„Í flutningum fyrir stuttu rakst ég á glósubók. Ég hafði þá verið að horfa á sjónvarpsþættina Shōgun, sem komu út í kringum 1980. Þegar aðalpersónunni er kennd japanska í þættinum þá hafði ég glósað allt niður sem henni var kennt. Þá hef ég verið um átta ára gömul, þannig að ég kann ekki beina útskýringu á því en áhuginn á Japan og japanskri menningu hefur alltaf verið til staðar,“ segir Gunnella.

Lærði handverk og hefðir

Áhuginn á landinu dvínaði þvert á móti með árunum.

„Ég fór sem skiptinemi þegar ég var unglingur til Norður-Japans þar sem ég bjó í litlum afskekktum smábæ sem heitir Honjo Shi. Þetta var árið 1991. Þar fór ég í kynjaskiptan landbúnaðarskóla fyrir lágstéttina, þangað fóru unglingar sem voru ekki sérstaklega að stefna á einhvern starfsframa. Það hentaði mér mjög vel því þar fékk ég einstaka innsýn hvað varðar japanskt handverk og hefðir. Skólinn einblíndi mun frekar á slíkt en hefðbundið bóknám, sem mér fannst mjög gefandi,“ segir Gunnella.

Allar götur síðan hefur Gunnella verið í miklu sambandi við skiptinemafjölskylduna sína í Honjo, en hana heimsækir Gunnella reglulega. „Þau líta á börnin mín sem börnin sín. Við vörðum mánuði í kringum jólin í Japan og vorum hjá fjölskyldunni. Ég reyni að fara út eins oft og ég get, en fer sjaldnar en ég myndi vilja.“

Gunnella með skiptinemafjölskyldunni sinni í Honjo árið 1991.

Allt sjálfboðavinna

Doktorsverkefni Gunnellu sneri að hefðum, siðum og hjátrú þegar kemur að barneignum og frumbernsku í japanskri menningu.

„Mastersritgerðin mín fjallaði um hjátrú á meðgöngu meðal íslenskra kvenna, svo það lá vel við að gera þetta að umfjöllunarefni mínu í doktorsverkefninu. Ég tók við japönsku deildinni hérna árið 2012 og hef haldið utan um hátíðina síðan. En þetta er samstarfsverkefni nemenda og kennara Háskóla Íslands og japanska sendiráðsins, og allt gert í sjálf boðavinnu,“ segir Gunnella.

Ólympíuleikarnir í Tókýó

Japönskukennsla hófst við Háskóla Íslands 2003 og ári síðar fór hátíðin fram í fyrsta skipti og hefur verið árlegur viðburður síðan. Í ár verður boðið upp á fjölbreytta og veglega dagskrá.

Boðið verður upp á námskeið í sushigerð á Japanshátíðinni í dag.

„Við höfum fengið til landsins Munedaiko, japanskan trommuhóp sem spilar á taiko-trommur. Síðan verður „cosplay“ keppni, en við vorum fyrst til að halda slíkar keppnir einmitt á Japanshátíðinni. Keppnin óx svo hátíðinni yfir höfuð og er því núna haldin í september ár hvert á Midgaardhátíðinni. Við erum samt enn þá með minni útgáfu af cosplaykeppninni og hljóta sigurvegararnir miða á Midgaard og verðlaun frá Nexus. Þannig að við hlökkum til að sjá gesti mæta í búningum,“ segir Gunnella.

Þema Japanshátíðarinnar í ár eru Ólympíuleikarnir, en þeir fara fram í Tókýó í Japan í sumar. „Það þykja nokkuð góðar líkur á að liðið okkar frá Íslandi keppi á leikunum í ár og við fáum því til okkar júdókappa til að leika listir sínar.“

Hátíðin fer fram í Veröld – Húsi Vigdísar Finnbogadóttur og hefst klukkan 13 og hentar bæði börnum og fullorðnum og aðgangur er