„Ég er heilmikil húsfreyja í mér og þykir fátt skemmtilegra en að skella í almennilegt kökuboð eða matarboð, leggja nýstraujaðan dúk á borð, nota fínt bollastell og njóta góðrar stundar með mínum nánustu. Eins og við kennum í Hússtjórnarskólanum er sniðugt að þrífa heimilið vikulega, til dæmis á fimmtudögum svo allt sé hreint og fínt fyrir helgina. Ég reyni að halda í það fyrirkomulag heima hjá mér líka,“ segir Marta María Arnarsdóttir, ný skólastýra Hússtjórnarskóla Reykjavíkur.

Hún segist ósköp venjuleg stelpa, fædd og uppalin í Smáíbúðahverfinu.

„Mér þykir mjög vænt um Reykjavík og vil helst hvergi annars staðar búa og starfa. Ég nýti þó hverja afsökun til að fara í ferðalög, bæði erlendis og hér heima, og þá helst með hundinum mínum, henni Línu,“ segir Marta María, einmitt nýlent heima eftir frábæra afmælisferð til kóngsins Kaupmannahafnar um helgina, en þar fagnaði hún 26 ára afmæli sínu.

Fegursta stofustássið

Heimili Mörtu Maríu er hlýlegt og skandinavískt, með mikið af ljósum, brúnleitum og bláum tónum.

„Ég er þó ekki eins og margir Íslendingar, að verða að eignast sömu hlutina og næsti maður. Ef ég sé að einhver hlutur eða húsgagn er komið inn á annað hvert íslenskt heimili, þá langar mig alls ekki í það,“ segir Marta María sem nú er á höttunum eftir fallegum, ljósleitum hornsófa í kremuðum lit til að fullkomna heimilið.

„Eftirlætis mublurnar mínar heima eru tveir trékistlar frá langalangömmu minni og nöfnu, Mörtu Maríu, sem mér þykir ósköp vænt um. Annar þeirra er stór og stendur inni í svefnherbergi, líklega um metri að lengd; hinn er minni, um 30 sentimetrar að lengd. Í þeim er mikil saga og svo skrifaði langalangamma mín nafnið sitt á kistlana sem gerir þá enn dýrmætari fyrir mér. Annars þykir mér líka mjög vænt um hljóðfærin mín; fiðluna og píanóið sem eru hin fegurstu stofustáss.“

Uppáhaldsstaður Mörtu Maríu heima segir hún að sé líklega þar sem hundurinn Lína er oftast.

„Það er ekkert betra en að hreinlega fleygja sér í knús til Línu í bælinu hennar,“ segir hún og hlær.

Marta María segir dýrmætasta veganestið úr námi sínu við Hússtjórnarskólann vera aukið sjálfstæði í alls kyns handavinnu og matreiðslu, sem eru einmitt hennar helstu áhugamál. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Alveg hreint dásamlegt

Skólastýran í Hússtjórnarskólanum er mjög dugleg að bjóða heim í mat og kaffiboð.

„Ég hugsa að ég eldi oftast tandoori-kjúkling sem ég ber fram með hrísgrjónum, heimagerðu naan-brauði og tómötum. Fjölskylda og vinir gera stundum grín að mér því það heyrir til undantekninga ef ég baka eitthvað sem er ekki með súkkulaði í. Ég er dugleg að baka alls konar kræsingar, fæ nefnilega sjaldan löngun í nammi eða snakk, en baka oft þegar ég vil gera vel við mig. Ætli hefðbundna súkkulaðikaka ömmu minnar sé þar ekki efst á lista, eða lúxusfléttan eða brownie-súkkulaðikakan,“ veltir Marta María fyrir sér.

Heimilislegasta upplifunin heima finnst henni vera eftir vel heppnaðan gestagang.

„Mér finnst ofboðslega notalegt þegar gestir eru til dæmis nýfarnir eftir gott matarboð, þar sem hefur verið mikið hlegið og skrafað, maður er nýbúinn að ganga frá öllu í eldhúsinu, kertaljós eru enn kveikt hér og hvar á heimilinu, og maður sest niður með prjónana í sófanum yfir einhverri línulegri dagskrá á RÚV. Það er alveg hreint dásamlegt.“

Heima er best

Af húsverkum þykir Mörtu Maríu skemmtilegast að vaska upp, því það sé svo róandi.

„Mér þykir reyndar mun skemmtilegra að þrífa en að taka til. Ég veit ekki hvers vegna en ef það hefur safnast of mikið dót á vitlausum stöðum virðist allt svo óyfirstíganlegt. Þannig er því verulega sniðugt að ganga alltaf frá öllu jafnóðum og hef ég reynt að temja mér það. Það er einnig eitthvað sem við kennum í Húsó,“ segir Marta María.

Nýjustu innkaupin til heimilisins voru skenkur úr Húsgagnahöllinni sem hún ætlar að hafa undir sjónvarpinu.

„Hann er í frekar gamaldags og hlýlegum stíl og ég er verulega skotin í honum. Annars eru inniskórnir mínir sá hlutur sem er mest ómissandi heima. Ég get ekki verið án Birkenstock-inniskónna minna, hvorki heima hjá mér né í vinnunni. Mér verður fljótt illt í fótunum ef ég er án þeirra, sérstaklega ef ég stend í eldhúsinu í einhvern tíma. Ég er með sitt parið hvort heima og í vinnunni, sem er mjög þægilegt.“

Það besta við heimilishaldið á haustin segir Marta María vera allt sem tengist berjum.

„Að kíkja í berjamó og sulta, og skella í rifsberjakökuna hennar mömmu. Heima er best og heima á að vera griðastaður, þar sem maður getur teygt úr sér án alls áreitis. Öruggur staður þar sem maður getur slakað á.“

Marta María hefur mikinn áhuga á að opna Hússtjórnarskólann fyrir fleirum en einungis nemendum skólans. Það gerir hún meðal annars með því að bjóða upp á alls kyns kvöldnámskeið í vetur. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Ekki lengur óyfirstíganlegt

Eftir stúdentspróf lauk Marta María námi við Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Hún segir dýrmætasta veganestið úr náminu vera sjálfstæði.

„Mér þótti dýrmætt að verða sjálfstæð í alls kyns handavinnu og matreiðslu, sem eru einmitt mín helstu áhugamál. Það var gaman að finna að maður náði tökum á svo mörgum atriðum á stuttum tíma. Núna er ekki lengur óyfirstíganlegt að lesa prjónauppskrift, sauma sér skyrtu, skella í matarboð eða lesa úr innihaldslýsingu á matvörum,“ segir hún, sæl í sínu nýja starfi sem skólastjóri.

„Ég er mjög heppin með samstarfsfólk og nemendur sem hafa tekið mér opnum og hlýjum örmum. Starfið er mjög fjölbreytt og enginn dagur eins. Verkefnalistinn styttist aldrei, sama hversu mikið maður vinnur í honum – en það er líka akkúrat þannig sem ég vil hafa vinnuna mína – að hafa nóg fyrir stafni,“ segir Marta María sem ber mikla virðingu fyrir Hússtjórnarskólanum og því sem hann stendur fyrir.

„Það býr gífurleg þekking í kennurum skólans, sem er afar dýrmætt. Ég ætla ekki að ráðast í neinar stórvægilegar breytingar. Ég vonast til að tengja námið enn betur við nútímann svo það sé sem hagnýtast fyrir nemendur í því nútímasamfélagi sem við lifum í. Ég hef einnig mikinn áhuga á að opna dyr skólans fyrir fleira fólki en einungis nemendum skólans. Það gerum við til dæmis með því að bjóða upp á alls kyns kvöldnámskeið sem eru opin öllum og í vetur verða til að mynda námskeið í útsaumi, matreiðslu, prjóni og hekli,“ upplýsir Marta María.

Ferlega notaleg morguniðja

Á haustönn stunda nítján nemendur nám við Hússtjórnarskólann, þar af einn strákur, en mest er hægt að taka á móti 24 nemendum hverju sinni.

„Það hallar klárlega á strákana en á síðustu árum hafa þeir verið um einn til þrír á hverri önn. Þeir eru þó farnir að sækja mun meira í námið en áður og við fögnum því,“ segir Marta María sem sjálf kennir ræstingu og vörufræði í skólanum.

„Ræstingin skiptist svolítið í tvennt. Það kenni ég annars vegar almenn þrif og hins vegar hagnýt ráð eins og hvernig eigi að strauja dúka í dúkabrot, strauja skyrtur, pressa buxur, fægja silfur, pússa skó og þess háttar. Nú í morgun vorum við einmitt að strauja skyrtur, sem er ferlega notaleg morguniðja,“ segir Marta María kát í glæsilegum húsakynnum Hússtjórnarskólans.

„Ó, já, hér á ég mér marga eftirlætisstaði. Hvert og eitt rými hefur sinn sjarma, sinn tilgang og sína lykt. Það er dásamlegt til dæmis að ganga út í vefstofu því þá þarf maður að labba í gegnum vaskahúsið og straustofuna sem mér finnst svo notalegt, og það er svo heimilisleg og góð lykt í þeim rýmum. Mér finnst líka alltaf gaman að kíkja niður í búrið okkar, sem er þokkalega stór geymsla, eða hlaupa upp og niður „vinnukonustigann“. Þá líður mér alveg eins og ég sé stödd í Downton Abbey. Húsið var byggt fyrir 101 ári síðan af Jónatan Þorsteinssyni kaupmanni og hann var með vinnukonur. Þær fengu ekki að ganga um sparistigann, heldur eingöngu bröttu marmaratröppurnar, og þaðan kemur heitið á vinnukonustiganum. Ég á mér líka nokkra uppáhaldsstóla hér í Húsó, þar sem mér þykir gott að tylla mér niður með kaffibollann,“ segir Marta María, rétt á meðan hún kastar mæðinni enda í nægu að snúast í Hússtjórnarskólanum.

„Hér dúkka upp fjölmörg framkvæmdatækifæri, enda gamalt hús sem þarfnast umhyggju. Í síðustu viku lék ég til dæmis pípara og slóst við stíflu í vaski á heimavistinni. Svo frétti ég af vaski og glugga sem voru eitthvað að andmæla núna um helgina, þannig að ég þarf að líta á það. Ef einhvern handlaginn langar í hobbí – þá má hinn sami endilega hafa samband,“ segir Marta María glettin.