Einbýlishús á þremur pöllum með fimm svefnherbergjum á einstökum stað á Egilsstöðum er til sölu. "Eins og sveit í miðjum bænum" segir fasteignasalan Inni sem hefur húsið á sinni skrá.
Húsið þarfnast ýmiskonar viðhalds og endurbóta en ekki hefur verið búið í því síðastliðin ár og er þekking seljanda á ástandi takmörkuð. Það er því skorað á alla áhugasama að skoða húsið vel, og framkvæma skoðun með fagmanni.
Húsið telur 243,9 fermetra og er hannað af Sigurði Kjartanssyni arkitekt. Húsið er staðsteypt og stendur á 1.148 fermetra lóð á einstökum stað með trjágróðri allt í kring.
Búið er að endurnýja þakkant, þakrennur og niðurföll og þá hefur þak hússins verið yfirfarið og viðgert.
Tvö baðherbergi eru í húsinu, bæði með flísar á gólfi, auk salernisaðstöðu og sturtum í kjallara. Aðalbaðherbergi hússins er flísalagt í hólf og gólf, þar er hornbaðkar, handklæðaofn og ágæt innrétting.
Fimm svefnherbergi eru í húsinu, þar af fjögur parketlögð. Úr forstofu er farið í kjallara. Þar er baðaðstaða, sauna, sturta og salerni.
Nýlega var gert við þakið á húsinu.











