Hollywood-stjarnan Ezra Miller hefur ekki átt sjö dagana sæla en undanfarin ár hefur leikarinn flækst inn í hvern skandalinn á fætur öðrum. Miller, sem notar fornöfnin hán, er þekktast fyrir að leika ofurhetjuna the Flash og í Fantastic Beasts kvikmyndaseríunni.

Hán hefur dvalið reglulega á Íslandi og var hér við upphaf Covid-faraldursins. Í apríl 2020 gekk myndband manna á milli á samfélagsmiðlum sem sýndi hán taka konu háls­taki og snúa hana niður á skemmti­staðnum Prikinu.

Tímaritið Variety fjallaði um mál Millers í ítarlegri grein sem birtist á dögunum. Þar er meðal annars rætt við Carlos Reyni sem starfaði sem barþjónn á Prikinu þegar Miller var fastagestur þar.

„Ef hán var ekki að kveikja á reykelsi eða kertum, eða koma með eigin hátalara til að spila hærri tónlist en í okkar hátölurum, þá var það eitthvað annað. Það var alltaf eitthvað,“ segir Carlos.

Konan sem Miller réðst á steig einnig fram í viðtalinu og greindi frá sinni upplifun. Haft er eftir heimildarmönnum að Miller og konan hafi grínast með að fara í slag. Hún hélt sjálf að leikarinn hefði bara verið fíflast en brátt kom í ljós að svo var ekki.

„Allt í einu er hán ofan á mér að kyrkja mig, öskra á mig að spyrja hvort ég vilji slást. Vinur minn er að taka þetta upp og sér að hán er augljóslega ekki að djóka og er mjög alvarlegt þannig að vinur minn hættir að taka upp og ýtir háni af mér á meðan hán er enn að reyna að slást við mig,“ segir hún.

Konan segir Miller því næst hafa hrækt nokkrum sinnum í andlit vinar hennar en að lokum hafi Carlos Reynir skorist í leikinn.

Ljóst er að ekki er um einangrað atvik að ræða en fleiri mál um ofbeldisfulla hegðun Millers hafa komið upp í öðrum löndum. Hán var til að mynda tvisvar handtekið á Havaí í vor sakað um að hafa annars vegar kastað stól í andlit konu og hins vegar um að hafa sýnt af sér of­beldis­fulla hegðun á karókí­bar.

Miklar umræður hafa skapast um Ezra Miller á samfélagsmiðlum og virðist framtíð háns sem kvikmyndastjörnu vera í nokkurri hættu ef marka má fréttir frá Warnes Bros sem benda til þess að framleiðslufyrirtækið hafi í hyggju að leysa stjörnuna undan samningi sínum.

Einn notandi á Twitter lýsti leikaranum umdeilda svo: „Ezra Miller er eins og ef Tumblr hefði búið til terrorista.“