Fyrirlesarinn og markaðsráðgjafinn Alda Karen Hjaltalín setti allt á annan endann í fyrra þegar hún hélt fyrirlestur í Hörpu sem þræddur var á umdeildan og eldrauðan þráð þar sem klifað var á „þú ert nóg“.

Hörðu viðbrögðin og deilurnar sem boðskapur Öldu Karenar vakti víða er sjálfsagt mörgum enn í fersku minni, en Alda Karen lætur hvorki það né annað raska ró sinni og er komin í heimsókn frá New York með nýjan fyrirlestur á öðrum nótum, þótt kjarninn í hugmyndafræði hennar sé enn sem fyrr að hún er nóg.

„Við erum klárlega óstöðvandi og það sem er svo geggjað við þessar dömur er að þær hafa allar náð ótrúlegum árangri fyrir þrítugt, hver á sínu sviði, og framtíðin er svo sannarlega þeirra,“ segir Alda Karen um þær Guada Stewart, Emily Knesevitch, Sydney Lai og Marisa Peer, sem verða með henni í Silfurbergi í Hörpu á föstudaginn.

Öflugt net

„Við ætlum að fara svolítið djúpt í það á föstudaginn hvernig við getum verið opnari og aðgengilegri og hjálpað öðrum að koma sér á framfæri og þar af leiðandi hjálpa sjálfum okkur að koma okkur á framfæri,“ segir Alda Karen, sem að þessu sinni setur mikilvægi tengslanets fyrir fólk á framabraut í brennidepil.

Alda Karen kynntist framavinkonum sínum eftir að hún flutti til New York til þess að hasla sér völl og segir þær allar hafa reynst henni vel og kristalli þannig í sjálfu sér boðskapinn um hvernig eigi að nýta tengslanetið til að byggja upp farsælan feril.

„Það besta við þær allar er að þótt þær séu komnar ótrúlega langt þá eru þær enn að hamast á fullu og það er svo skemmtilegt að tala við fólk sem er á miðjum ferlinum. Þá eru bæði mistökin og sigrarnir enn ferskir og það er einhvern veginn allt að gerast í einu,“ segir Alda Karen, sem segist langa til þess að gefa fleiri íslenskum konum tækifæri til að kynnast þeim. Auk þess sem hún sé með þessu trú eigin boðskap um að best sé að deila reynslunni jafn- óðum og maður öðlist hana.

Alda Karen leggur áherslu á að mistök séu til þess að læra af þeim. Mynd/Mary Boyiagi
Mynd/Adam Wamsley

Læsti tönnunum í stóra eplið

Alda Karen flutti til New York fyrir þremur árum og var fljót að kynnast fólki og renna stoðum undir fyrirtæki sín, AK Consulting og A-KAY media group. „Þegar ég kom til New York þekkti ég hvorki kóng né prest og þurfti bara svolítið að byggja upp nýtt líf og nýtt tengslanet frá grunni og það getur reynst frekar erfitt þegar maður er í nýju landi og þekkir engan.“

Trú eigin kenningum fór Alda Karen beint á stúfana í stóra eplinu og lagði sig fram um að hitta og kynnast rétta fólkinu. „Ég hitti yfir hundrað fyrsta mánuðinn sem ég var þarna og langar bara að deila því hvernig ég gerði þetta og hvernig ég byggði upp fyrirtækið mitt.“

Þegar kemur að því að vefa tengslanet segir Alda fólk þurfa að geta stigið út fyrir þægindarammann. „Maður þarf að byrja á því að spjalla við fólk, hvort sem það er heima eða erlendis, kynnast því og sjá hvað þú getur gert fyrir það og svo getur það kannski gert eitthvað fyrir þig og síðan byggirðu ofan á það.“

Skjól einlægninnar

Þegar Alda Karen er spurð hvaða þætti hún leggi mesta áherslu á í fagnaðarerindi þessarar Íslandsheimsóknar segir hún einlægnina mikilvægasta ásamt kunnuglegum undirtón.

„Ég held að það sé eins og ég tala oft um, að um leið og þú nærð að telja þér trú um að þú sért nóg, þá verða þér allir vegir færir.“ Galdurinn sé að koma svolítið til dyranna eins og maður er klæddur. „Þú kemur inn í samræður bara eins og þú ert og stundum nærðu tengingu og stundum nærðu ekki tengingu.“

Alda Karen bætir við að þvert á það sem ef til vill ætla mætti, þá veiti einlægnin styrk þótt hún geti vissulega virst vera veikleikamerki. „En það er svo geggjað að þegar maður er einlægur og maður sjálfur og það er ráðist á mann, þá hefur það minni áhrif en ef maður er ekki einlægur.

Þannig að það er svo næs þegar þú nærð því að vita að þú sért nóg þá einhvern veginn hefurðu ekki þessa þörf fyrir að, hvorki verja þig, né þurfa endilega að segja þína hlið á sögunni.

Þú bara leyfir heiminum dálítið að gera það sem hann vill gera og svo heldurðu bara áfram að gera það sem þú ert að gera og þess vegna er ég komin aftur með annan fyrirlestur og allir í megafjöri og ég er geggjað spennt.“

Guada Stewart, Sydney Lai og Emily Knesevitch koma einnig fram með Öldu á morgun í Silfurbergi. Mynd/Adam Wamsley
Mynd/Adam Wamsley

Elskar öll mistök

Alda Karen leggur einnig áherslu á að mistök séu til þess að læra af þeim. „Ég elska öll mistökin mín. Ég get ekki elskað sjálfa mig án þess að elska allt sem hefur komið fyrir mig og það getur verið ótrúlega erfitt,“ segir hún og bætir við að hún þurfi því oft að minna sig á þetta.

„Ég hef alveg átt mína erfiðleika og komið orðunum illa frá mér og svona og það er allt í lagi. Ég læri af því og held áfram og stundum er ég ógeðslega góð í þessu og stundum er ég alveg hræðileg í þessu. Lífið mitt er bara upp og niður eins og hjá öðrum.“

Það sem mestu skiptir er trúin á sjálfan sig og að maður sé nóg eins og maður er. „Það besta við mig er að ég er bara rétt að byrja og mér finnst svo fyndið að fólk fattar það stundum ekki alveg, en þetta eru, held ég, bestu rökin sem ég nota til þess að minna sjálfa mig á að læra að vera þakklát fyrir allt sem ég hef lent í.

Það sem ég hef lært bara á síðasta ári mun sko hjálpa mér allt mitt líf og það að segja sjálfri mér þetta og minna mig á, hjálpar mér að vera þakklát fyrir allt sem ég hef reynt.“

Allt fram streymir

Alda Karen heldur áfram á þessum nótum og gerist nokkuð skáldleg en þó með fyrirvara um að ekki sé ætlunin að gerast of andleg. „Ég hef talað um að leyfa bara lífinu að flæða. Ég veit að ég stjórna engu og það var pínu erfitt fyrir mig að komast á þann stað af því að mér finnst mjög gaman að stjórna hlutunum og finnst gaman að skipuleggja og gera allt og svoleiðis.“

Alda Karen segir hins vegar að svo komi bara að því að maður þurfi að svolítið að leyfa sér að gefast upp fyrir heiminum. „Og leyfa svolítið að taka mann í þetta ferðalag sem lífið er og án þess að ég vilji hljóma hallærisleg þá er engin rétt tímasetning. Bara þín eigin tímasetning og tíminn er eins og vatnið.

Tíminn er alltaf alls staðar í fortíð, framtíð og nútíð. Vatnið er efst á jöklinum og það er líka neðst við sjóinn á sama tíma og án þess að vera eitthvað spiritúal þá held ég að pressan í samfélaginu um að það þurfi að tikka í öll boxin sé svo djúpstæð að maður upplifi að maður sé aldrei nóg og það tekur alveg tíma að telja manni trú um að maður sé nóg.“