„Þetta er bók um fólk sem upplifði Tsjernobyl-slysið á eigin skinni,“ segir Gunnar Þorri. „Tsjernobyl-slysið er stærsta tæknislys mannkynssögunnar; heimssögulegur atburður sem átti stóran þátt í hruni Sovétríkjanna. En í bókinni talar ekki stórsagan heldur einstaklingar sem lifðu af þessa miklu atburði: slökkviliðsmaður og konan í bakarí­inu, börn og utangarðsmenn, hinn venjulegi Sovétmaður.

Höfundurinn, Svetlana Aleksíe­vítsj, tekur viðtöl við hundruð einstaklinga. Lesandinn fer á eitt trúnó á fætur öðru, en smám saman teiknast upp fyrir honum eða henni stórbrotin heildarmynd bókarinnar.

Tsjernobyl-slysið er óleyst ráðgáta, eins og Svetlana segir á einum stað. Það er leyndardómur handa 21. öldinni og lesanda býðst að kafa inn í innstu kima þessa leyndardóms.“

Tilfinningar fólks

Spurður hvað heilli hann við bókina segir Gunnar Þorri: „Mér hefur alltaf þótt merkilegt að orðin „sannleikur“ og „mannkynssaga“ eru aðeins til í eintölu í íslensku. Enginn einn er aftur á móti handhafi sannleikans, samkvæmt þeirri bókmenntahefð sem Svetlana tilheyrir; sannleikurinn verður til í samræðu, það er að segja á milli þeirra sem leita hans í sameiningu.

Hið sama á við um mannkynssöguna: Hún er vanalega skrifuð út frá sjónarhóli sigurvegarans. Í Tsjernobyl-bæninni birtist hins vegar önnur og margbrotnari sýn á fortíðina. Margradda kór ólíkra radda leiðir lesandann að kviku atburða sem eru hræðilegir og heillandi í senn. Aðferð höfundar gerir það að verkum að tilfinningar fólksins, en ekki sögulegar staðreyndir, eru í brennidepli.

Bókin samanstendur af frásögnum sem eru upp á líf og dauða, þær fjalla um ástina og stóru tilvistarspurningarnar. Þetta eru miklar nútímabókmenntir, sem sverja sig í ætt við rússneska skáldjöfurinn Fjodor Dostojevskí og það heillaði mig.“

Beðinn um að lýsa því hvernig var að þýða bókina segir hann:

„Að þýða þessa bók var eins og að vera læknir á bráðavakt. Ég get ekki lýst því öðruvísi. Ég þýddi einn vitnisburðinn á fætur öðrum, grét mikið en hló reyndar líka oft, því bókin er full af kolsvörtum sovéskum húmor. Þegar ég glímdi við trámatískustu frásagnirnar var ég oft dofinn svo dögum skipti, en ég hafði mínar leiðir til að halda sönsum – fylgdist grannt með Esjunni og hlustaði reglulega á lagið „The Future“ með Leonard Cohen.“

Hugrekki á okkar tímum

Svetlana Aleksíevítsj hlaut Nóbels­­verðlaunin í bókmenntum árið 2015 og hafa bækur hennar verið þýddar á 53 tungumál. Um höfundinn segir Gunnar Þorri:

„Við hrun Sovétríkjanna upplifðu rússneskir rithöfundar frelsi sem var tvíeggjað. Í gömlu „vondu“ dagana höfðu þeir verið „samviska þjóðarinnar“ og „verkfræðingar sálarinnar“, en við hrunið urðu bækur eins og hver annar kapítalískur varningur – seldar á sama hátt og titrari eða snjóþvegnar gallabuxur. Bækur Svetlönu Aleksíevítsj eru afturhvarf til þess tíma þegar bókmenntir og rithöfundar höfðu veigamikið fagurfræðilegt og samfélagslegt vægi.

Svetlana fær Nóbelsverðlaunin „fyrir margradda skrif, minnisvarða um þjáningar og hugrekki á okkar tímum“ og í þessum orðum endurspeglast í senn erindi hennar við nútímann, en um leið tengsl hennar við félagslegt raunsæi Sovétríkjanna sem og gullöld rússneskra bókmennta – hinar breiðu skáldsögur höfunda á borð við Dostojevskí.

Í ár eru 35 ár liðin frá Tsjernobyl-slysinu og því lá beint við að þýða „Bænina“ en ég get óhikað mælt með öðrum bókum höfundarins.

Stríðið á sér ekki kvenlega ásjónu (1985) samanstendur af vitnisburði sovéskra kvenna í síðari heimsstyrjöldinni, Sínk-drengirnir (1991) tekst á við hernaðarbrölt Sovétmanna í Afganistan, Dulmagn dauðans (1994) fjallar um hækkandi sjálfsmorðstíðni í kjölfar hruns Sovétríkjanna og í sinni nýjustu bók, Tíminn í second hand (2013), glímir Svetlana Aleksíevítsj enn á ný við hlutskipti Homo Sovieticus eftir hrun Sovétríkjanna.

Það er gaman að geta þess að kafli úr þessari síðastnefndu bók mun innan tíðar birtast í Tímariti Máls og menningar í þýðingu Hrings Ásgeirs Sigurðarsonar, sem er einn af okkar allra efnilegustu rússneskufræðingum.“