Á þriðju­dag hélt Þjóð­leik­húsið mál­þing um sam­fé­lags­leg á­hrif birtingar­mynda í listum og inn­gildingu jaðar­hópa. Undan­farnar vikur hefur átt sér stað mikil um­ræða um þessi mál í kjöl­far þess að Nína Hjálmars­dóttir, sviðs­lista­rýnir Víð­sjár, birti pistil um söng­leikinn Sem á himni þar sem hún gagn­rýndi Þjóð­leik­húsið meðal annars fyrir að láta ó­fatlaðan mann leika fatlaða per­sónu.

Inga Björk Margrétar Bjarna­dóttir, list­fræðingur og að­gerðar­sinni, er ein þeirra sem héldu erindi á mál­þinginu. Hún segir það vera mjög já­kvætt að fatlað fólk hafi fengið tæki­færi til að ræða þessi mál við full­trúa helstu menningar­stofnana landsins svo sem Þjóð­leik­hús­stjóra, rektor Lista­há­skóla Ís­lands og for­seta Banda­lags ís­lenskra lista­manna.

„Það er mjög sjaldan sem réttindi fatlaðs fólks fá að vera í svona miklum brenni­depli. Það var náttúr­lega bara alveg ein­stök upp­lifun og ó­trú­lega kraft­mikil erindi. Það var mikið af fag­fólki í salnum og ég hef fengið mjög mikil við­brögð frá leikurum og fólki í sviðs­lista­senunni sem var mjög á­nægt með að geta tekið þátt í þessu sam­tali. En nú er náttúr­lega kominn tími til að fylgja þessu eftir og leyfa ekki þessum stofnunum að komast upp með það sem hefur við­gengist ára­tugum saman,“ segir hún.

Fjölmargir aðgerðasinnar og sérfræðingar í málefnum fatlaðs fólks tóku þátt í málþinginu.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Nína Hjálmars­dóttir var einnig við­stödd mál­þingið og segir það magnað að sjá hversu sterkt fatlað fólk hefur komið inn í um­ræður síðustu vikna.

„Ræður gær­dagsins sýna að nú verður ekki lengur hægt að láta sem ekkert hafi í skorist. Á mál­þinginu af­hjúpaðist hversu illa menningar­stofnanir okkar eru undir­búnar til að taka á þessum löngu tíma­bæru breytingum, sem sést á því að þær eru hvorki til­búnar til að taka á­byrgð á mis­tökum sínum né heldur grípa til nauð­syn­legra að­gerða til að koma fötluðu fólki og öðrum jaðar­hópum í list­ræn hlut­verk og valda­stöður innan geirans. Ég vona að vald­hafar þori að hlusta á þessar raddir, og taka til sín slag­orðið ,,ekkert um okkur án okkar”. Breytingin er hafin og stofnanir verða að vera með, annars eiga þær á hættu að hel­tast úr lestinni.“

Spurð um hvort hún telji að um­ræðan muni leiða til breytinga segir Inga Björk:

„Ég hef alla­vega trú á því að þessi hópur, bæði ó­fatlaðir sviðs­lista­menn og fatlað fólk í sviðs­listum og bar­áttu­fólk, muni láta þetta vera tæki­færi til að knýja fram raun­veru­legar breytingar.“