Mikill fjöldi gesta var samankominn á glæsilegu hóteli Armani sem staðsett er í hæsta turni heims, Burj Khalifa. Chris Martin, tónlistarmaður úr Coldplay, var meðal gesta og hafði á orði að hvergi í heiminum væru jafn margir best klæddu á einum stað á sama tíma. Hann flutti nokkur lög í veislunni.

Meðal annarra gesta var leikkonan Sharon Stone, Lily James sem er vel þekkt úr Mamma Mia! og Downton Abbey svo eitthvað sé nefnt og Clive Owen sem nýlega lauk við að leika Bill Clinton í nýrri kvikmynd um forsetann fyrrverandi, Impeachment: American Crime Story. Gestunum var meðal annars boðið í eyðimerkurferð sem þeim þótti áhugaverð.

Kjólarnir sem sýndir voru fyrir vorið 2022 voru hver öðrum glæsilegri.

Expo 2020 sýningin í Dúbaí átti að vera á síðasta ári en var frestað vegna Covid. Armani sýnir hátísku í tengslum við sýninguna og kynnir þar með ítalska yfirburði í hönnun, eins og það er nefnt. Armani hlaut sjálfur gullna vegabréfsáritun í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Gullna vegabréfsáritunarkerfið hófst árið 2019 og veitir tíu ára búsetu sem viðurkenningu á sérstökum framlögum til landsins. Armani fagnar um þessar mundir ellefu árum í hótelrekstri í Dúbaí og segir að breytingarnar í borginni á þessum árum séu ævintýralegar.

Það má segja að elegans sé ávallt í sniðunum hjá Armani. Gullfalleg efni og sniðin kvenleg.

Hótelið í Dúbaí býður upp á lúxusgistingu og aðstöðu en það er á 38. hæð í skýjakljúfinum. Veggir eru til dæmis klæddir silki og leðri. „Þótt hótelið hafi orðið tíu ára í fyrra er engin þörf á breytingum, klassinn hefur haldið sér vel. Þetta er tímalaus hönnun,“ segir Armani.

„Ég er ánægður og stoltur af að vera hér,“ sagði Armani við blaðamenn. „Miðausturlönd eru vagga nýs lúxushugtaks, samheiti um stöðuga þróun og tilraunir sem eiga rætur í töfrum djúprar menningar þessara ríkja.“

Á tískusýningunni sýndi hann glæsilegan fatnað fyrir vorið 2022. Sýningin fór fram fyrir framan turninn Burj Khalifa en þar er stærsti gosbrunnur heims sem skiptir litum, flytur tónlist og hreyfist á rúmlega þúsund vegu. Glæsileikinn var því allt um kring.

Það eru allir fínir í hvítum jakkafötum. Þessi tvíhneppti jakki er einstaklega smekklegur.

Armani Pop-Up verslun hefur verið sett upp í Dubai Mall og verður opin í mánuð. Sömuleiðis er Armani-verslun í miðstöðinni sem var opnuð árið 2010 og endurnýjuð á síðasta ári. Önnur Armani-verslun er í Mall of the Emirates en báðar þessar verslunarmiðstöðvar eru sérlega glæsilegar.

:Ljósblár og frjálslegur jakki en merki Armani er skraut í efninu.
Sumarlegur jakki sem getur hentað spari eða bara í góðu veðri við gallabuxur.