Hönnunarhátíðin HönnunarMars er nú haldin í þrettánda skiptið og eru viðburðir henni tengdir haldnir víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Um er að ræða stærstu hönnunarhátíð landsins, sem er haldin í maí í ár vegna Covid-19. Hátíðin hefur þurft að aðlaga sig breyttri heimsmynd og var til að mynda haldin í júní í fyrra. Þórey Einarsdóttir er stjórnandi hátíðarinnar.

„HönnunarMars fæddist í miðju hruni, árið 2009. Hátíðin kemur inn með krafti á hverju ári, veitir innblástur og gleði ásamt því að varpa ljósi á þann skapandi kraft sem hönnunarsamfélagið hér á landi hefur að geyma. HönnunarMars er ein af sex borgarhátíðum Reykjavíkurborgar. DNA hátíðarinnar er síbreytilegt eftir því hvaða hönnuðir og arkitektar taka þátt hverju sinni. Og það er akkúrat það sem gerir hátíðina einstaka,“ segir Þórey.

Hvert er mikilvægi HönnunarMars fyrir listasenuna á Íslandi?

„Á HönnunarMars gefst tími fyrir samtalið. Það er mikilvægt að geta átt samtal. Og að kanna og kynnast því hvað kollegar þínir eru að gera. Í daglegu amstri gefst oft ekki tími fyrir það. Þannig verða til tengingar og þræðir sem annars hefðu ekki orðið til. Það má segja að HönnunarMars sé á sama tíma uppskeruhátíð hönnunarsamfélagsins, þar sem almenningi gefst kostur á að sjá það sem er í gangi hverju sinni. Hátíðin er stærsta kynningaraflið þegar kemur að því að miðla íslenskri hönnun og arkitektúr hérlendis og erlendis og því gríðarlega mikilvægur vettvangur,“ svarar hún.

Fjölbreytt dagskrá

HönnunarMars er einstakur að því leyti að allar greinar hönnunar og arkitektúrs koma saman undir einni regnhlíf sem skapar fjölbreytta dagskrá með eindæmum, að sögn Þóreyjar.

„Það að hafa aðgengi að fjölbreytileikanum í formi viðburða og sýninga er einstök upplifun. Bæði fyrir hönnuðina, arkitektana og almenning. HönnunarMars er sannkölluð þátttökuhátíð þar sem almenningi gefst einstakt tækifæri til að fá innsýn í hugarheim hönnuða og arkitekta. Með dagskrá sem er svona fjölbreytt er óhætt að fullyrða að það sé eitthvað fyrir alla.“

Þórey viðurkennir að það hafi sannarlega reynt á að skipuleggja hátíð af þessari stærðargráðu í skugga heimsfaraldurs.

„Dagsformið er misjafnt en heilt yfir hefur það gengið vel og þökk sé frábæru teymi HönnunarMars, þátttakendum sjálfum og ekki síst öllum okkar frábæru samstarfsaðilum. Eftir þetta ár er komin ákveðin reynsla í að hvíla í óvissunni og að aðlaga sig aðstæðum hverju sinni. Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt, svo ekki sé meira sagt.“

Skemmtilegar nálganir

Þórey segir að af nógu verði að taka og dagskrá í boði fyrir alla aldurshópa.

„Já, svo sannarlega. Nú er HönnunarMars í maí að bresta á í allri sinni dýrð. Á dagskránni eru um 85 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og er dagskráin fjölbreytt sem aldrei fyrr og það er eitthvað fyrir alla. Þykjó, Krakkaklúbburinn Krummi á Listasafni Íslands, Maðurinn í skóginum og Allir út að leika eru til dæmis frábærir viðburðir fyrir fjölskylduna að upplifa saman svo fátt eitt sem nefnt,“ segir hún.

Getur þú bent á einhverja viðburði sem þú ert sérstaklega spennt fyrir, eða er það eins og að velja á milli barnanna sinna?

„Það er eiginlega eins og að gera upp á milli barnanna sinna,“ segir Þórey og hlær. „Hins vegar get ég lofað því að það er mikið um áhugaverðar og skemmtilegar nálganir í dagskránni, til dæmis í vinnuferlum og þverfaglegum samstarfsverkefnum þar sem hönnuðir úr ólíkum greinum vinna saman. Nú geta gestir sett saman sína dagskrá á heimasíðu HönnunarMars, sett inn í dagatölin og skipulagt næstu daga,“ bætir hún við.

Fyrir þá sem vilja leiðsögn um dagskrána er tilvalið að kíkja á dagskrársíðuna og finna Minn hönnunarMars, þar sem vel valdir einstaklingar hafa rýnt dagskrána og valið sýningar til að sjá.

„HönnunarMars býður alla velkomna og við erum spennt að sjá bæinn lifna við í næstu viku.“