Á þriðjudag hélt Þjóðleikhúsið málþing um samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum og inngildingu jaðarhópa. Undanfarnar vikur hefur átt sér stað mikil umræða um þessi mál í kjölfar þess að Nína Hjálmarsdóttir, sviðslistarýnir Víðsjár, birti pistil um söngleikinn Sem á himni þar sem hún gagnrýndi Þjóðleikhúsið meðal annars fyrir að láta ófatlaðan mann leika fatlaða persónu.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, listfræðingur og aðgerðarsinni, er ein þeirra sem héldu erindi á málþinginu. Hún segir það vera mjög jákvætt að fatlað fólk hafi fengið tækifæri til að ræða þessi mál við fulltrúa helstu menningarstofnana landsins svo sem Þjóðleikhússtjóra, rektor Listaháskóla Íslands og forseta Bandalags íslenskra listamanna.
„Það er mjög sjaldan sem réttindi fatlaðs fólks fá að vera í svona miklum brennidepli. Það var náttúrlega bara alveg einstök upplifun og ótrúlega kraftmikil erindi. Það var mikið af fagfólki í salnum og ég hef fengið mjög mikil viðbrögð frá leikurum og fólki í sviðslistasenunni sem var mjög ánægt með að geta tekið þátt í þessu samtali. En nú er náttúrlega kominn tími til að fylgja þessu eftir og leyfa ekki þessum stofnunum að komast upp með það sem hefur viðgengist áratugum saman,“ segir hún.

Nína Hjálmarsdóttir var einnig viðstödd málþingið og segir það magnað að sjá hversu sterkt fatlað fólk hefur komið inn í umræður síðustu vikna.
„Ræður gærdagsins sýna að nú verður ekki lengur hægt að láta sem ekkert hafi í skorist. Á málþinginu afhjúpaðist hversu illa menningarstofnanir okkar eru undirbúnar til að taka á þessum löngu tímabæru breytingum, sem sést á því að þær eru hvorki tilbúnar til að taka ábyrgð á mistökum sínum né heldur grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma fötluðu fólki og öðrum jaðarhópum í listræn hlutverk og valdastöður innan geirans. Ég vona að valdhafar þori að hlusta á þessar raddir, og taka til sín slagorðið ,,ekkert um okkur án okkar”. Breytingin er hafin og stofnanir verða að vera með, annars eiga þær á hættu að heltast úr lestinni.“
Spurð um hvort hún telji að umræðan muni leiða til breytinga segir Inga Björk:
„Ég hef allavega trú á því að þessi hópur, bæði ófatlaðir sviðslistamenn og fatlað fólk í sviðslistum og baráttufólk, muni láta þetta vera tækifæri til að knýja fram raunverulegar breytingar.“