiptavinina. Til að byrja með hafi það verið dálítið erfitt en fljótlega náði hún að tileinka sér tungumálið og í dag talar hún afbragðsgóða íslensku.

„Mér finnst ég líka vera Íslendingur í dag. Mér finnst fólkið hér yndislegt, ég skil það og menninguna og hér á ég heima,“ segir Carmen Mihaela Pal brosandi að lokum. ■