Einstakt hús við Brekkugerði 19 sem var hannað af goðsögninni Högnu Sigurðardóttur, arkitekt, var auglýst til sölu í Fréttablaðinu í dag. Högna bjó og starfaði í Frakklandi nánast allan sinn starfsferil en hún hélt góðum tengslum við Ísland og teiknaði fjögur einbýlishús sem risu á Íslandi, þar á meðal húsið við Brekkugerði. Eitt hennar þekktasta verk er húsið að Bakkaflöt 1 í Garðabæ.

Sú bygginging hefur oft verið til umfjöllunar í erlendum fagritum á sviði hönnunar og arkitekturs og var hún valin ein af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu í útgáfu alþjóðlegs yfirlitsrits um byggingarlist. Þá má til gamans geta að húsið við Bakkaflöt lék stórt hlutverk í kvikmyndinni Eiðnum eftir Baltasar Kormák.

Húsið við Brekkugerði er ekki síður merkilegt enda er það eina húsið eftir Högnu sem reis í Reykjavík. Sagnfræðingurinn Guðjón Friðriksson er mikill áhugamaður um byggingarlist og birtir reglulega áhugaverðar færslur um hús á Íslandi. Á dögunum skrifaði hann skemmtilegan pistil um umrætt hús. Þar kemur fram að bygging hússins hafi vakið gríðarlega athygli árið 1963.

„Fólk fór gagngert í bíltúra til að virða það fyrir sér. Húsið teiknaði hún fyrir Þorvarð Þorvarðsson framkvæmdastjóra Stjörnubíós og konu hans Erlu Lýðsson Hjaltadóttur. Bjuggu þau í húsinu allt til ársins 2012. En hvað var svona merkilegt við húsið? Í fyrsta lagi fyrir það hversu ómáluð og hrá steinsteypa lék stórt hlutverk í því eins og öðrum húsum Högnu. Meðal annars eru húsgögn í stofu og svefnherbergjum steinsteypt. Þverbitar sem ganga þvert um húsið eru vel sýnilegir innandyra. Húsið er alls 307 fermetrar og á þakinu eru 150 fermetrar stórar útsýnissvalir með útsýni yfir Reykjavík. Síðast en ekki síst eru sundlaug með setustofu og búningsklefar á jarðhæð,“ skrifar Guðjón.

IMG_6713_copy (1).jpg

Glæsileg sundlaug er á jarðhæð hússins

Hann segir að Högna hafi stundum verið flokkuð sem brútalisti í arkitektúr og húsið við Brekkugerði þyki framúrstefnulegt og ólíkt öðrum einbýlishúsum sem byggð hafa verið í höfuðborginni. Hann segir að Högna hafi notið mikillar virðingar í Frakklandi og setið þar meðal annars í akademíu franskra arkitekta.

„Þau Þorvarður og Erla höfðu lag á að gera heimili sitt í þessu húsi ákaflega vistlegt. Hann var rennismiður að mennt og kunni að nostra við innréttinguna. Þar skiptust á timburklæðningar og veggir klæddir litríkum steinum. Nútímalist var á veggjum og höggmyndir á gólfum. Húsgögn voru eftir þekktustu hönnuði, meðal annars danska eggið. Húsið var leigt út að mestu eftir 2012 en þar hélt Erró, vinur Högnu frá París, líka sýningu á verkum sínum eitt árið og skákmót hafa þar verið haldin. Nú bíður þetta merkilega hús nýrra eigenda,“ skrifar Guðjón.

Hér er hægt að skoða fleiri myndir af þessu einstaka húsi.

Hús dagsins (108). Brekkugerði 19 í Reykjavík. Þetta er eina húsið eftir Högnu Sigurðardóttur arkitekt í Reykjavík og...

Posted by Gudjon Fridriksson on Föstudagur, 21. ágúst 2020