Ísland eignaðist fjóra Norðurlandameistara á Norðurlandamóti barna og unglinga í lyftingum sem fram fór í Garðabæ fyrr í þessum mánuði. Birta Líf Þórarinsdóttir, sem varð tvítug á árinu, var eina konan í sigurhópnum að þessu sinni en hún lyfti 86 kílóum í snörun og 107 kílóum í jafnhendingu sem gerir 193 kíló samanlagt og dugði til gullverðlauna í 76 kílóa flokki unglinga.

Hún segir það hafa verið einstaka tilfinningu að vinna gullið. „Tilfinningin var frábær. Það var sérstaklega gaman að vinna titilinn á heimavelli þar sem það kom mikið af fólki sem ég þekkti til að horfa á mig og hvetja.“

Birta Líf hefur stundað íþróttir mjög lengi og var til dæmis í fótbolta og fimleikum á sínum yngri árum.

Ísland eignaðist fjóra Norðurlandameistara á Norðurlandamóti barna og unglinga í lyftingum sem fram fór í Garðabæ fyrr í þessum mánuði. Birta Líf Þórarinsdóttir, sem varð tvítug á árinu, var eina konan í sigurhópnum að þessu sinni en hún lyfti 86 kílóum í snörun og 107 kílóum í jafnhendingu sem gerir 193 kíló samanlagt og dugði til gullverðlauna í 76 kílóa flokki unglinga.

Hún segir það hafa verið einstaka tilfinningu að vinna gullið. „Tilfinningin var frábær. Það var sérstaklega gaman að vinna titilinn á heimavelli þar sem það kom mikið af fólki sem ég þekkti til að horfa á mig og hvetja.“

Annasamir mánuðir

Birta Líf hefur stundað íþróttir mjög lengi og var til dæmis í fótbolta og fimleikum á sínum yngri árum. „Árið 2017 byrjaði ég í CrossFit og kynntist þar ólympískum lyftingum. CrossFit hefur í raun alltaf verið mín aðalíþrótt og ég hef keppt á þó nokkrum mótum úti um allan heim, þar á meðal heimsleikunum árið 2018. Ólympískar lyftingar eru hluti af CrossFit en þær hafa alltaf verið minn helsti styrkleiki. Þess vegna byrjaði ég einnig að keppa í þeim.“

Mánuðirnir fyrir mótið hafa verið annasamir hjá henni, sérstaklega síðustu tveir mánuðir. „Ég fór til Madrid, Sviss og Danmerkur í haust að keppa á CrossFit-mótum. Vegna þessara móta var ég ekki með einhvern sérstakan undirbúning fyrir Norðurlandamótið. Ég fékk svo óvænt boð þremur dögum fyrir mót um að keppa á Smáþjóðaleikunum í ólympískum lyftingum sem haldnir voru á Kýpur, helgina fyrir Norðurlandamótið. Þar gekk mér mjög vel, náði öllum mínum lyftum og bætti minn besta árangur. Þetta gerði mikið fyrir sjálfstraustið mitt fyrir komandi Norðurlandamót.“

Gullið í höfn á heimavelli.

Lítil hvíld fram undan

Og það eru næg verkefni fram undan hjá henni. „Ég keppi á Íslandsmóti unglinga í lyftingum í lok desember og í byrjun janúar fer ég til Miami að keppa í CrossFit. Ég stefni svo á að keppa á Evrópumóti U23 í lyftingum sem verður haldið á næsta ári. Markmiðið er fyrst og fremst að njóta og hafa gaman af að æfa og keppa. Mig langar til þess að halda áfram að keppa og safna reynslu þar sem ég er að stíga mín fyrstu skref í fullorðinsflokki.“

Utan lyftinga og CrossFit stundar Birta Líf diplómanám í styrktar- og þolþjálfun við Háskólann í Reykjavík sem hún klárar í vor. „Svo er ég að vinna í Hinu húsinu og er einnig þjálfari í CrossFit í WorldFit.“

Spurt og svarað:

Hver er uppáhaldsæfingin og hver er í minnstu uppáhaldi?

Uppáhaldsæfingin mín er ólympískar lyftingar, eða snörun og jafnhending. Sú sem er í minnstu uppáhaldi er hlaup. Ég er hins vegar komin á hlaupaprógram til að reyna breyta því.

Hvað færðu þér helst í morgunmat?

Annaðhvort fæ ég mér beyglu eða jógúrt með múslí.

Hvað finnst þér gott að fá í kvöldmat?

Almennt borða ég fjölbreyttan og hollan mat, en það sem er í miklu uppáhaldi er pizza eftir góða æfingu.

Hvert er besta millimálið?

Mér finnst gott að grípa í Barbells próteinstykki, skyrskvísu og einn ískaldan Nocco með.

Hver er erfiðasti andstæðingurinn?

Erfiðasti andstæðingurinn er maður sjálfur. Maður hefur aldrei stjórn á því sem aðrir gera.

Hvaða þættir skipta mestu máli, til lengri tíma litið, upp á góðan árangur í íþróttinni?

Að æfa jafnt og þétt og vera „consistent“. Einnig finnst mér mjög mikilvægt að hafa gaman að því að æfa, því að um leið og þetta er hætt að vera gaman ertu ekki lengur að gera þetta fyrir sjálfan þig.

Hvernig kemur þú þér í gírinn fyrir mót?

Ég er ekki með neina sérstaka rútínu. Ég verð alltaf nokkuð stressuð fyrir mót, en um leið og ég byrja að hita upp breytist stressið í spennu sem kemur mér í gírinn.

Ertu morgunhani eða finnst þér gott að sofa út?

Mér finnst gott að sofa út en það er ekki vandamál fyrir mig að vakna snemma ef að ég þarf þess.

Ertu nammigrís?

Stutta svarið er já.