„Hvert sem er, svo lengi sem það er utan þessa heims,“ er á­kall sálarinnar sam­kvæmt Bau­delaire. Ein­stök lista­verk færa mann stundum þangað: Rétt út fyrir heiminn – oftast reyndar með því að opna hurð inn í her­bergi sem ein­mitt leynist í líkama manns sjálfs en maður hafði fram að því ekki hug­mynd um að væri til.

Ný­lega varð ég fyrir slíkri reynslu þegar ég rambaði inn í litla kirkju í Róm og stóð ó­undir­búinn frammi fyrir Al­sælu Teresu frá Avíla eftir Berníní. Seinna sama dag skoðaði ég Hina blessuðu Lúdó­viku Albertóní. Ég þurfti að fara heim að leggja mig eftir það. Verk Berninis eru engum lík en þessi tvö eru í öðru her­bergi, þar sem snerting guð­dómsins verður að marmara­kenndri líkam­legri al­sælu. Upp­ljómun.

Ein­stök lista­verk færa mann stundum þangað: Rétt út fyrir heiminn – oftast reyndar með því að opna hurð inn í her­bergi sem ein­mitt leynist í líkama manns sjálfs en maður hafði fram að því ekki hug­mynd um að væri til.

Hljóm­platan Astral We­eks magnar ó­líkan seið. Hún var að miklu leyti spunnin í hljóð­verinu á meðan segul­bandið rúllaði og er ein­hvers­konar högg­mynd af list­rænu frelsi eða bara frelsi: Söngur Vans Morri­sons og bassa­leikur Richards Davis eru enda örugg­lega á astral­s­viðinu. Píanó­verkið Für Aline eftir Arvo Pärt hafði svipuð á­hrif á mig þegar ég heyrði það fyrst, eða nei, reyndar eigin­lega alltaf þegar ég heyri það: Nýtt her­bergi en öfugt við mörg hinna er það afar stórt og í því er ekki nokkur hlutur; alveg öfugt við her­bergið sem bókin Í verum eftir Theó­dór Frið­riks­son lauk upp fyrir mér, en það var afar þröng kompa, moldug og sagga­full, en afar mikil­væg.

Á morgun mun ég muna eftir öðrum lista­verkum en í dag þá er elsta dæmið um svona upp­lifun sem hrekkur upp í vitundina frá haustinu 1987 þegar ég læddist inn sýningu á kvik­mynda­há­tíð í Laugar­ás­bíói. Ég var 15 eða 16 ára. Leið eins og snjó­bolta í hel­víti undir heitum stjörnu­ljósunum í loftinu, um­kringdur svölum menningar­vitum. Á endanum lækkuðu ljósin. Myndin var Stroku­fangarnir, eða Down By Law, eftir Jim Jarmusch; Chaplin okkar daga, Rober­to Benigni í aðal­hlut­verki á­samt Tom Waits sem einnig gerði tón­listina. Þar opnaðist hurð. Og þegar ég gekk út í haust­sólina leið mér eins og til væri sirkús og mögu­legt væri að strjúka með honum – eitt­hvað burt, hvert sem er út úr þessum hvers­dags­lega heimi.