Hljómsveitin The Vintage Caravan gefur út fimmtu breiðskífu sína, Monuments, þann 16. apríl næstkomandi hjá útgáfufyrirtækinu Napalm Records. Tvö lög eru komin út og í vikunni kom út tónlistarmyndband fyrir annað þeirra.

The Vintage Caravan hefur verið á fullu á tónleikaferðum um heiminn undanfarin ár með mjög þekktum sveitum en eins og aðrar stoppaði hún í COVID og þurftu meðlimirnir að venjast nýjum veruleika. Þeir hafa nýtt tímann til að nostra við nýju plötuna, sem er bæði fjölbreyttari og einlægari en fyrri verk.

Meðlimir sveitarinnar eru Alexander Örn Númason bassaleikari, Stefán Ari Stefánsson trommari og Óskar Logi Ágústsson, gítarleikari og söngvari. Óskar segir að hann hafi sitt lifibrauð af sveitinni.

„Við spilum á allt að 100 tónleikum erlendis á ári og höfum ekki verið svona lengi heima síðan árið 2013,“ segir Óskar. „Þetta er voðalega skrítið ástand. Það á sínar jákvæðu hliðar en neikvæðu hliðarnar eru fleiri. En maður lærir bara á þetta. Ég eignaðist hund og er orðinn hundapabbi í fullu starfi. Svo verður maður að hugsa vel um sig og ég stunda fjallgöngur, hlaup og jóga til að halda uppi andlegu hliðinni.“

Á „autopilot“ á Eistnaflugi

Óskar segir að þegar The Vintage Caravan fer á svið fari öll kurteisin út um gluggann.

„Við erum rokkband og það eru mikil læti og mikill kraftur,“ segir hann. „Þetta er svolítið eins og að vera í einhverri jaðaríþrótt, þessir tónleikar taka alltaf mikið á. Maður lítur vel út í fyrstu tveimur lögunum og eftir það er eins og ég hafi hlaupið maraþon, maður er kófsveittur og leggur allt í þetta á hverjum tónleikum.

Það getur verið snúið og stundum yfirþyrmandi. Ég man að seint á árinu 2015 brann ég smá út. Það var annað árið af þremur þar sem við spiluðum á um 100 tónleikum á ári og þar áður höfðum við verið á fullu hérna heima. Það kom punktur þar sem mig langaði ekki að mæta í flugið. En stundin á sviðinu gerir allt flugvallahangsið og endalausu seturnar í sendiferðabílum þess virði. Ég sé þetta líka allt í hillingum núna og veit ekkert hvað ég var að væla,“ segir Óskar og hlær. „Maður þarf líka að muna að vera þakklátur og stundum þarf maður aðeins að klípa sig, það er magnað hvað draumurinn rættist.

En ég man til dæmis eftir einum degi þar sem við vöknuðum fjögur um nótt og höfðum verið að spila kvöldið áður, keyrðum í fjóra tíma til Frankfurt, tókum svo flug til Keflavíkur, svo til Egilsstaða, keyrðum svo í Neskaupstað og fórum beint upp á svið á Eistnaflugi 2014,“ segir Óskar. „Ég var alveg uppgefinn og man ekkert eftir þessum tónleikum. Ég var bara á „autopilot“ allan tímann og þegar ég gekk af sviðinu þurfti ég að spyrja fólk hvort þetta hefði verið í lagi, því ég mundi ekkert sem hafði gerst. En það voru allir ánægðir.“

Nostruðu við plötuna

„Við tókum upp fimmtu plötuna okkar korter í COVID á síðasta ári. Við eyddum svo rosa löngum tíma í að hljóðblanda plötuna í gegnum tölvupóst og einstaka símtöl við framleiðandann okkar, Ian Davenport,“ segir Óskar. „Það var svolítið hægt ferli, en það var gott að hafa tíma til að nostra við plötuna.

Það hefur verið ágætt að fá aðeins að anda og allir eru að gera sitt. Alexander fór til dæmis í Iðnskólann að læra rafvirkjun og hefur verið að búa til gítareffekta,“ segir Óskar. „Stefán trommari er líka mikið að mynda fyrir hljómsveitir og svona, hann er frábær ljósmyndari.

Eitt af því sem við höfum gert til að fylla upp í tímann er að standa fyrir streymistónleikum og það stendur til að við tökum upp núna á laugardaginn í Grindavík af öllum stöðum,“ segir Óskar. „Við tilkynntum þessa tónleika og svo rétt eftir það kom frétt um að það kæmi gos á næstu klukkutímum. Þannig að tímasetningin var ekki mjög heppileg. Það verða bara 45 gestir á tónleikunum vegna sóttvarnaráðstafana en þeim verður svo líka streymt á vVenue gegn gjaldi þann 27. mars.“

Lokaði kafla í sorgarferlinu

Óskar segir að Monuments sé fjölbreyttasta platan til þessa og innihaldi bæði poppuðustu parta sem þeir hafa gert en líka mesta þungarokkið.

„Við vildum leyfa lögunum að vera eins og þau vildu vera. Ef það vildi vera langt var það langt og ef það vildi vera poppað og stutt leyfðum við það, en áður vorum við stundum feimnir við að vera poppaðir,“ segir Óskar. „Þetta er líka persónulegasta platan okkar. Ég hef fundið að þegar ég eða Alexander opnum okkur meira þá snertir það fólk öðruvísi. Þá gefur fólk manni besta hrósið sem er hægt að fá, að tónlistin hafi hjálpað því gegnum eitthvert erfitt tímabil. Ég verð snortinn af því að geta hjálpað einhverjum þannig.

Óskar segist hafa fundið að þegar sveitin opnar sig í lagatextum snerti tónlistin öðruvísi við fólki. Hann segir að besta hrósið sem hann geti fengið sé að tónlistin hans hafi hjálpað einhverjum gegnum erfitt tímabil. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Við ákváðum því að vera mjög opnir og einlægir á nýju plötunni. Það er til dæmis lag þarna um bróður minn, sem lést árið 2018. Það var mjög hreinsandi reynsla að syngja þetta en um leið er maður pínu hræddur við að gefa út lag um eitthvað svona viðkvæmt,“ segir Óskar. „En mér fannst ég þurfa að gera það og fannst ég loka ákveðnum kafla í sorgarferlinu með laginu. Ég sagði það sem mig langaði að segja og kom þessu frá mér. Það vildi líka svo til að foreldrar mínir komu einmitt í hljóðverið þegar við vorum að taka það upp og við kveiktum á kertum og úr varð magnað augnablik.

Okkur finnst tilgangslaust að gefa út nýja plötu ef það er ekki það besta sem við höfum gert og okkur finnst Monuments vera það,“ segir Óskar.

Sveitin er þegar búin að gefa út tvö lög af nýju plötunni, Whispers og Crystallized, og í vikunni kom út tónlistarmyndband fyrir það síðarnefnda sem Nich­olas Þór Peter Helgason leikstýrir.

„Það var frekar fyndið að við tökurnar grófum við okkur í svarta sandinn á Hjörleifshöfða í nokkra klukkutíma og hausinn á mér var það eina sem stóð upp úr,“ segir Óskar.

„Whispers er fyrsta smáskífan okkar sem kemst bæði á vinsældalista Rásar 2 og á Domino’s listann hjá X-inu, þar sem við erum í áttunda sæti. Það er gaman að fá svona fínar viðtökur hérna heima, okkur langar að ná meira til Íslendinga og spila meira hér,“ segir Óskar. „Það hjálpar að við höfum náð góðum árangri erlendis, það veitir okkur athygli. Við ætlum líka að blása til alvöru útgáfutónleika þegar allt róast og það stendur til að spila á Aldrei fór ég suður um páskana og meira seinna á árinu.“

Verkefni með meðlimi Opeth

Haustið 2022 fer The Vintage Caravan svo í þriðja tónleikaferðalagið með sænsku þungarokks­goðsögnunum í Opeth.

„Okkur kemur afskaplega vel saman. Maður er alltaf smá hræddur við að það verði ekki góður andi því maður þarf að búa með þeim sem maður túrar með en við erum allir góðir vinir og í góðu sambandi. Ég og einn ákveðinn meðlimur í sveitinni höfum líka verið að ræða að vinna saman að ákveðnu verkefni, en ég vil ekki segja meira,“ segir Óskar spenntur. „Það er frekar brjálað og verður kannski á næstu tveimur árum.“

Ostagosbrunnar og gítarsóló

„Það er magnað að túra með svona stórum, þekktum sveitum. Við túruðum til dæmis með Europe einu sinni og það var frábær túr, þeir voru herramenn og það var geggjað að heyra The Final Countdown á hverju kvöldi,“ segir Óskar. „En maður þarf að muna að 98 prósent af fólkinu eru ekki þarna til að sjá þig svo maður þarf að sanna sig. Þannig að við gefum allt í tónleikana til að sannfæra alla um að kaupa plötu og að við eigum skilið að vera þarna. Það er miserfitt en ógeðslega gaman. Ef ég sé einhvern sem er ekki að skemmta sér fer ég til hans og brosi og spila gítarsóló í andlitið á honum og þá er hann yfirleitt kominn í stuð. Svo er allt miklu fínna baksviðs en maður er vanur, það eru ostagosbrunnar og svona hlutir sem við óskum ekki eftir sjálfir.

Við finnum líka að við erum að ná til sífellt stærri hóps. Það varð sprenging fyrst þegar við fórum út eftir Voyage og svo fundum við hvernig Gateways fór með okkur á næsta stig, en við gerðum hana einmitt með sama framleiðanda og nýju plötuna,“ segir Óskar. „Við fengum meiri útvarpsspilun eftir hana og það var alltaf uppselt á tónleika, sem var kærkomið. Það er frábært að finna þetta vaxa og að það sé tekið vel í nýtt efni. Ég get ekki beðið eftir að fara að spila nýja efnið á tónleikum.“