Karitas, sem verður tvítug í sumar, hefur svo sannarlega ekki setið auðum höndum undanfarin ár. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskólanum 18 ára gömul en hún sleppti 9. bekk og komst því fyrr í framhaldsskóla. Þaðan lá leiðin beint í Háskóla Íslands. Karitas stefnir á að ljúka BA-námi á tveimur og hálfu ári eða um næstu áramót.

Karitas stundar nám í íslensku og ritlist og langar að námi loknu að fara í mastersnám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

„Mig langar líka pínu að fara að kenna svo þetta er smá valkvíði. En eins og er þá stefni ég á hagnýta ritstjórn og útgáfu,“ segir hún.

Það kemur líklega engum sem þekkja Karitas á óvart að hún hafi valið sér að læra íslensku og ritlist. Hún hefur nú þegar gefið út fjórar ljóðabækur og hefur alla tíð haft gaman af íslensku.

„Ég var ekki góð í íþróttum sem krakki og er ekki mikil keppnismanneskja en ég var góð í íslensku og fékk mikla hvatningu frá kennurunum mínum. Ég hugsaði þess vegna með mér að það væri best að finna einhverja framtíð í því sem ég er góð í. Þar sem ég get ekki verið að keppa í íþróttum þá er íslenskan minn metnaður, málfræðireglur og fleira skemmtilegt,“ segir Karitas og hlær.

Virk í félagsstarfi

Skrifin segir Karitas að hafi verið hluti af íslenskuáhuganum. „Við vorum mikið hvött til þess að skrifa í skólanum mínum og það var mikið af skrifverkefnum. Ég hafði alltaf gaman af þeim. Ég hef gefið út fjórar ljóðabækur í heildina, eða í raun þrjár og eitt lítið hækuhefti,“ segir hún.

Karitas gengur langoftast í kjólum. En þennan samfesting úr Lindex fékk hún fyrir 17 ára afmælið sitt. FRÉTTABLAÐIÐ/?SIGTRYGGUR ARI

Karitas segir viðtökur við ljóðabókunum hafa verið góðar, sérstaklega með tilliti til þess að hún gaf þær út sjálf og er óþekkt.

„Bækurnar hafa selst upp og ég hef fengið að lesa upp í útvarpi og á kvennafrídaginn út af ljóðabókunum mínu. Það eru algjör forréttindi í rauninni, sérstaklega þar sem ég er ekki með neinn kynningarfulltrúa eða neitt slíkt.“

Karitas segist hafa byrjað að skrifa ljóð þegar hún lenti í ástarsorg í fyrsta sinn 15 ára. „Þetta voru svona klassísk unglingaljóð. En ég hef verið aðeins að breyta yrkisefninu núna. sérstaklega eftir að ég byrjaði í ritlist og fór í svona smiðjuvinnu þar sem ég heyri frá öðrum og fæ þannig nýjar hugmyndir sjálf.“

Á kvennafrídaginn 2018 las Karitas upp þrjú frumsamin ljóð eftir sig sem voru samin sérstaklega fyrir tilefnið.

„Ég hef alltaf verið virk í félagsstarfi. Ég var formaður Femínistafélags Verzló á síðasta árinu mínu þar og var í Reykjavíkurráði ungmenna sem unglingur. Vorið 2018 stofnaði ég svo og var eini meðlimur ungmennaráðs Kvennahreyfingarinnar sem þá var í framboði. Maríanna Clara, sem var að skipuleggja kvennafrídaginn 2018, hafði samband við mig og spurði hvort ég væri til í að skrifa þrjú ljóð til að flytja á frídeginum en hún hafði heyrt af því að ég skrifaði ljóð.“

Elskar pils og kjóla

Karitas hefur gaman af gamaldags tísku og segist elska pils og kjóla og að vera fín. Hún segist ekki endilega vera að reyna að skapa sér sinn eigin stíl. Hún einfaldlega gerir sér far um að vera fín án þess að velta því fyrir sér hvað öðrum finnst. „Mér finnst líka óþægilegt að ganga í buxum en það er vandmeðfarið að ganga í kjólum upp á hvern dag. Það þarf að finna eitthvað tempó í því. En ég sæki mikið í 60’s og 70’s kjóla,“ segir Karitas sem kaupir kjólana sína oftast á netinu en finnur þá líka oft í búðum með notuð föt eins og Hertex og Rauðakrossbúðunum.

Gamaldags kjólar eru í miklu uppáhaldi hjá Karitas. Þessir tveir eru í sérstöku uppáhaldi en hún keypti þá á Asos. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

„Ég tek stundum tímabil þar sem ég horfi á gamlar myndir og þætti og fæ innblástur þar. En svo er að koma mikið í tísku núna að vera vintage. Það er í tísku að vera öðruvísi. Mér finnst það geggjað. Þá er svo auðvelt að finna innblástur og gera hann að sínum eigin.“

Karitas á alls kyns kjóla, bæði hversdags- og sparikjóla og segir hlæjandi að hún sé eiginlega með kjólafíkn. En tveir kjólar eru í sérstöku uppáhaldi.

„Það eru sparikjólar í 50’s stíl. Annar er flöskugrænn og hinn er bleikur. Ég er mjög hrifin af þeim. Þeir eru svona spari, spari. Ég keypti þá báða á Asos, þeir eru ekki alvöru vintage heldur eru þeir innblásnir af 50’s-tímanum,“ útskýrir Karitas en hún segist mjög hrifin af Asos.

„Asos er með markað á netinu þar sem hægt er að kaupa notuð föt og vintage föt. Ég keypti til dæmis dragt þar um daginn sem er mjög flott.“

Miðað við hverju Karitas hefur áorkað á tæpum 20 árum er ljóst að þessi flotta unga kona á eftir að láta til sín taka í framtíðinni og það verður spennandi að fylgjast með henni.