Franski leikarinn Gaspard Ulliel, sem leikur eitt aðal­hlut­verki í væntan­legu Mar­vel þáttunum Moon Knight, er látinn að­eins 37 ára að aldri eftir al­var­legt skíða­slys.

Ulliel, sem er einn þekktasti leikari Frakk­lands, var staddur í skíða­ferð í Savoi­e héraðinu í frönsku Ölpunum þegar hann lenti í á­rekstri við aðra mann­eskju.

Hann fékk al­var­lega höfuð­á­verka og fluttur með þyrlu á spítala í Grenoble þar sem hann lést daginn eftir. Hin manneskjan sem lenti í slysinu þurfti ekki að leggjast inn á spítala og fer rann­sókn nú fram á til­drögum slyssins.

Fregnirnar af láti Ulliel koma að­eins einum degi eftir að stikla fyrir sjón­varps­þættina Moon Knight, þar sem hann fer með hlut­verk Midnight Man, var gefin út á netinu.

Algjört sjokk

Fjöl­margir hafa harmað and­lát Ulliel á sam­fé­lags­miðlum, þar á meðal fjár­mála­ráð­herra Frakk­lands, Bruno Le Maire sem skrifaði á Twitter „frönsk kvik­mynda­gerð hefur misst risa­stóran hæfi­leika­mann, upp­fullan af sjarma og orku“.

Hand­rits­höfundurinn og gagn­rýnandinn Ca­spar Salmon sagði fregnirnar vera al­gjört skokk og lýsti Ulliel sem „leikara með um­tals­vert að­dráttar­afl, hæfi­leika og fegurð, sem hefur þegar skaðað sér til­komu­mikinn og fjöl­breyttan feril.“

Ulliel fæddist rétt utan Parísar árið 1984 og hóf feril sinn að­eins 11 ára að aldri. Hann vakti heims­at­hygli fyrir túlkun sína á ungum Hannibal Lecter í kvik­myndinni Hannibal Rising og er einnig þekktur fyrir hlut­verk sín í myndunum A Very Long Enga­gement og It's Only the End of the World.

Hann lætur eftir sig ungan son og kærustu, söng­konuna og fyrir­stæuna Gaëlle Piétri.