„Hvert sem er, svo lengi sem það er utan þessa heims,“ er ákall sálarinnar samkvæmt Baudelaire. Einstök listaverk færa mann stundum þangað: Rétt út fyrir heiminn – oftast reyndar með því að opna hurð inn í herbergi sem einmitt leynist í líkama manns sjálfs en maður hafði fram að því ekki hugmynd um að væri til.
Nýlega varð ég fyrir slíkri reynslu þegar ég rambaði inn í litla kirkju í Róm og stóð óundirbúinn frammi fyrir Alsælu Teresu frá Avíla eftir Berníní. Seinna sama dag skoðaði ég Hina blessuðu Lúdóviku Albertóní. Ég þurfti að fara heim að leggja mig eftir það. Verk Berninis eru engum lík en þessi tvö eru í öðru herbergi, þar sem snerting guðdómsins verður að marmarakenndri líkamlegri alsælu. Uppljómun.
Einstök listaverk færa mann stundum þangað: Rétt út fyrir heiminn – oftast reyndar með því að opna hurð inn í herbergi sem einmitt leynist í líkama manns sjálfs en maður hafði fram að því ekki hugmynd um að væri til.
Hljómplatan Astral Weeks magnar ólíkan seið. Hún var að miklu leyti spunnin í hljóðverinu á meðan segulbandið rúllaði og er einhverskonar höggmynd af listrænu frelsi eða bara frelsi: Söngur Vans Morrisons og bassaleikur Richards Davis eru enda örugglega á astralsviðinu. Píanóverkið Für Aline eftir Arvo Pärt hafði svipuð áhrif á mig þegar ég heyrði það fyrst, eða nei, reyndar eiginlega alltaf þegar ég heyri það: Nýtt herbergi en öfugt við mörg hinna er það afar stórt og í því er ekki nokkur hlutur; alveg öfugt við herbergið sem bókin Í verum eftir Theódór Friðriksson lauk upp fyrir mér, en það var afar þröng kompa, moldug og saggafull, en afar mikilvæg.
Á morgun mun ég muna eftir öðrum listaverkum en í dag þá er elsta dæmið um svona upplifun sem hrekkur upp í vitundina frá haustinu 1987 þegar ég læddist inn sýningu á kvikmyndahátíð í Laugarásbíói. Ég var 15 eða 16 ára. Leið eins og snjóbolta í helvíti undir heitum stjörnuljósunum í loftinu, umkringdur svölum menningarvitum. Á endanum lækkuðu ljósin. Myndin var Strokufangarnir, eða Down By Law, eftir Jim Jarmusch; Chaplin okkar daga, Roberto Benigni í aðalhlutverki ásamt Tom Waits sem einnig gerði tónlistina. Þar opnaðist hurð. Og þegar ég gekk út í haustsólina leið mér eins og til væri sirkús og mögulegt væri að strjúka með honum – eitthvað burt, hvert sem er út úr þessum hversdagslega heimi.